06.11.1935
Neðri deild: 66. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í C-deild Alþingistíðinda. (4169)

160. mál, markaðssjóður saltfisks

Flm. (Sigurður Kristjánsson) [óyfirl.]:

Ég get sparað mér að nokkru leyti framsögu fyrir þessu frv. nú, vegna þeirra umr., sem urðu hér í d. í dag utan dagskrár og snerta þetta mál. En ég vil þó aðeins taka það fram, að það virðist nú vera fenginn nægilegur þingvilji fyrir því, að þessu gjaldi til markaðssjóðs saltfisks verði létt af sjávarútveginum að mestu eða öllu leyti. Hitt getur aftur á móti verið ágreiningur um, hvort stofna skuli sjóð með sama tilgangi og markaðs- og verðjöfnunarsjóður hefir nú. Það verður að ráðast, hvernig þm. yfirleitt líta á það mál, hvort þeir telja það svo mikilsvert, að á þann hátt sé aukið öryggi fyrir sölu íslenzkra sjávarafurða á erlendum mörkuðum eða látið skeika að sköpuðu um það mál.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um ákvæði hinna einstöku gr. frv., en vil þó skýra frá því, að það er ætlazt til þeirrar breyt. frá því, sem nú er, að stjórn sjóðsins verði aðeins skipuð 5 mönnum, og skal það gert eftir sömu reglu og áður. Er þetta í fullu samræmi við það, sem ég hélt fram á síðasta þingi, að það væri engin ástæða til þess að hafa 9 menn í sjóðsstjórninni. Hitt væri fullnægjandi, að hafa 5 menn í stjórninni, einn frá hverjum þingflokki eftir tilnefningu hvers þeirra, en 5. manninn, sem atvmrh. skipar án tilnefningar, sem formann sjóðsstjórnarinnar.

Ef hv. þm. verða sammála um, að slíkur sjóður verði starfræktur í sama augnamiði og verið hefir síðastl. missiri, þá býst ég við, að það sé ekki illa til fallið, að hálfur nettóágóði áfengisverzlunar ríkisins verði látinn renna í sjóðinn, því ég ætla, að það sé ekki ofmælt, að mikill hluti af tekjum áfengisverzlunarinnar sé óbeinlínis frá sjávarútveginum. Það er því að miklu leyti komið undir kaupgetu sjómanna og þeirra, sem sjávarútveg reka, hversu mikið er keypt af áfengi hjá vínverzlun ríkisins, og fer það því nokkuð eftir árferði við sjávarsíðuna. Áfengið er dýrt, eins og menn vita, og ekki kaupandi fyrir aðra en þá, sem hafa talsverðar tekjur.

Í frv. er ekkert ákveðið um það, hversu miklar tekjur sjóðurinn skuli fá árlega; það fer vitanlega eftir útgjaldaþörf hans. En hún getur numið ! millj. kr., 1/2 millj. eða 200-300 þús. kr. á ári. Um það er ekkert sagt, hvort tekjur sjóðsins þurfi að ná því hámarki, sem til er tekið í frv.

Ég geri ekki ráð fyrir miklum umr. um frv. á þessu stigi málsins, en þær verða að öllum líkindum frekar við 2. umr. Get ég því látið máli mínu lokið í bráðina.