24.10.1935
Neðri deild: 56. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í C-deild Alþingistíðinda. (4127)

134. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Flm. (Páll Þorbjörnsson):

Það er í sjálfu sér óþarft að hafa langa framsögu fyrir þessu frv., því þetta mál hefir verið rætt hér á undanförnum þingum, og það hefir berlega komið í ljós, hvað menn telja dragnótaveiðinni til gildis. - Aðalinntak þessa frv. okkar er það, að við viljum fá breytt að nokkru þeim tíma, sem ákveðið er í l., að dragnótaveiðar megi stunda innan landhelgi. Í l., sem um þetta fjalla, er svo ákveðið, að á tímabilinu frá 1. jan.-31. ág. ár hvert megi ekki veiða með dragnót í landhelgi. En frv. okkar fer fram á að breyta þessu þannig, að bannað verði að veiða innan landhelgi á tímabilinu frá 1. jan.-15. júní ár hvert, sem sé að veiðitíminn verði lengdur frá 15. júní -31. ág.

Auk þess höfum við flm. lagt til í þessu frv. okkar, að 8. gr. l. um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi verði felld niður. Hún felur það í sér, að ef héraðsstjórnir óska, þá sé heimild til þess að banna dragnótaveiðar frekar heldur en 1. gr. l. heimilar. Eins og öllum er kunnugt, þá er það svo, að með hverju árinu, sem liður, þrengist um markað okkar fyrir ísvarinn fisk bæði í Þýzkalandi og Englandi, og er því afarnauðsynlegt að flytja á þennan markað einungis verðmætasta fiskinn. En eins og kunnugt er, þá er sá fiskur, sem aflað er með dragnót, sá verðmætasti fiskur, sem aflast við strendur landsins. Og þó landhelgin sé friðuð, þá skjótast þangað inn bæði innlendir og erlendir veiðiþjófar og grípa þennan dýrmæta fisk og flytja á erlendan markað. Hinsvegar er því haldið fram af fiskifræðingum og þeim, sem bezt hafa vit á þessum efnum, að það sé fjarri því, að dragnót spilli öðrum veiðiskap eða að hún geti talizt sérstaklega hættulegt veiðarfæri. Þar við bætist svo það, að nú á þessum tímum, þegar mjög er að því stefnt að draga úr öllum kostnaði við veiðiskap, og þá sérstaklega þeim kostnaði, sem liggur í vörum, sem kaupa þarf frá útlöndum, þá ætti það að vera kappsmál að hlynna að þeim veiðiskap, sem er ódýrastur, en eins og allir vita, er dragnótin það ódýrasta veiðarfæri, sem hægt er að nota.

Það vill nú svo einkennilega til, að ef maður lítur yfir nokkur undanfarin ár og athugar þá andstöðu, sem dragnótin hefir sætt úr ýmsum byggðarlögum, þá rekur maður sig áþreifanlega á það, að þar, sem menn hafa ekki átt þetta veiðarfæri, hefir andstaðan gegn því verið mest. En þess eru dæmi, að á skömmum tíma hafi gerbreytzt hugsunarháttur manna í ýmsum byggðarlögum einmitt við það, að einn eða fleiri menn hafa tekið sig fram um að ná sér í þetta veiðarfæri og nota það til veiða. Ég hygg, að af þessu megi í raun og veru sjá, að það er einungis ókunnugleiki og gömul hjátrú, sem hefir skapað þessa miklu andúð, sem þessi veiðiskapur hefir átt að sæta.

Ég vildi mega vænta þess, að þetta mál mæti meiri skilningi nú hér á þingi heldur en það hefir mætt að undanförnu. - Mun ég svo ekki hafa þessa framsögu lengri, en óska þess, að málinn verði að lokinni þessari umr. vísað til sjútvn.