23.03.1935
Neðri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í C-deild Alþingistíðinda. (4057)

110. mál, eignarnám lands handa kaupfélagi Rangæinga

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti. Það er nú kannske synd að hrella hv. flm. meira í þetta skipti, því að honum er alls ekki ljóst, hvað hér er fyrst og fremst um að ræða. Það kom ekki síður fram í síðustu ræðu hans, þar sem hann vildi leggja þetta að jöfnu við það, að ríkið hefði séð Hornfirðingum fyrir hrossabeit. Vitanlega hefir ríkið séð þeim fyrir hrossabeit á því landi, sem ríkið átti, þannig að þetta á nú ekki heima sem röksemd fyrir réttmæti frv.

En í ræðu hv. flm. nú komu fram nýjar ástæður fyrir frv., svo að ég get út frá þeim betur skilið, hvað hann er að fara. Hann sagði, að þessir 5 eigendur að umtöluðu landsvæði yrðu kannske ljúfari í samningum um sölu landsins, ef þeir sæju, að ef þeir ekki vildu semja um söluna, ætti samt að taka landið með því að láta ríkisvaldið neyða þá til að láta það af hendi eftir mati. Þetta get ég skilið, að hv. flm. ætlist ekki til, að neitt slíkt sem þetta verði gert að lögum, sem ég get vel trúað, að hann sjái, að kemur ekki til nokkurra mála, þegar hann hugsar sig um, heldur að hann ætli með flutningi frv. að reyna að hræða landeigendur, kannske fáfróða og vankunnandi í lögum þessu aðlútandi, til þess að selja landið, með því að láta þá halda, að annars vofi yfir þeim löggjöf um að taka af þeim landið eftir mati. Það er hugsun á bak við þetta, þó að ég viðurkenni alls ekki, að hún eigi nokkurn rétt á sér, því að þetta er tilraun til að leika á eða hrekkja þessa landeigendur. Þó að þetta frv. því komi hér fram, þá hefir það engin áhrif á skyldu þeirra til þess að selja landið.

Hv. flm. dettur ekki í hug ein leið til þess að fá land fyrir kaupfélagið, sem er, að það flytji sig, ef það vill ekki borga það, sem sett er upp fyrir landið. Vitanlega er það ekki mitt að gefa kaupfélaginu ráð. En þessi aðferð, sem stefnt er að með frv., hvort sem hún er ætluð til þess að hræða landeigendur til að selja landið eða það er hinsvegar ætlunin að gera þetta að lögum til þess að taka af þeim landið eftir mati, þá er þetta hvorttveggja í fullkomnu ósamræmi við stjórnarskrá og lög hins íslenzka ríkis. Og ef í eitt skipti er brotið það ákvæði stjskr., að eignarrétturinn sé friðhelgur, þá mun eitthvað fleira á eftir þessu frv. fara og skrítið.