15.11.1935
Neðri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í C-deild Alþingistíðinda. (4187)

161. mál, sláturfjárafurðir

Gísli Guðmundsson:

Þær umr., sem fram hafa farið hér í hv. d., hafa meira snúizt um framkvæmd kjötlaganna heldur en frv. það, sem fyrir liggur frá hv. 6. þm. Reykv. Ræða hv. flm. gaf líka nokkurt tilefni til þess. Að svo lítið er rætt um frv. sjálft, geri ég ráð fyrir, að stafi af því, að flestum hv. dm. komi ekki til hugar, að það eða neitt því líkt verði samþ. Enda væri næsta undarlegt, ef slíkt frv. fengi fylgi í hv. þd., því að samþ. þess, sem í þessu frv. felst, yrði til þess að gera núgildandi kjötlög gersamlega áhrifalaus, eða sama sem að nema þau úr gildi. Enda væri það í samræmi við stefnu hv. 6. þm. Reykv.

Eitt atriði hefir komið mjög fram við þessar umr. Það er sú svo að segja skipulagsbundna árás, sem virðist hafa verið hafin, aðallega nú upp á síðkastið, í blöðum og hér á hv. Alþ. gegn hagsmunum norðlenzkra bænda og jafnvel bænda á Austfjörðum og Vestfjörðum. Það hefir verið ráðizt á kjötverðlagsnefnd fyrir það, að hún hefir veitt þessum mönnum nokkurn aðgang að kjötmarkaðinum hér í Rvík. - Ég verð að segja það, að mér finnst nokkuð hart að þurfa að hlusta á svona ræður, þegar það er vitað, að það eru þessir bændur, sem hafa átt við mesta örðugleika að stríða í sambandi við kjötsöluna. Og það eru þeir, sem einnig nú eftir að l. voru sett hafa fengið lægst verð fyrir sitt kjöt. Og þrátt fyrir það, að þeir hafa fengið nokkurn aðgang að innanlandsmarkaðinum, þá hafa þeir þó eftir sem áður selt mest á erlenda markaðinum, og þrátt fyrir verðjöfnunargjaldið og ríkisstyrkinn hefir útborgað verð fyrir kjöt, selt á erl. markaði, samt verið lægra en fyrir hitt, sem selt er innanlands. Mætti því fremur þykja ástæða til, að þessir menn kvörtuðu heldur en þeir, sem hafa fengið betri markaðinn og hærra verðið, þó að ég sé manna fúsastur til að viðurkenna, að ákjósanlegast væri, að allir bændur landsins, einnig þeir, sem skárri markaðinn hafa, gætu fengið hærra verð en þeir nú fá, því hefir verið haldið hér fram, einkum af hv. þm. Borgf., að með kjötlögunum hafi verið ætlazt svo til, að bændur í nágrenni Rvíkur hefðu einkarétt til Rvíkurmarkaðsins, svo að ekki mætti flytja þangað kjöt af öðrum verðlagssvæðum, fyrr en séð væri, að þeir gætu selt allt kjöt sitt hér. Ég lít svo á, að þetta sé nokkuð hæpinn skilningur á kjötlögunum. Hv. 2. þm. N.-M., sem er form. kjötverðlagsn., hefir talað hér ýtarlega um þetta atriði, og tók hann það m. a. fram, sem allir ættu að vita, að það eru ekki aðeins bændur á Suðurlandi, sem greiða verðjöfnunargjald, heldur er það greitt af öllu því kjöti, sem selt er á innlendum markaði, hvaðan sem það er. Ef t. d. bóndi á Norður- eða Austurlandi fær að selja kjöt í Rvík, verður hann að greiða verðjöfnunargjald af því og kaupa sér þar með þann rétt, sem hv. þm. Borgf. segir, að sé verið að kaupa með verðjöfnunargjaldinu. Hitt er annað mál, að það er ekki óeðlilegt, að þeir, sem búa í nágrenni þessa markaðar, njóti hans mest, og það kemur í raun og veru af sjálfu sér, m. a. vegna þess, að þeir hafa betri aðstöðu til að selja kjötið, hægra með að koma því á markaðinn og betri sambönd og hafa komið upp hjá sér félagsskap til þess að geta hagnýtt sér sérstaklega þennan markað. En ég get samt ekki látið hjá líða að gera aths. við þetta, þegar því er haldið fram svona eindregið af hv. þm. Borgf., að þeir, sem búa í nágrenni Rvíkur, hafi einkarétt til að selja á Rvíkurmarkaðinum. (PZ: Þeir geta ekki fullnægt honum). Og þar við bætist svo það, sem hv. 2. þm. N.-M. tók fram nú, að þeir geta ekki nærri því fullnægt kjötþörf Rvíkur, og verður því óhjákvæmilegt að flytja þangað kjöt af öðrum verðlagssvæðum.

Það er vitanlegt, að það er hægt að fullyrða eitt og annað um það, hvort bændur landsins séu ánægðir eða óánægðir með þessi l. Ég ætla ekki að fara að vitna sérstaklega í þessu efni, en vil aðeins benda á það, að þær ályktanir, sem hv. þm. Borgf. las upp og höfðu verið gerðar á fundi hjá Sláturfél. Suðurl., segja ekkert um það, hvort menn séu ánægðir eða óánægðir með kjötlögin, heldur fjalla þær aðeins um framkvæmdina. Þess vegna getur það - án þess að ég ætli að fara að svara fyrir hv. 2. þm. N.-M., því að hann er fullkomlega fær um það - vel staðizt, sem hann sagði, að hann hefði aðeins hitt 5 bændur, sem hefðu verið óánægðir með kjötlögin. (PO: Og framkvæmdina). Nei, lögin. sagði hv. þm. Hitt mætti merkilegt heita, ef svo erfið og margháttuð framkvæmd, sem kjötverðlagsn. hefir með höndum, mætti ekki neinni óánægju frá nokkrum manni. Þegar þess er líka gætt, að n. verður, eins og skiljanlegt er, oft að gera upp á milli hagsmuna einstakra manna og kveða upp úrskurði í ýmsum atriðum, þá er það eins og venjulega, að þeir, sem telja, að þeir hafi ekki haft sitt mál fram, verða meira og minna óánægðir, þar til þeir geta áttað sig á því, að það er ekki hægt í slíkum málum að úrskurða svo, að öllum líki jafnvel. En þetta verða þeir að skilja, sem eru að reyna að gera sér grein fyrir því, hvort menn séu ánægðir eða óánægðir með lögin.

Mér virðist, að kjötverðlagsn. hafi haft erfitt verk að vinna að ýmsu leyti, ekki sízt vegna þess, hversu margar og andstæðar kröfur hafa borizt til hennar, og sumar þeirra að vísu nokkuð fráleitar. Það er t. d. fundið l. og framkvæmd þeirra til foráttu, að með þeim séu lögð óhæfilega mikil höft á frelsi manna. Það er eitt aðaládeiluefnið, að það sé verið með l. að taka af bændum frelsi til að flytja afurðir sínar á markaðina og selja þær þar. Þetta hefir sérstaklega komið fram hjá sjálfstæðismönnum. En svo koma frá þessum sömu mönnum, sjálfstæðismönnum, jafnharðar ásakanir um það, að í framkvæmd l. séu ekki nógu mikil bönd lögð á bændur, þeir megi ekki hafa eins frjálsar bendur og þeir séu látnir hafa til að verzla með kjötið eins og þeir vilja. - Þá er um það talað, að banna þurfi alveg að flytja kjötið á milli verðjöfnunarsvæða, og það er ráðizt á nefndina fyrir að hafa ekki gert það. Þessar árásir koma frá þeim sömu mönnum, sem mest tala um, hve afarófrjálsir menn séu með flutning og sölu á kjötinu. Það er ekki von, að nefndin geti tekið mikið til greina ásakanir, sem stangast svona greinilega.

Menn hafa líka heyrt þær ásakanir í garð þeirra manna, sem framkvæmdu þessi l., að verðið hafi verið sett svo hátt, að það hafi stórspillt markaðinum fyrir bændum. Það hafa verið skrifaðar ótal greinar um það í Morgunbl. og Vísi, að kjötverðlagsn. hafi stórspillt fyrir framleiðendum með of háu verði. Hefði verðið verið sett lægra, þá hefði selzt miklu meira. En svo kemur hv. þm. Borgf. og heldur langa og harðorða ræðu um það, að n. hafi gert bændum stórtjón með því að setja verðið ekki nógu hátt, þegar leið á veturinn. Ég veit ekki, hvort hv. þm. Borgf. meinar þetta, eða hann álítur, að ef verðið hefði verið ákveðið hærra, þá hefðu kjötbirgðirnar selzt betur! Nei, það þýðir ekki neitt fyrir þessa menn að halda þessu hvorutveggja fram, að bændur hafi verið stórskaðaðir bæði á of háu og of lágu verði. Þessar staðhæfingar stangast svo gersamlega.

Það hefir verið dregið lítið eitt inn í umr., hver vera mundi sölukostnaður á kjötinu hjá félögum sunnlenzkra bænda. Ég skal játa það, að ég hefi ekki sérstaklega kynnt mér það atriði, en það hefir þó komið fram hjá hv. 2. þm. N.-M., að kostnaðurinn væri hærri hjá Sláturfél. Suðurl. og kaupfél. Borgf. en hjá Sambandinu, og rökstuddi hann þetta með því, að þau hefðu ekki getað borgað eins hátt verð til bænda fyrir kjötið á innlenda markaðinum og Sambandið hefði getað borgað á það kjöt, sem það seldi. Ég skal ekki blanda mér sérstaklega inn í þetta, en vil aðeins beina því til hv. þm. Borgf., sem er í stjórn Sláturfél. Suðurl., að hann taki þessar upplýsingar til leiðbeiningar og geri hvað hann getur til að lækka þennan kostnað. Það væri ábyggilega mikill velgerningur við þá bændur, sem hann vill bera hér fyrir brjósti, ef hægt væri að draga úr þessum kostnaði nú þegar. (PO: Vill hv. þm., að ég taki þetta til athugunar nú þegar?). Ég geri ekki ráð fyrir, að hann geti breytt neinu í Sláturfél. á þessum fundi, en ef hann gæti nú bráðlega lækkað eitthvað þennan kostnað, þá væri það áreiðanlega mikilsvert.

Ég vil svo enda þessi fáu orð mín á því að minnast á eitt atriði, sem kom fram í framsöguræðu hv. 6. þm. Reykv. Hann var að bera saman þá tíma, sem voru áður en þessi l. komu, og þá tíma, sem eru nú, og sagði, að áður en l. komu hefðu bændur sjálfir ráðið kjötverðinu á innlenda markaðinum, en síðan l. komu hefðu þeir ekki gert það. Ég vil nú spyrja hv. þm. Borgf., sem er í stjórn Sláturfél. Suðurl., hvort það sé satt, að sunnlenzkir bændur hafi ráðið kjötverðinu á innlenda markaðinum 1932 og 1933, hvort þeir hafi ráðið því, að það verð var svo miklu lægra en það varð svo 1934 og verður væntanlega nú í haust. Og ef hann álítur, að þetta sé rétt hjá hv. 6. þm. Reykv., að bændur hafi ráðið verðinu, þá vil ég spyrja hann að því, af hverju þeir hafi ákveðið það svona lágt. Ég bið svo átekta og þykir fróðlegt að heyra, hvernig hv. þm. Borgf. svarar þessu, vegna þess að það er talsvert mikið talað oft og tíðum bæði í Sjálfstfl. og öðrum flokki, sem hefir svipað. afstöðu til þessa máls, um þann mikla mun, að áður hafi bændur ráðið verðinu, en nú geri þeir það ekki. En nú gefur hv. þm. Borgf. væntanlega hinar réttu upplýsingar.