04.04.1935
Neðri deild: 44. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í C-deild Alþingistíðinda. (4071)

110. mál, eignarnám lands handa kaupfélagi Rangæinga

Hannes Jónsson:

Hér er um tvö óskyld atriði að ræða. Annað er það, að útvega kaupfélaginu lóðaréttindi undir verzlunarhús þess, eftir því sem þörf krefur. Ég tel það réttmætt, að sveitaverzlunum séu útveguð slík lóðaréttindi með löggjöf, ef með þarf.

Hitt er með öllu óskylt mál, að ætla sér að taka eignarnámi 130 vallardagsláttur af landi til bithaga eða til afnota fyrir starfsmenn kaupfélagsins. Ef á að gera þetta í sveitum, yrði að taka upp sömu reglu um kaupfélögin í kauptúnunum, því að þau þurfa ekki síður bithaga og lystigarða. En alstaðar þar, sem ég þekki til, hefir gengið sæmilega að fá nauðsynlegt land til hestabeitar, og skil ég ekki í öðru en að svo sé líka á þessum stað. Og ólíklegt þykir mér, að nokkur knýjandi nauðsyn sé á því fyrir kaupfélagið að fara að koma þarna upp búrekstri.

Hv. þm. N.- Þ. sagði, að á síðustu árum hefði á ýmsan hátt verið gengið á friðhelgi eignarréttarins í löggjöfinni. Þótt satt kunni að vera, að þjóðfélagið hafi stundum af knýjandi ástæðum gengið nærri eignarréttinum, táknar það vitanlega ekki það, að ekki eigi að setja nein takmörk fyrir því, hve lítil sem þörfin er. En auðvitað var það alveg fjarstæða, að verið hafi gengið á nokkurn hátt á eignarrétt manna með lögunum um kreppusjóð. Sú löggjöf líkist fremur nauðasamningum og er til þess sett, að ekki sé hægt fyrir skuldareigendur að ganga að mönnum og hirða af þeim allt, sem þeir eiga. Og ég vil benda á það, að þegar hugmyndir sumra hv. þm. um eignarréttinn eru orðnar svona ruglaðar, þá er tími til kominn að stinga fótum við, er slík frv. sem þetta koma fram.