11.11.1935
Neðri deild: 70. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (4173)

161. mál, sláturfjárafurðir

Flm. (Sigurður Kristjánsson) [óyfirl.]:

Herra forseti! Þegar fyrst var farið að undirbúa löggjöf um þetta efni, þá var það aðaltilgangurinn, í fyrsta lagi að skapa heilbrigt verð á sláturfjárafurðum innanlands, og í öðru lagi, sem er í nánu sambandi við það, að sjá um, að innlendir markaðir yrðu ekki ofhlaðnir. Þegar útlendu markaðirnir fóru að þrengjast og það fór að koma fyrir, að verðið varð þar óviðunandi lágt, þá var það bersýnilegt, að menn mundu. hver sem betur gæti, reyna að koma út afurðum sínum innanlands. Og með ótakmörkuðum flutningi til beztu markaðsstaðanna var bersýnilegt, að leitt gat til mikils glundroða. En þegar tekið var að semja og samþ. þessi l., þá snerist þetta að nokkru leyti í höndunum á löggjafanum, og l. eins og frá þeim var gengið báru ekki mikil merki þess, að það ætti að taka tillit til allra þeirra, sem kæmu til með að hafa sláturfjárafurðir til sölu, og þá náttúrlega ekki heldur þeirra, sem þurftu að nota þær afurðir. L. urðu því, eins og frá þeim var gengið, frekar bannlög en fyrirgreiðsla fyrir kjötsölu. Ég var aldrei í vafa um það, að hversu viturleg og alúðleg sem framkvæmd l. yrði, þá væru þau samt svo gölluð, að ekki yrði unnt að framkvæma þau á þann hátt, að þau ekki, beinlínis og óbeinlínis, sköðuðu fjölda þeirra manna, sem sláturfjárafurðir hafa til sölu.

Eftir að l. voru gengin í gildi, þá reyndi ég að kynna mér, hvernig reynsla bænda hefði orðið af þessari löggjöf, og hvar sem ég hefi hitt menn að máli úr bændastétt, þ. e. a. s. úr flokki þeirra bænda, sem hafa stundað sauðfjárrækt, þá hefi ég spurt þá einmitt um þetta. Og sökum þess að ég var með nokkuð róttækar brtt. við frv., þegar það var á ferðinni, og hafði líka rætt nokkuð um það opinberlega síðan, þá hefi ég fengið fjölda bréfa frá bændum um þetta efni. Og mér virðist af þeim röddum, sem þar hafa til mín borizt, mega vel finna, hvað það er, sem bændur hafa helzt út á kjötlögin að setja, en svo kemur undir úrskurð þeirra, sem um þetta mál fjalla, hvort þessar aðfinnslur eru á rökum byggðar, og et svo reynist, hvort hægt er að bæta úr þeim ágöllum.

Það, sem menn setja langmest út á þessi l., er það, að sauðfjáreigendur séu að óþarflega miklu sviptir umráðaréttinum yfir þessari eign sinni. Það er vitað, og á það benti ég, þegar l. voru samþ., að fjöldi bænda hefir þá aðstöðu, að hann þarf ekki að kaupa neina vinnu til þess að koma þessum vörum sínum á markað, og ekki heldur til þess að selja þær. Og það er svo um þá, sem hafa lítil bú, að afkoma þeirra er ákaflega mikið undir því komin, að þeim sé unnað þess að vera vinnumenn hjá sjálfum sér, þ. e. a. s., að þeir megi vinna allt, sem þeim er unnt, til að koma þessum afurðum í verð. Margir eru svo settir, að þeir geta annazt að öllu leyti slátrunina, verkun kjötsins og sölu þess. Og ef að öðru leyti eru settar reglur, sem koma í veg fyrir, að þetta frjálsræði geti orðið til að offylla markaðinum innanlands, sem tilraun var gerð til með því að skipta landinu niður í verðjöfnunarsvæði, þá er ómögulegt að færa nein rök fyrir því, að nein nauðsyn sé á að taka þetta frjálsræði og þennan bjargræðisveg af mönnum, sem eiga sláturfé.

Annað atriði, sem menn setja mjög mikið út á. er það, að ekki hafi tekizt að hafa nauðsynlegt skipulag á kjötsölunni innanlands, heldur hafi markaðurinn verið offylltur á sumum stöðum. Þeir, sem nú borga verðjöfnunargjaldið og fá það ekki endurgreitt, ætlast til, að eitthvað komi á móti þeirri greiðslu. Og það getur þá varla verið annað en það, að sá markaður, sem þeir geta notað og þeim er ætlaður samkv. l., verði ekki offylltur frá þeim stöðum, sem eiga að njóta verðjöfnunargjaldsins.

Ég undrast það ekki, þó að gallar yrðu á framkvæmd þessara l. í byrjun. Ég held, að ég hafi sagt frá því, þegar l. voru samþ., að ég hafi gengið út frá því sem sjálfsögðum hlut, að þessum l. yrði að breyta, kannske oftar en einu sinni, af því að þau grípa svo mikið inn á framkvæmdasviðið. Það væri því óhugsandi annað en að reynslan yrði þar að leiða menn víða á réttar leiðir. Má því vel vera, að þetta atriði út af fyrir sig gæti orðið leiðrétt. En samt sem áður hefir mér ekki þótt öruggt, að í l. stæði aðeins heimild til að takmarka flutning milli verðjöfnunarsvæða, heldur að kjötverðlagsn. væri skylt að gera þetta eftir því sem þörf krefur, svo að markaðurinn geti orðið hæfilega fylltur, en ekki offylltur.

Eins og hv. þdm. munu hafa séð, þá eru till. mínar aðallega miðaðar við þetta tvennt: Að tryggja það fullkomlega, að markaðurinn verði hvergi offylltur, svo að menn brenni ekki inni með kjötbirgðir, sem þeir hafa greitt verðjöfnunargjald af, og verði svo að banna sumarslátrun, til að fá tíma til að svæla út gömlu kjöti. Í öðru lagi miða breyt. mínar að því, að hver, sem getur séð sjálfur um að koma þessari vöru sinni í verð án milliliða, hann sé að því algerlega frjáls. - Ég er alveg sannfærður um, að breyt. í þessa átt geta ekki skaðað nokkurn mann.

Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að fara lengra út í þetta. Læt ég þetta því nægja sem framsöguræðu, en geri ráð fyrir, að málið verði athugað í n., og þá að líkindum landbn. - Ég vil þó geta þess að lokum, að hæstv. forseti hefir tjáð mér, að hann hafi dregið að taka þetta mál á dagskrá vegna þess, að hann hafi verið beðinn að bíða eftir því, að hægt væri að afla ýmissa upplýsinga viðvíkjandi málinu, og var það ekki nema sjálfsagt. En hann hefir aftur á móti heitið því, að hann skyldi hraða ferð þess gegnum þingið, til þess að vinna upp þann drátt, sem hann taldi réttmætt að hafa á því að taka frv. á dagskrá.

Vil ég svo að lokum beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, sem ég geri ráð fyrir, að verði hv. landbn., að hún geri sitt til, að þetta loforð hæstv. forseta verði ekki að engu, heldur geri hún það, sem í hennar valdi stendur, til að greiða fyrir málinu, svo að það geti komizt áfram með sómasamlegum hraða.