15.11.1935
Neðri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í C-deild Alþingistíðinda. (4186)

161. mál, sláturfjárafurðir

Bjarni Ásgeirsson [óyfirl.]:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umr. um þetta mál. En eitt atriði í ræðu hv. 2. þm. N.-M. var þannig, að ég verð að gera nokkra aths. við það.

Það kom fram hjá hv. þm. Borgf. ásökun gagnvart kjötverðlagsn. um það, að hún hefði orðið þess valdandi, að kjötmarkaðurinn hér í Rvík hefði í fyrra verið fylltur, með því að hrúga á hann kjöti frá fjarliggjandi héruðum, svo að þeir, sem sá markaður var afhentur með kjötsölul., þeir sömu, sem guldu verðjöfnunargjald til að fá að halda þeim markaði, hefðu ekki getað notað hann til fulls. Þetta er rétt hjá hv. þm. og er sannanlegt með gögnum, sem fyrir liggja. Hann vildi einnig halda því fram, að eins og nú horfði við, væru allar líkur til, að sú saga mundi endurtaka sig á þessu ári. Hv. 2. þm. N.-M. neitaði því og sagði, að kjötbirgðirnar væru nú miklu minni í landinu en í fyrra á sama tíma. En eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja hjá hv. þm. Borgf., skilst mér, að þetta ætli að lenda í sama öngþveiti nú og á síðasta ári.

Það má um það deila, hvort þeir, sem búa næst markaðsstað, eigi kröfu á að halda honum fremur en aðrir, sem fjær búa. því hefir verið haldið fram, - með að ég hygg nokkuð miklum rétti -, að þessum málum ætti að haga þannig, að þeir, sem næst byggju hverjum markaðsstað, ættu að sitja fyrir um að fá að nota þann markað, sem þar er; þeir, sem nálægt Rvík byggju, ættu að sitja fyrir markaðinum þar, þeir, sem nálægt Akureyri byggju, ættu að sitja fyrir markaðinum þar, þeir, sem nálægt Ísafirði byggju, ættu að sitja fyrir markaðinum þar o. s. frv. Þetta virðist, af hagkvæmum og landfræðilegum ástæðum, í alla staði hyggilegt. Hinsvegar, þegar svo er komið sem nú er um takmarkanir á erlenda markaðinum, þá er ekki hægt að vísu bændum í héruðum fjarliggjandi innlendu markaðsstöðunum út á gaddinn. Þess vegna var það ráð tekið að leggja nokkurt gjald í sjóð, sem þeir menn eru látnir greiða af verzlunarvöru sinni, sem nota innlenda markaðinn, til þess að bæta hinum upp verðið fyrir sínar afurðir, sem þurfa að selja þær á erlendum markaði. Það mun almennt hafa verið gengið út frá því, að þetta gjald yrði til þess að tryggja þeim bændum innlenda markaðinn, sem næstir búa innlendu markaðsstöðunum, og að hann yrði ekki svo yfirfylltur, að þeir gætu ekki selt þar nema brot af því kjötmagni, sem þeir ættu að geta selt þar. Slíkt er að gefa bændum þessum steina fyrir brauð, að láta það viðgangast, að markaðurinn sé þannig af þeim tekinn. Þessa verður kjötverðlagsn. að gæta framvegis, svo að menn finni, að réttlæti sé í stjórn hennar á þessum málum. Annars fær hún ekki staðizt.

Þá var annað atriði, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði, að finna mætti að framkvæmd kjötlaganna, það, að bændum á 1. sölusvæði, þ. e. á Suðurlandi og í Borgarfirði, sem verzluðu við Sláturfél. Suðurl. og kaupfélag Borgfirðinga, væri veittur of ríkur réttur á markaðinum hér í Rvík. Rök hans fyrir því voru þau, að kostnaður hjá þeim við að notfæra sér markaðinn væri meiri en hjá S. Í. S. Sagði hann, að Sláturfél. Suðurl. hefði greitt til bænda 90 aura fyrir hvert kg. af kjöti, kaupfél. Borgf. um 80 aura og S. Í. S. rúmlega eina kr. Mér virðist ályktun þessi ákaflega hæpin hjá hv. þm., og forsendurnar ennþá hæpnari. Ef kaupfél. Borgf. verður salan á Reykjavíkurmarkaðinum miklu dýrari en S. Í. S., þá finnst mér öfugt ályktað, að fyrir það eigi að svipta það kaupfélag að einhverju leyti þessum markaði og fá hann í hendur öðrum. Ástæðan til þess, að notkun Rvíkurmarkaðsins verður dýrari kaupfélagi Borgfirðinga heldur en S. Í. S., er sú, að það félag hefir ekki notið þeirra hlunninda frá því opinbera að fá styrk til frystihúsbyggingar. Þegar frystihúsastyrknum var úthlutað, þá var það framkvæmt þannig, að þeir, sem næstir voru höfuðstaðnum, voru látnir sitja á hakanum í því efni, af þeirri ástæðu, að þeir voru nærri Rvík og áttu þess vegna hægra með að nota markaðinn þar. Hinum, sem fjarri Rvík bjuggu, var veittur þessi styrkur, til þess að þeir gætu betur notað sér útlenda kjötmarkaðinn. Ef öðrum héruðum úti um land hefir með ríkisstyrk til frystiskipa og frystihúsabygginga verið veitt sú aðstoð, að geta með minni kostnaði notað Rvíkurmarkaðinn fyrir sitt kjöt, þá er það ákaflega hart, að þessi héruð eigi með stuðningi þessara forréttinda að fá að bola þeim út af Rvíkurmarkaðinum, sem orðið hafa útundan við veitingu styrksins til frystihúsbygginganna. Það væri líkt og ef t. d. foreldrar létu eitthvert barna sinna vera svo klæðlaust, að það biði heilsutjón vegna þess og rækju það svo út úr fjölskyldunni fyrir það, að það gæti ekki þrifizt.

Það verð, sem tekið hefir verið fram, að kaupfél. Borgf. hafi greitt fyrir kjötið, er nettóverðið, þegar búið er að draga frá allan kostnað við söluna, flutningskostnað, frystikostnað og annan sölukostnað, og sömuleiðis vexti af fé, sem í kjötbirgðunum liggur, frá því að tekið er við kjötinu og þangað til búið er að greiða það út. Ég vil nú spyrja hv. 2. þm. N.-M.: Er það svo, þegar hann ber saman verðið á kjötinu hjá þessu félagi og S. Í. S., að þá sé búið að draga þennan kostnað og frystikostnað heima í héraði frá verðinu, sem S. Í. S. borgar fyrir kjötið? Þessari spurningu vildi ég fá svarað.

Ég er að litlu eða engu leyti sammála frv. Tilefni þess, að ég stóð upp, var það sérstaklega að svara þeim árásum, sem hv. 2. þm. N.-M., formaður kjötverðlagsn., kom með á hendur þessara tveggja sölufélaga bænda á Suðurlandi og í Borgarfirði.