14.11.1935
Neðri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í C-deild Alþingistíðinda. (4180)

161. mál, sláturfjárafurðir

Hannes Jónason [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja mjög umr. í þetta sinn. - Ég hefi áður látið ótvírætt í ljós skoðun mína á þeim vansmíðum, sem ég tel á l. Hafa allir þeir ágallar, sem ég taldi á þeim, komið fram. Er í þessu frv. verið að leitast við að laga mestu gallana á kjötsölunni, þó mér virðist sum ákvæðin í því vafasöm. Það var vitanlega mjög hastarlega að farið, þegar kostnaðurinn við framkvæmd laganna, sem í byrjun átti að greiðast úr ríkissjóði, er færður yfir á framleiðendurna sjálfa. Það er sérstaklega óviðeigandi vegna þess, að umráðarétturinn yfir framleiðslunni er raunverulega tekinn af framleiðendunum sjálfum, og þeir hafa engin tækifæri til að athuga þá kostnaðarreikninga. Satt að segja veit ég ekki, hvernig endurskoðun þeirra reikninga er farið, vildi ég sérstaklega spyrjast fyrir um, hvort þm. eigi aðgang að skjölum og bókum n. og reikningum þeim, sem fyrir liggja. - En það, sem þó einkum kom mér til þess að segja nokkur orð nú við þessa umr., voru orð hv. 2. þm. N.-M., þegar hann var að rekja verðlag og gera samanburð á því 1933 og 1934. Sérstaklega stakk það mig, þegar hann minntist á verðhækkun, sem orðið hefði á þeim tíma. Þetta veit ég, að ekki er. Hitt er mér kunnugt um, þó ég geti ekki sannað það skjallega nú, að kaupfél. V.-Húnvetninga greiddi hærra verð fyrir kjötið 1933 en 1934. Fram til 1933 var aðferðin sú, að flokka frysta kjötið aðeins í 2 fl., I. og II. fl. Í I. fl. fór mestur hluti af kjötinu. I. fl. hefir svo verið skipt í 3 undirfl., og hefir S. Í. S. reiknað þá með nokkuð mismunandi verði, þó ekki sama mun og komið hefir fram í Englandi. En af kaupfélaginu hefir verið álitið vafasamt að gera upp til framleiðendanna með svo nákvæmri flokkun eftir þunga dilksskrokkanna. Það hefir því ekki verið gengið inn á þá leið fyrr en 1934. En þessir undirflokkar fyrsta flokks voru bæði 1933 og 1934 þannig, að 1. fl. var. skipt niður eftir þunga, í s-flokk, er í voru skrokkar með 10-12 kg., í o-flokk, en þar voru skrokkarnir 121/2-161/2 kg., og í t-flokk, og í þeim undirflokki voru skrokkar, sem voru yfir 161/2 kg.

Það liggur í augum uppi, að í s-flokk, sem lægst vigt var í, var langminnstur hlutinn af 1. fl., þar sem meðalvigt allra dilkaskrokka frá félaginn var 15 kg., en verð á þessum minnsta flokki 1. fl. er hæsta verðið, sem reiknað er frá Sambandinu. Nú varð sú breyt á 1934, að það var reiknað sérstaklega verð á hvern þessara undirflokka 1. fl., og s-flokkurinn, sem er sá minnsti af hærri verðflokkunum, verður þar með hæstu verði, og eftir því, sem hv. 2. þm. N.-M. sýndi mér, þá er það 2 aurum hærra verð heldur en var á öllum 1. fl. 1933. Ég sá ekki og veit ekki fyrir víst, hversu mikill þessi verðmunur var að undanförnu og 1934, en hitt veit ég, að hann var meiri en samsvari því, að hægt sé að borga 80 aura fyrir allan 1. flokk. Það skal ég sanna hv. þm., ef hann vill, með bókum félagsins að norðan. Það er því að mínu áliti ekki rétt að setja þessa skoðun fram hér, að það hafi verið um verðhækkun að ræða, og láta það skína út úr því, að það sé fyrir gerðir kjötlaganna eða framkvæmd þeirra. Ég verð ennfremur að segja það, að hvort verðið var hærra 1934 eða 1933, það er engin sönnun þess, hvernig tekizt hefir með þessa lagasetningu og framkvæmd þeirra, og þó að verðið hafi verið hærra 1933, þá er það engin sönnun þess, að lögin hafi spillt fyrir bændum, en það er ekki rétt að færa fram tölur í þessu sambandi, sem eru villandi og að mörgu leyti rangar.

Ég vildi ekki láta hjá líða að leiðrétta þetta, og ég er hálfvantrúaður á sumar þessar tölur hjá hv. þm., fyrst þessar reyndust ekki réttari en þetta, því að ekki fær hv. þm. mig til að trúa því, að hann fari hér með rétt mál, af því ég veit það gagnstæða.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni. Ég geri ráð fyrir, að ég beri síðar fram brtt. við frv., og þær kannske nokkuð gagngerðar, og gangi þar inn á fleiri atriði l., þar sem mér þykir ábótavant.