04.04.1935
Neðri deild: 44. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í C-deild Alþingistíðinda. (4073)

110. mál, eignarnám lands handa kaupfélagi Rangæinga

Jón Ólafsson [óyfirl.]:

Það er tekið fram í grg. frv., að land það, sem samkv. því á að taka eignarnámi, eigi að nota undir býli starfsmanna. Ég vil nú spyrja að því, hvort nokkurt fordæmi sé fyrir þessu úti um landið. Ég þarf að vísu ekki að spyrja, því að ég veit, að fordæmi er ekkert til um þetta, og ekki um land til hrossabeitar heldur, sem engin ástæða er heldur til, þar sem hestarnir hafa nú góðan bithaga í Tungunni, sem kölluð er. Hún liggur á milli tveggja lækja, en hús kaupfélagsins standa á oddanum. Þetta land er eign tveggja eða þriggja manna.

Aðaltilgangur kaupfélagsins með eignarnáminu mun vera sá, að stofna til stórkostlegrar kornræktar. En þó að kornrækt kunni að eiga einhverja framtíð hér, er hún ekki enn það stórmál, að taki því að taka lönd eignarnámi hennar vegna. Aðalmaðurinn í stjórn félagsins hefir ekki viljað selja landið, til þess að forða félaginu frá stórfelldu tapi af þessu kornræktarflani kaupfélagsstjórans.

Ég hefi áður upplýst, að lönd, óræktuð, eru til sölu rétt hjá. Búast má við, að óræktað land, sem tekið væri eignarnámi eftir mati, yrði mun dýrara en þau lönd, sem félaginu standa nú til boða, og því myndi félagið skaðast á eignarnáminu.

Fyrir eignarnámi verða að vera knýjandi ástæður, en svo er ekki hér. Ég tel því óviðeigandi, að þingið samþ. löggjöf um þetta, og ég trúi því ekki, að þingið gefi fordæmi um það, að starfsmenn kaupfélaga geti látið taka land eignarnámi handa sér hvar sem er, en um það yrði ekki hægt að neita, ef þetta fordæmi verður gefið.