04.04.1935
Neðri deild: 44. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (4112)

118. mál, samvinnufélög

Flm. (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

L. um samvinnufélög voru sett 1921. Á þeim hafa ekki orðið neinar breyt., og því ekki undarlegt, þótt tími sé til þess kominn að fylla í þau skörð, sem orðin eru á þessari löggjöf.

Í þessu frv. er m. a. stefnt að því að hverfa frá þeim ákvæðum samvinnulaganna, að hafa það sem skýlaust skilyrði fyrir samvinnufélagsskap, að þar sé ótakmörkuð, sameiginleg ábyrgð, en heimila takmarkaða ábyrgð í kaupfélögunum. Í grg. frv. eru skýrðar rækilega, eða allrækilega, þær ástæður, sem til þess liggja, að nú þykir nauðsynlegt og sjálfsagt að koma með þessar breyt., og tel ég ekki þörf á að fara sérstaklega út í það nú. - Þá er með ákvæði 4. gr. frv. sett ný gr. inn í samvinnulögin, þar sem heimilað er, um leið og félag er stofnað að koma á stofnsamningi. Þetta mun að vísu vera heimilt samkv. samvinnul., en það þykir réttara að skapa þessu nokkuð ákveðnara form en nú er.

Það er ekki að ástæðulausu, að nú er flutt frv. um breytingar á l. um samvinnufélög. Ótti manna við, að félagsskapnum, sem stofnaður var í ákveðnum tilgangi, verði breytt í annað horf, litt skyldu því, sem félagsskapnum var ætlað að vinna að, hefir orðið til þess að draga úr, ef ekki algerlega hindrað, að menn gengju saman til stofnunar á samvinnufélaginu. í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að við félagsstofnun hafi menn föst atriði við að styðjast um grundvallartilgang félagsins, um tilhögun ábyrgðar á fjárreiðum þess, um stofnsjóðsframlag, um tilhögun á greiðslum félaga og annara viðskiptamanna til félagsins, og um ávöxtun varasjóða. Þetta eru þau aðalatriði, sem taka á fram í frumsamningi félaga. Þetta ætti að vera þeim, sem ganga saman til stofnunar félags á samvinnugrundvelli, trygging fyrir því, að félagsskapurinn sé ekki notaður til óskyldra hluta.

Þá er í 5. gr. frv. ákvæði, sem gerir ráð fyrir, að nokkuð sé dregið úr skyldu félagsmanna um framlag til stofnsjóðs. Kaupfélögin skylda menn til þess að leggja 3% í stofnsjóð, og er það aðallega gert til þess að skapa tryggingu fyrir félögin gagnvart viðskiptamönnunum, því stofnsjóðstillagið er trygging fyrir viðskiptum þeirra við félagið. Ef svo háttar til, að það er engin trygging í því, þá getur það verið skaðlegt að reka slíka verzlun á samvinnugrundvelli. En þar sem engin skuldaverzlun er rekin, er nauðsynin fyrir stofnsjóð orðin lítil og ekki meiri en hjá þeim félögum, sem verzla með framleiðsluvörur félagsmanna. Það er því ástæða til þess að losa þau félög við skyldu um að greiða framlag í stofnsjóð.

Ennfremur er í frv. ákvæði um að auka nokkuð á skyldur félaganna til útborgunar á stofnsjóðsinnstæðu. Þessi viðbótarskylda liggur í því, að það þykir sjálfsagt, að ef ákvæði frumsamnings eru brotin af félagsstjórn eða aðalfundi, þá hafi einstakir félagsmenn rétt að fá útborgaðan sinn hluta af stofnsjóðsinnstæðu. Þetta gæti orðið til þess, að félagsstj. eða aðalfundur veigraði sér við að brjóta ákvæði frumsamnings, því útborgun stofnfjár væri svo tilfinnanlegur hnekkir fyrir félagið, að stjórnin myndi af þeim ástæðum forðast að brjóta stofnsamning. - Að öðru leyti vil ég vísa til grg. frv. Ég vænti þess, að hv. þdm. sjái, að það er ekki að ófyrirsynju, að þetta frv. er fram borið.

Ég vil svo leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.