24.10.1935
Neðri deild: 56. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í C-deild Alþingistíðinda. (4129)

134. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Flm. (Páll Þorbjörnsson):

Ég hygg, að hv. þm. Borgf. hafi hafið mál sitt á því að segja, að það væri óþarft að flytja þetta mál. Ég veit ekki, með hvaða rétti hann getur haft þessi orð um flutning þessa frv., þar sem honum engu síður en öðrum eru kunnugar þær háværu raddir og fjölmennu, sem á hverju ári koma fram svo að segja úr öllum landshlutum um að rýmka ákvæði þessara laga, sem hér er um að ræða. Honum er fullvel kunnugt, að t. d. hér við Faxaflóa mun það ekki vera nema í einum hreppi, sem andstaða er veruleg gegn dragnótaveiðum, og það er vitað, að sú andstaða er runnin frá einum manni, sem hefir þau áhrif á sveitunga sína, að þeir standa með honum í þessu máli. Í næstu sveit, þar sem aðstæður virðast vera mjög líkar, er langt frá því, að meiri hluti sé fylgjandi banni gegn dragnótaveiðum.

Þá minntist hv. þm. á, að lenging veiðitímans væri fyrst og fremst gerð fyrir Dani. Vildi hann halda fram, að takmarkanirnar á veiðitímanum, hvað seint á sumrinu mætti byrja veiðarnar, yrði til þess að hamla Dönum frá því að stunda veiðar hér við land. Þessi skoðun hygg ég, að hafi ekki við mikið að styðjast. Maður veit, að þau skip, sem Danir hafa haft hér við land til dragnótaveiða, hafa ekki fráfælzt veiðarnar svo mjög, þó þau mættu ekki byrja fyrr en að áliðnu sumri, enda höfum við dæmi þess, að íslenzkir bátar af sömu stærð hafa siglt út til Englands með afla sinn eftir 1. sept. Sú skoðun hv. þm. Borgf., að það beri að ganga á rétt Íslendinga sjálfra og standa á móti nauðsynlegum umbótum á sviði fiskveiðanna vegna þess, að Danir kunni að geta notið einhvers góðs af þeim, hygg ég, að geti ekki orðið til þess að tefja þetta mál.

Þá sneri hv. þm. að því, sem mér skildist hann telja aðalagnúann á þessu frv., að með því væru sveitarstjórnirnar sviptar valdinu til þess að koma á héraðsbönnum gegn dragnótaveiði. Nú er þó vitanlegt, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, að komið hefir fyrir nú að undanförnu, að í þeim byggðarlögum, þar sem verið hefir ákveðinn vilji fyrir því á einum tíma að setja á héraðabönn, hefir sú breyt. orðið á einu eða tveimur árum eftir að menn fóru að kynnast þessum veiðarfærum, að menn hafa óskað eftir að mega veiða á þeim tíma, sem heimilað hefir verið að banna veiðarnar.

Ef maður lítur aftur í tímann, rekur maður sig oft á þennan gamla draug, sem hv. þm. Borgf. er nú að vekja upp. Menn standa á móti öllum umbótum, hvort sem er á sviði fiskveiðanna eða annars. Hv. þm. er kunnugt, hve mikilli andstöðu mætti hér í fyrstu að nota þorskanet og jafnvel línur. Hverjum mundi detta slíkt í hug nú? Honum er kunnugt um andstöðuna, sem síminn mætti hér á landi, og sú skoðun kom fram a. m. k. í Englandi, þegar járnbrautirnar komu fyrst til sögunnar, að þær áttu að vera stórhættulegar fyrir búpening manna. Hver vildi gerast forsvarsmaður þessara skoðana nú á tímum? Ég hygg, að sama verði uppi á teningnum innan skamms tíma að því er dragnótaveiðarnar snertir, að þeir menn, sem ennþá eru svo svartsýnir að bannfæra þær, verði þess fýsandi að fá þeim bönnum aflétt, sem þeir hafa komið á.