04.11.1935
Neðri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í C-deild Alþingistíðinda. (4158)

153. mál, garðyrkjuskóli

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Ég ætla bara að taka það fram út af því, sem hæstv. forsrh. sagði, að það er misskilningur af hans hálfu, að verið sé að metast við neinn um upptöku þessa máls. Og þar sem hæstv. forsrh. endurtók söguna um manninn, sem hann hitti á götunni hérna um daginn, þá vil ég bara segja það, að sá maður hlýtur að hafa verið fótfrár, úr því hann hefir getað hlaupið til baka um heilt ár til þess að skýra Alþýðusambandinu frá þessu. Það þarf sérstakt göngulag aftur á bak í tímann til þess að þetta geti átt sér stað. En svo ég segi nú söguna eins og hún var, þá er það algert mishermi, að málið hafi verið fallið niður. Það var tekið til athugunar í landbn. flokksþings Alþfl. í fyrra. Síðan hefir n. starfað í málinu og skilað áliti.

Þá fór hæstv. ráðh. að tala um það, hvað Þjóðverjar ætu mikið af kartöflum. Ég vil ekki gera ráð fyrir, að það sé viljandi, sem hæstv. ráðh. gerir sig ólæsan og les orðið „eta“ í staðinn fyrir „nota“. En þar sem segir í grg. okkar frv., að Þjóðverjar noti sem þessu svari af kartöflum, þá er ekki átt við, að þeir eti það alt, því kartöfluframleiðsla er notuð til margs annars, eins og t. d. víngerðar. - Hitt finnst mér sanngjarnlega talað hjá hæstv. forsrh., að galla megi finna á báðum frv. og að rétt sé að bræða þau saman og láta málið ganga þannig fram. Ég er alveg á þessu máli, enda er það í mínum augum aðalatriðið, einkanlega ef vænta mætti, að þau hörundssárheit, sem komið hafa fram hjá hæstv. forsrh., mættu þá hverfa um leið.

Að því er hv. 2. þm. Árn. snertir, vil ég segja það, að það er á misskilningi byggt, að ég hafi verið að skopast að neinni námsgrein, sem nefnd er í 7. gr. frv. Ég vildi aðeins, að það kæmi fram, að það er tvennt ólíkt, hvað menn telja nauðsynlegt, að kennt sé í skólum, eða hvað unnt er að leysa af hendi á takmörkuðum tíma. Frv. ber það ekki með sér í raun og veru svo úr sé skorið, hvað langt nám nemendunum sé ætlað í þessum skóla, en ef ráða má af 8. gr. frv., þá eru það aðeins örfáir mánuðir, og vildi ég þá benda á, að engar líkur eru til þess, að hægt sé að ljúka þessu námi á svo stuttum tíma, svo nokkurt gagn sé að. Þess vegna svaraði hv. þm. alls ekki því, sem ég spurði um.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar og geri ekki ráð fyrir að taka aftur til máls, en ég vil endurtaka þá kröfu mína, að málinu verði vísað til menntmn.