30.03.1935
Neðri deild: 41. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í C-deild Alþingistíðinda. (4048)

100. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Jóhann Jósefsson) óyfirl.]:

Ég þarf ekki að lýsa þessu máli sérstaklega í þetta sinn fyrir d., með því að það er alveg shlj. samskonar frv., er flutt var á síðasta þingi og var þá fram komið sem einn liður í þeim tilraunum til viðréttingar sjávarútvegsins, sem milliþn. í sjávarútvegsmálum áleit, að gera þyrfti.

Okkur er kunnugt, að sá grundvöllur, sem við viljum byggja framtíð fiskveiðasjóðs á, er ekki að öllu leyti geðþekkur öllum hv. þdm., og þó sérstaklega ekki hæstv. stj. En það þýðir ekki á þessu stigi málsins að gera það sérstaklega að deiluefni. Það er sýnt, að ef ekki verður fallizt á þennan grundvöll, þá verður að finna annan nýjan og traustari, svo að fiskveiðasjóður verði fær um að inna af hendi þetta fyrirhugaða starf. Og ef hægt er að benda á annan grundvöll til fjáröflunar í þessu skyni, fjáröflunar, sem er eins traust og sú, sem hér er á bent, þá er skylt og rétt að taka það til athugunar, og mun sennilega verða gert á sínum tíma, en að svo komnu máli viljum við halda við þann grundvöll, sem við lögðum upphaflega.

Ég hefi ekki heyrt því andmælt með rökum, að sú leið, sem við höfum lagt til að farin verði, sé rétt, nefnilega að ríkissjóður taki að sér að greiða það lán, sem tekið var á sínum tíma hjá Landmandsbankanum í Kaupmannahöfn.

Um þörfina á að efla fiskveiðasjóð og gera hann færan til þess að standa undir útlánum til eflingar útveginum þarf ekki að deila; allir eru sammála um það, að þörf sé á að auka og bæta fiskveiðasjóð.

Ég legg til, að þetta frv. verði athugað í n.; af því að í sjútvn. er annað frv. um sama efni, er nauðsynlegt, að þau verði athuguð samhliða og borin saman. Það er hin fyllsta nauðsyn að efla fiskveiðasjóð með samkomulagi beggja aðilja, er að frumvörpunum standa. Ég held, að það frv., sem nú liggur fyrir sjútvn., sé til lítilla bóta; það er brýn þörf á því, að fiskveiðasjóður starfi á víðtækara grundvelli en þar er gert ráð fyrir. Og vil ég jafnframt minna á, að með þessu frv., ef samþ. verður, er lagður sá grundvöllur að lánsstofnun, sem stærri fiskiskip geta fengið stuðning hjá á ókomnum árum. Hið merkasta við þetta frv. er, að með því er gert ráð fyrir, að fiskveiðasjóður nái eigi aðeins til bátaútvegsins, heldur er ætlazt til, að hann veiti lán til endurnýjunar á togaraflotanum. Vera má, að það þyki ekki svo sérstaklega nauðsynlegt hlutverk, séð frá sjónarmiði einstöku þingmanna, eða jafnvel þingflokka. En flm. frv. telja mikla nauðsyn á, að það mál verði þannig leyst. - Þá duga því ekki smávegis orðabreyt. á fiskveiðasjóðslögunum, heldur verður að sjá sjóðnum fyrir því fjármagni, að hann geti eflzt hröðum skrefum og orðið með tíð og tíma svo öflugur, að hann geti veitt stofnlán til endurnýjunar á öllum fiskiflota landsbúa.