04.11.1935
Neðri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í C-deild Alþingistíðinda. (4157)

153. mál, garðyrkjuskóli

Flm. (Bjarni Bjarnason):

Hv. 9. landsk. veit það vel - sem kennari m. a., þó ekki sé vitnað í annað -, að hægt er að kenna námsgreinar á mjög misjöfnum stigum. Við t. d. kennum móðurmálið okkar frá okkar yngstu börnum og upp í æðstu skóla; og kunnáttan í þeirri grein, sem og öllum öðrum, getur verið á ýmsum stigum, og kennslan er sniðin eftir skólatímanum og þroska nemendanna.

Þar sem hv. 9. landsk. gerði arfgengisfræðina að sérstöku umtalsefni, þá vil ég benda á, að það er óviðeigandi af bændafulltrúa að vera að skopast að því, að sú grein skuli kennd við slíkan skóla, því ég get sagt honum það, að það er ekki til svo hugsunarlaus bóndi, að hann ekki blátt áfram byggi sína lífsmöguleika á arfgengisfræðinni. Hann hefir tekið eftir því, að útsæðiskartöflur gefa misjafnlega góða uppskeru og að húsdýr einnig geta misjafnlega góða einstaklinga. Bóndinn reynir að gera sér grein fyrir, af hverju þetta stafi, og eflir þau kynin, sem gefa af sér beztan arð. Þetta get ég upplýst hv. 9. landsk. um, því eftir ræðu hans að dæma skyldi maður ætla, að hann hefði ekki hugmynd um, að þetta gengi svona til. Ég tel, að þessi námsgrein sé sjálfsögð í þessum skóla, því hún er fyrst og fremst líkleg til að geta gert mikið gagn. Það er ekki til neins að vera að tala um, að þetta séu þungar námsgreinar, sem þær vitanlega eru, en ég er búinn að taka það fram, að þær verða teknar á ýmsum stigum, eftir því sem við á.

Ég geri ráð fyrir, að próf í þessum námsgreinum fari fram á þeim tíma árs, sem þénar, og að lögð sé áherzla á vissar námsgreinar á vissum árstímum, eftir því sem þénar fyrir námið, en það er ekkert aðalatriði, hvort prófað væri þá strax eða við lok skólans.

Annars spurði hv. 9. landsk. um ýmislegt, sem mér finnst í sjálfu sér svo einfalt, að ekki þurfi svara við.