23.03.1935
Neðri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í C-deild Alþingistíðinda. (4059)

110. mál, eignarnám lands handa kaupfélagi Rangæinga

Stefán Jóh. Stefánsson:

Hv. 2. landsk. tók af mér ómakið eftir að ég kvaddi mér hljóðs, og ég vil undirstrika það, sem hann sagði um málið.

Ég vil í sambandi við þetta frv. benda á lög nr. 75 frá 1917, um útmælingu lóða í kaupstöðum, löggiltum kauptúnum o. fl. Þar er að ræða um kaupstaði og kauptún, og þar er mönnum heimilað að fá sér útmældar óbyggðar lóðir í kaupstöðum eða löggiltum kauptúnum til verzlunar eða útvegs, þannig að þær séu teknar eignarnámi. Hugsunin, sem liggur til grundvallar þessum l. frá 1917, er að gera atvinnurekstur mögulegan í kaupstöðum og kauptúnum bæði um verzlun og útgerð og sporna við því, að einstaklingar, sem sitja þar uppi með lönd og lóðir, geti hindrað eðlilegan rekstur slíkra fyrirtækja þar á staðnum. Ég hygg, að eitthvað svipað liggi til grundvallar frv. því, sem hér um ræðir. Um hitt get ég sjálfur ekki dæmt, hvort þessu kaupfélagi muni vera nauðsynlegt að fá svo stórt land sem fram á er farið í frv., um 40 ha.

Ég álít það rétt, sem hv. 2. landsk. tók fram áðan, að það sé hlutverk þeirrar n., sem fær þetta mál til athugunar, að rannsaka, hvort ástæða sé til þess, að kaupfélagið fái eignarnámsheimild fyrir svo stóru landsvæði sem farið er fram á í frv., eða hvort það skuli yfirleitt fá nokkra heimild um eignarnám á landi þarna. En almennt skoðað ætla ég, að frv. eins og þetta sé ekki forkastanlegt fyrir það eitt, að það fer fram á, að veitt sé heimild til eignarnáms á landi handa atvinnufyrirtæki eins og t. d. kaupfélagi. Þó að það muni rétt vera, eftir því sem ég man frekast eftir, að ekki muni vera til nein sérstök l. um það, að einstaklingi eða einkafyrirtæki sé heimilað að taka eignarnámi eignir annara einstaklinga eða einkafyrirtækja, þá held ég samt, að grundvallarreglan, sem orðin er í löggjöfinni í sambandi við þau lög, sem ég benti á, sé sú, að það sé ekki álitið brot á ákvæðum stjskr. um verndun eignarréttarins né á móti eðli íslenzkrar löggjafar að fara inn á þær leiðir, sem þetta frv. gerir till. um. En um það get ég ekki dæmt eftir því, sem hér liggur fyrir, hvort þeim aðila, sem um er að ræða, kaupfélagi Rangæinga, sé nauðsynlegt að fá þetta land til umráða eða eignar til síns atvinnurekstrar. En sé þetta nauðsynlegt, get ég ekki annað séð en að frv. þetta sé réttmætt. Vil ég því taka undir það, sem hv. 2. landsk. sagði um þetta mál.