28.10.1935
Neðri deild: 58. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í C-deild Alþingistíðinda. (4140)

141. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

Flm. (Sigurður Einarsson):

Þetta mál er gamalt áhugamál Alþfl., sem við nokkrir þm. flokksins í Nd. berum fram á þskj. 419. Við lítum svo á, að mikið vanti á, að nægilega mikið sé framleitt af garðávöxtum til þess að fullnægja neyzluþörf landsmanna, og spara með því erlendan gjaldeyri. En til þess að aukin ræktun með góðum árangri geti átt sér stað, þó án mikils tilkostnaðar, þá útheimtist nokkur þekking á þessum hlutum. Við Alþfl.menn viljum því með frv. þessu koma á stað almennri fræðslu í garðyrkju, svo að vegna vanþekkingar í þeim efnum þurfi þessi nauðsynlegu ræktunarmál ekki að verða í handvömm. Á Reykjum í Ölfusi, sem er eign ríkisins, er landrými nóg og sæmilegt húsnæði fyrir slíkan skóla, sem hér er gert ráð fyrir að setja á stofn. Ætti kostnaðurinn við hann því ekki að þurfa að vera mikill í framlögðum peningum.

Eftir að frv. þetta kom fram hefir það vakið allmikla athygli, og ég hefi heyrt það utan að mér, að síðan hafi ýmsir hv. þm. fengið mikinn áhuga fyrir málinu, sem ég vona, að megi haldast. Að lokinni umr. óska ég málinn vísað til landbn.