15.11.1935
Neðri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í C-deild Alþingistíðinda. (4184)

161. mál, sláturfjárafurðir

Páll Zóphóníasson [frh.]:

Herra forseti! Hv. sessunautur minn, þm. Borgf. hefði helzt þurft að vera hér við. En ég skal þá víkja nokkrum orðum að hv. 6. þm. Reykv., þó ég ætlaði ekki að segja meira við hann en ég gerði í fyrri hluta þessarar ræðu, fyrst hv. þm. Borgf. er ekki viðstaddur. Aðalbreytinguna, sem í frv. felst og hann virtist leggja mesta áherzluna á, minntist ég ekki á um daginn. En það eru þessi frjálsu viðskipti milli manna, - hv. þm. telur höfuðatriðið, að þau geti gengið óhindruð gegn því að verðjöfnunargjaldið sé greitt. Þessa afstöðu hans sem íhaldsmanns skil ég mjög vel. Það er svo, að kjötlögin skapa hærra verð á innlenda markaðinum heldur en erlendi markaðurinn getur veitt. A. m. k. er ætlazt til þess, þó komið geti fyrir svo snöggar breyt. á erlenda markaðinum í sláturtíðinni, að verðið verði þar hærra en útlit var fyrir að haustinu, þá verð var ákveðið. Ef þetta yrði nú samþ., að hver maður fengi að slátra hjá sjálfum sér og selja beint til neytendanna, eins og hv. þm. kallar það, þá yrði afleiðingin af því sú, að einstakir menn fengju hærra verð fyrir allt sitt kjöt - eða innanlandsverðið - meðan aðrir yrðu að selja sitt kjöt til sláturhúsanna og flytja það e. t. v. allt út. Maður gæti hugsað sér, að beinu viðskiptin yrðu það mikil, að hitt allt yrði að flytja út. Afleiðingin yrði sú, að það skapaðist afskaplega mikill munur á kjötverðinu milli framleiðenda. Að hv. 6. þm. Reykv. vilji vinna að þessu, skil ég mætavel, því það er grundvallarhugsun íhaldsmanna um allan heim að stuðla að því, að auðnum sé sem misjafnast skipt milli manna, að hann safnist sem mest á fárra manna hendur, og að því styður það að gefa nokkrum einstaklingum aðstöðu til þess að fá miklu hærra verð fyrir afurðir sínar heldur en aðrir geta fengið, meðan hitt styður að því að dreifa auðnum, að gera verðið sem jafnast hjá öllum framleiðendum. Mig furðar því ekkert á þessari afstöðu hv. þm. Ég vildi aðeins draga skýrt fram, hvað á bak við hana liggur, enda ætti það að vera öllum ljóst, sem þekkja stefnu íhaldsmanna um allan heim, hvert hér er stefnt með þessari breytingu.

Þá sný ég mér að hv. þm. Borgf., úr því hann er hér kominn. Ég benti á það í gær, að mér gengi verst að svara fyrir mig þegar á mig væri ráðizt fyrir það, að þau félög, sem allt sitt kjöt selja á Reykjavíkurmarkaðinum, skyldu fá að vera þar einráð, þegar þau hafa ekki aðstöðu til að borga bændum eins mikið verð eins og aðrir, sem á þeim markaði selja. Þessu til staðfestingar skal ég benda hv. þm. Borgf. á svar kaupfélags Norður-Þingeyinga viðvíkjandi því hvaða verð hefir verið getið þar fyrir kjöt til bænda árin 1933 og 1934. Það vill svo til, að S. Í. S. hefir selt tvær tegundir af kjöti þessa félags, sauðakjöt yfir 221/2 kg. kroppurinn og kjöt af veturgömlu yfir 18 kg., að öllu leyti hér í Reykjavík sem fyrsta flokks kjöt. Og kaupfélagið hefir greitt bændum fyrir það kr. 1,05 pr. kg. Það er náttúrlega svona og svona að þurfa að bægja þessu kjöti af markaðinum hér, og koma þannig í veg fyrir, að bændurnir fái þetta tiltölulega góða verð, til þess að bændur hér í kring fái að njóta markaðarins, þó þeir fái ekki útborgað eins hátt verð fyrir það kjöt sem þeir selja þar. Þó hefir þetta verið gert, af því litið hefir verið svo á, að það væri sparnaður fyrir þjóðarheildina á flutningskostnaði o. fl. Því hefir hvorki í fyrra eða núna verið flutt meira kjöt að á Reykjavíkurmarkaðinn heldur en talið hefir verið þurfa. En þegar ég kem út um land og bændur ráðast á mig fyrir þetta, þá er ég í hálfgerðum vandræðum að svara. En ég er ekki í neinum vandræðum að svara hv. þm. Borgf., þegar hann ræðst á mig fyrir að leyfa bændum úti um land að koma með dálítinn hluta af kjöti sínu á Rvíkurmarkaðinn til þess að hækka verðið á kjötinu, sem þeir verða að flytja út.

Annars skildist mér ræða hv. þm. Borgf. byggð á einum höfuðmisskilningi, nefnilega þeim, að sunnlenzkir bændur sköpuðu sér með verðjöfnunargjaldinu sérstakan einkarétt á innlenda markaðinum. Slíkan rétt fá þeir ekki frekar en aðrir, sem verðjöfnunargjald greiða, því hver, sem verðjöfnunargjaldið borgar, stendur vitanlega jafnt að vígi. Hann sagði, að Sunnlendingar borguðu verðjöfnunargjald, og svo væri kjöt flutt að norðan fullum fetum eftir sem áður.

Eins og Norðlendingar greiði ekki verðjöfnunargjald líka? Þeir borga nákvæmlega það sama af því kjöti, sem þeir selja á innl. markaði, og Sunnlendingar. Í þessu liggur misskilningurinn hjá hv. þm. Verðjöfnunargjaldið er greitt til þess að bæta upp verðið á útflutta kjötinu. Á svæði Slf. Suðurl. starfa 3 kaupfélög. Hugsum okkur, að innan þessara þriggja félaga væri það svo, að t. d. kaupfélagið Þór hætti að láta Sláturfélagið hafa kjötið, en léti Sambandið hafa það, og fengi til muna hærra verð en annars. Hver yrði afleiðingin? Hvernig færi þá um framtíð Sláturfél.? Þetta er nú ekki tekið út í loftið, því kaupfélagið Þór seldi í sumar ákveðnum verzlunum kaupmanna meira en því bar hlutfallslega við aðra bændur. Með því útvegaði það þeim hærra verð. En formaðurinn fyrir þessu kaupfélagi er í stjórn Sláturfélags Suðurlands. Skilur þm. Borgf. þá hættu, sem Slf. Suðurl. getur stafað af þessu?

Hv. þm. spurði mig að því, hvort ég hefði ekki neitt við það að athuga, að flutt væri á Rvíkurmarkaðinn kjöt af öðrum verðlagssvæðum. Hv. þm. spurði, hvort það ætti ekki að hætta því. Og hann spurði ennfremur: Er von á því, að kjötverðlagsnefndin leyfi meiri innflutning á Reykjavíkurmarkaðinn? Ég svara þessari spurningu með því að segja, að ég geri hiklaust ráð fyrir því. Það er svo um Rvíkurmarkaðinn, að þegar komið er fram í marz eða apríl, eru birgðir, sem nú eru í Rvík og ætlaðar til sölu þar, búnar, - og ætli nokkur heilvita maður láti sér detta í hug að láta kjötið liggja úti á landi, en láta Rvík ekki hafa það, heldur vera kjötlausa? Það dettur auðvitað engum í hug, og ég hygg, að hv. þm. Borgf. myndi ekki detta það í hug heldur, ef hann væri í kjötverðlagsnefnd. Hann getur sagt þetta hér, en þegar út í alvöruna er komið, þá dettur engum í hug að láta kjötið ekki fara þangað, sem hægt er að selja það. Ég veit satt að segja ekki, af hverju þessi spurning hans er fram sett. Það er annaðhvort af því, að hann veit ekki hvað mikið er neytt af kjöti í Rvík, eða þá að það er sett fram af barnalegri fávizku og af því að hann hefir ekki hugsað málið.

Hv. þm. sagði, að sumarslátrunin hefði minnkað mikið. Það er rétt. En af hverju hefir hún minnkað? Ég hélt, að hv. þm. Borgf. væri það kunnugt, en ef honum er það ekki kunnugt, þá vil ég segja honum það. - Ég var á ferð í júlímánuði fyrir austan fjall, og frétti ég þá, að mynduð væru samtök um það í Rvík að hætta að neyta kjöts, og að sjálfstæðismenn gengjust fyrir þeim samtökum. Ég trúði þessu ekki þá. Síðan heyrði ég þetta sama, þegar komið var fram í ágústmánuð, og enn trúði ég því ekki. En 15. sept. kom svo hljóðandi auglýsing í Morgunblaðinu:

„Neytendafélagið heldur fund í Varðarhúsinu mánudaginn 16. þ. m., kl. 81/2 e. h. Umræðuefni: Markmið og starfsreglur Neytendafélagsins. Málshefjandi hr. alþm. Jakob Möller.

Aðeins sjálfstæðismenn velkomnir. Stjórnin.“

Og rétt á eftir kom þessi:

„Neytendafélagið. Þeir, sem vilja kynna sér markmið Neytendafélagsins og gerast meðlimir þess, eru vinsamlega beðnir að snúa sér til skrifstofu félagsins, sem er fyrst um sinn á Vitastíg 10 og er opin kl. 5-7 e. m. Sími 2985.

Allir sjálfstæðismenn velkomnir. Stjórnin.“

Og strax þegar ég var búinn að lesa auglýsinguna, hringdi ég upp skrifstofuna og þóttist auðvitað vera góður og gegn sjálfstæðismaður. Ég spurði um, hvað þeir vildu ráðleggja mér. Og mér var sagt, að ég ætti ekki að kaupa kjöt frá Sláturfélaginu og ekki frá kaupfélagi Borgfirðinga - ég ætti að kaupa það hjá Nordalshúsi, Tómasi Jónssyni og nokkrum fleiri, sem taldir voru upp. Og eftir þetta allt saman stendur hv. þm. Borgf. upp og segir, að sumarslátrunin hafi minnkað. Nú er það sannað, að sjálfstæðismenn hafa unnið að því, að svo varð. Og hvað skeður? Það, að Nordalsíshús slátrar miklu meira en í fyrra, en Sláturfél. minna. Og svona er þessu varið, hv. þm. Borgf. Ég trúi því ekki, að hv. þm. hafi vitað um ráðið, sem gefið var á skrifstofu neytendafél., eða ráðið, hver þau voru, en það er áreiðanlegt, að flokkurinn stóð á bak við félagið, og það auglýsti fyrir hann. Þær verzlanir, sem meðlimir neytendafél. áttu að kaupa kjöt frá, áttu svo að bola burt þeim félagsskap bændanna, sem hv. þm. er að barma sér yfir, að hafi slátrað minna en í fyrra. (PO: Var samband ísl. samvinnufélaga í neytendafélaginu?). Ég geri ráð fyrir, að fleiri en þeir, sem eru í neytendafélaginu, hafi fylgt þeim ráðleggingum, sem skrifstofan gaf.

Þá talaði hv. þm. mikið um það, að í fyrrahaust hefði kjötið ekki verið hækkað eins mikið og Sláturfél. Suðurl. hefði talið sig þurfa að fá fyrir það, til þess að fá upp í kostnað þann, sem geymsla kjötsins hefði haft í för með sér. Hann vitnaði í það, að í nóvember í fyrra hefði kjötið verið hækkað um 7 aura á kg., og svo ekki söguna meir þangað til í janúar, að það hefði verið hækkað um 8 aura á kg., og hann reiknaði svo út, að félagið hefði orðið fyrir 13 aura skaða frá nóv. og til jan. og svo 5 aura frá jan. og allt árið út. Hv. þm. sagðist hafa hlerað, að nú stæði til að hækka verðið meira. Það er nú svo með þennan hv. þm., að sumt hlerar hann hjá form. Sláturfél. Suðurl., en sumt veit hann með vissu. En Helgi Bergs var á báðum fundunum, er rætt var um verðbreyt., eins 15. nóv., og ég veit ekki betur en hann segði hv. 6. þm. Reykv., hvað gerðist á fundunum, svo að hv. þm. Borgf. hefir getað fengið að vita það hjá honum, og því ekki þurft að hlera neitt. En hv. þm. sagði þarna ekki nema hálfan sannleikann um verðhækkunina í fyrra. Það vantaði á hjá honum, að þegar kjötið var selt út úr frystingu, þá voru I. og 2. flokkur seldir með sama verði. 2. flokkur var í kauptíðinni 10 aurum lægri en 1. fl., en í honum voru kroppar, sem voru 10-12 kg. Þessi flokkur fékk fullkomna hækkun strax, og síðari hluta vetrar meiri hækkun en álitið var, að þyrfti til þess að standa undir frystikostnaðinum. Það voru villandi tölur, sem hv. þm. fór með, að hækkunin hafi ekki verið meiri en 7 aurar. Hún var á nokkrum hlutanum 7 aurar, en öðrum 17 aurar. Þetta getur hv. þm. séð, ef hann les auglýsingu kjötverðlagsnefndar. 2. flokkur kjötsins fær meiri hækkun en kjötið í 1. flokki, eða fyrst 17 aura og svo 25 aura. Hv. þm. vildi halda því fram, að 15 aura hækkunin nú hefði verið gerð vegna áróðurs frá bændanna hálfu. Þetta er með öllu tilhæfulaust. Það, sem gerði það að verkum, að kjötið var hækkað núna meira en í fyrra, var það, að aðstaðan núna var allt önnur en í fyrra. Þegar kjötverðshækkunin var ákveðin 15. nóv. í fyrra, var allt freðkjöt, sem komið var til Englands, óselt, farinn um helmingur af saltkjötinu og sölutregða á hinu, og til sölu í landinu lágu um 300 tonn meira en bjartsýnustu menn gerðu sér vonir um, að þar mundu seljast. Að þessu athuguðu hugsa ég, að enginn sæmilega skynbær maður álasi nefndinni í fyrra, þó hún hækkaði verðið ekki meira. Nú var viðhorfið aftur það, að farið er til Englands allt það freðkjöt, er má flytja þangað fyrir áramót, og það selt góðu verði - eða a. m. k. betra en í fyrra. Megnið af saltkjötinu er líka farið úr landi og selt hærra verði en í fyrra, og innanlandsbirgðirnar eru um 100 tonn minni en í fyrra. Viðhorfið var því allt annað, og engin undur, þó verðið nú væri hækkað, en ekki í fyrra. Þetta sjá allir, sem ekki hafa sett upp svo dökk gleraugu, að þeir sjá ekkert nema vitleysuna í sínum eigin heila. Í þessu sambandi vil ég benda hv. þm. á það, að ef við í fyrra haust hefðum hækkað verðið meira en gert var, þá hefði það hlotið að hafa í för með sér minni sölu. Birgðirnar hefðu þá enzt lengur fram eftir sumrinu, og sumarslátrunin orðið minni. Og það hlýtur hv. þm. að skilja, að það er ekki hægt af sama manni að skammast yfir því, að verðið hafi verið sett of lágt og kjötið ekki selzt nægilega snemma. Þó hefir hv. þm. leyft sér þetta, og því virðist rétt að spyrja hann enn að því, hvort hann telji, að verð kjötsins hafi ekki áhrif á, hve ört það seljist. Ég býst við, að hann telji það, því það gera held ég allir; en geri hann það, sér hann sjálfur, þegar skapið stillist ofurlítið, hvílík fjarstæða er að skamma kjötverðlagsnefnd samtímis fyrir of litla hækkun og að kjötið hafi ekki selzt nægilega ört. Ég geri ráð fyrir því, að allir séu sammála um, að ástæðulaust sé að álasa þeim mönnum, sem ekki vildu hækka kjötið meira en gert var í fyrra. Hv. þm. verður að gera sér það ljóst og svara því afdráttarlaust, hvort hann álítur, að það seljist jafnt af kjöti, hvaða verð sem er á því. Og ef hann álítur, sem ég geri ráð fyrir, að það seljist ekki jafnmikið af kjöti, ef verðið er hækkað, þá verður hann að gera sér það ljóst, hvort birgðirnar hefðu ekki verið meiri og slátrun byrjað seinna, ef kjötið hefði verið hækkað meira en gert var haustið 1934. - Ég þarf ekki að svara hv. þm. miklu meira, því að mikið af því, sem hann sagði, voru hálfkveðnar vísur, og urðu, eins og hann sagði þær, að hálfgerðum ósannindum. Allt tal hans um birgðirnar stafar af því, að Hafnarfjarðarkjötið, sem var 74 tonn haustið 1934, var tvítalið. vegna þess að það var gefið upp hér hjá Helga Bergs og líka frá Hafnarfirði. Þessi villa komst inn í bækurnar, og úr því að hún var uppgötvuð, þá er ekki nema sjálfsagt, að hún sé leiðrétt.

Ég svaraði hv. þm. V.-Húnv. að nokkru leyti í gær. Hann hélt því fram, að verðið, sem ég gaf upp á freðkjötinu á Hvammstanga, hafi verið villandi. Ég tók nú með mér bréf um þetta, sem ég ætla að sýna honum. Þar er gefið upp meðaltal verðsins á 1. og 2. flokki, en undirflokkarnir eru ekki taldir sérstaklega. Það, að þetta félag, sem hér um ræðir, sýnir minnsta hækkun. var vegna þess, að það varð, vegna skipaferða til útlanda, og þess, hve frystirúm þess er lítið, að flytja mikið af freðkjötinu til geymslu annarsstaðar, og fékk því á það mikinn aukakostnað.

Ég vænti þess, að hv. þm. Borgf. sé nú búinn að sjá, að það hefði verið óforsvaranlegt, ef kjötverðlagsnefnd hefði hækkað kjötið meira en hún gerði haustið 1934. Og ég geri ráð fyrir því, að hann sé líka búinn að sjá, að ef kjötið hefði verið hækkað meira, þá hefði það leitt af sér, að birgðirnar hefðu verið miklu meiri og slátrun byrjað seinna. Ég veit, að hann er líka búinn að sjá, að innanlandsbirgðirnar eru nú 100 tonnum minni en um sama leyti í fyrra. Og ég veit, að hann er nú orðinn sannfærður um, að minnkunin á sumarslátruninni er að kenna félagi, sem hans eigin flokksmenn hafa stofnað. Ég vil mælast til þess, að hann beiti sér á móti þessu félagi, ef hann vill vel því félagi bænda, sem hann er í stjórn fyrir, og ég vil mælast til þess, að hann beiti sér af alefli innan síns flokks fyrir því, að þessi félagsskapur, sem stofnaður var til þess að skaða bændur, sé lagður niður, og í því trausti ætla ég ekki að segja meira.