23.03.1935
Neðri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í C-deild Alþingistíðinda. (4056)

110. mál, eignarnám lands handa kaupfélagi Rangæinga

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Það, sem hv. 5. þm. Reykv. finnst að þessu máli, er, að hann álítur, að hér sé ekki um almenningsheill að ræða, og þess vegna sé ekki rétt að gefa slíka eignarnámsheimild sem þessa. Og ástæðan fyrir því, að hv. þm. áleit hér ekki um almenningsheill að ræða, var, að ég nefndi það, að kaupfélagið þarna austurfrá þyrfti að hafa hrossabeit til afnota. Og hv. þm. fannst fjarstæða að hugsa sér, að hross geti ekki staðið beitarlaus allan daginn. Til þess að sýna, hvernig aðrir líta á þessa hlið málsins, þá vil ég nefna dæmi úr Austur-Skaftafellssýslu. Sýslunefndin þar skoraði á ríkið að hlutast til um, að af landi ríkissjóðs yrði lagt til land til hrossabeitar. Ég veit ekki betur en að kaupstaðurinn, sem þurfti að fá það land, hafi fengið til hrossabeitar dálítið land, þegar þessu landi var skipt upp.

Þó að þessum hv. þm. finnist ástæða til þess, að staður, sem er verzlunarstaður og margir menn sækja vörur til, þannig að þeir verði vegna sinna kaupstaðarferða að vera þar heila daga, þurfi ekki hrossabeit, þá býst ég við, að allir, sem eitthvað hafa með skepnur farið og vilja láta þeim líða sæmilega, vilji gera eitthvað til þess að það geti orðið.

Ég tók það fram áðan, að eigendur að landsvæðinu í kringum hús kaupfélagsins eru 5. Þess vegna hefir aðstaðan um kaup á þessu landi verið verri en annars mundi hafa verið, og þess vegna hafa samningar ekki náðst um kaup á því. Ég get búizt við, að þegar þessir landeigendur sjá, að ætlað er að skapa aðstöðu fyrir kaupfélagið til þess að geta fengið landið keypt, þá náist samkomulag um kaupin.

Mér skilst, að það, sem hér er um að ræða, sé þetta: Er hér um almenningsþörf að ræða, eða er það ekki? Ég lít svo á, að hér sé um almenningsþörf að ræða fyrir þá menn, sem sækja þurfa til kaupfélagsins. En hv. 5. þm. Reykv. lítur ekki svo á, að hér sé um almenningsþörf að ræða.