04.04.1935
Neðri deild: 44. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í C-deild Alþingistíðinda. (4068)

110. mál, eignarnám lands handa kaupfélagi Rangæinga

Magnús Torfason:

Hv. 5. þm. Reykv. gat þess, að ég hefði verið að vitna í l. í þessum ræðustúf, sem ég hélt um málið, þegar það var hér síðast á dagskrá. Þetta er ekki rétt. Ég vitnaði ekki í nein l., vegna þess að ég hafði ekki nein l. fyrir mér. Annað mál er það, að ég mundi eftir l., sem ég hafði sjálfur framkvæmt, og á því byggði ég mínar till. Að því er þetta frv. sjálft sérstaklega snertir skal ég ekkert segja um það og hefi ekkert sagt um það, hvort réttmætt sé, að það verði gert að l. eins og það er; m. ö. o. hvort almenningsheill krefjist þess að taka lóðina af þessum mönnum. Og vitanlega geri ég það af þeirri ástæðu, að það er ekki okkar að meta það, heldur þeirra manna, sem til þess verða kvaddir á sínum tíma. Ég skal játa það, að frv. er óheppilegt að því leyti, að það er miðað við einstakt tilfelli, við þörf einstakra manna. Ég tel, að það hefði verið miklu réttara að koma með frv. almennt þessa efnis. Það, sem liggur til grundvallar í frv., er þetta, að það eru engin l. til þess að taka jarðeignir manna undir verzlun fyrir utan kauptún og kaupstaði. Og þá væri aðeins spursmálið um það, hvort það er rétt að færa þetta út til landsbyggðarinnar yfirleitt. Og það var það, sem ég sagði og ég get ekki séð, að í neinn máta fari í bága við nein grundvallaratriði laga. Því fremur sem við höfum haft lengi l. í landinu, sem gera ráð fyrir þessu í kaupstöðum. Við höfum l. frá 13. marz 1891 um að fá útmældar lóðir í kaupstöðum og kauptúnum. Þegar þessi l. voru sett, voru þau skoðuð sem nokkurskonar frelsisskrá fyrir ísl. verzlunarstétt. Tilefni þeirra var það, að útlendar verzlanir áttu miklar lóðir og lendur og jarðir jafnvel þar, sem kauptúnin voru risin. Og sérstaklega var tilefni l., að í Vopnafirði átti útlend verzlun alla lóðina - jörð að ég hygg - og hafði neitað um að láta byggja þar undir verzlun. Þeir útlendu menn gengu svona vítt, alveg gagnstætt l. í þeirra eigin landi, að þeir ætluðu að beita þessu harðræði.

Ég sé þá ekki betur en að það sama geti gilt í sveit eftir að farið er að setja verzlanir upp um sveitir, sem vitanlega er samfara því, að farið er að nota bíla hér á landi. Ég get ekki séð annað en að þörfin sé hér sú sama, og ég sé ekkert í neinum grundvallarlögum, sem mælir gegn þessu. En hvað það sérstaklega snertir, að það er kaupfélag, sem á þarna í hlut, þá get ég ekki séð betur en að það hljóti að öðru jöfnu að vera eins mikil almenningsnauðsyn til að ná í slíka lóð fyrir þau eins og fyrir aðrar verzlanir. Það er ekkert um annað að deila hérna heldur en þetta, hvort verzlanir í sveit, kaupfélög eða aðrir eigi að geta fengið rétt sinn með þessu móti, sem gert er ráð fyrir í l. um útmæling lóða í kauptúnum allar götur frá 1891.

Ég legg til fyrir mitt leyti, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og n. og upp úr frv. verði soðin almenn l. um þetta efni, að verzlanir og kaupfélög til sveita hafi alveg sama rétt og í kaupstöðum. En ég vil taka það fram, að ég get ekki verið á móti þessu frv., enda eru lóðir í kaupstöðum miklu verðmætari en mýraflákar uppi í sveit, eins og þarna er um að gera.