08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í C-deild Alþingistíðinda. (4204)

166. mál, útgerð ríkis og bæja

Flm. (Emil Jónsson):

Tilgangurinn með þessu frv. er tvennskonar. Í fyrsta lagi er það tilraun til að gera ráðstafanir til þess að halda í horfinu þeim togaraflota, sem nú er til í landinu, þannig að ný skip komi í stað þeirra, sem eru gömul orðin og eru að verða úr sér gengin á ýmsa lund. - Í öðru lagi er meiningin með þessu frv. líka sú, að atvinna aukist nokkuð við þær fiskveiðar, sem tengdar eru við þessi skip, a. m. k. hin fyrstu árin.

Um viðhald togaraflotans get ég verið fáorður. Það viðurkenna víst allir, að það er höfuðnauðsyn fyrir okkur Íslendinga að eiga skip, til þess að við getum selt öðrum þjóðum fisk og fengið aðrar vörur í staðinn. Fiskurinn er og hefir verið okkar aðalútflutningsvara, eins og öllum er vitanlegt. Það hefir ekki heldur verið dregið í efa af neinum, að við Íslendingar þurfum að eiga togara, ásamt öðrum skipum. Þó að togararnir séu ekki alstaðar hentugir, þá eru þeir þó að mörgu leyti okkar beztu veiðitæki. Þeir hafa gefið okkur skjótastan og mestan afla af okkar veiðitækjum. Á þeim hefir einnig verið hægt að gjalda skipverjum bezt kaup. Og í þriðja lagi hefir verið hægt að láta skipverja hafa betri aðbúð á þeim heldur en öðrum skipum í okkar fiskiskipaflota. Vegna þessa alls held ég, að allir hljóti að vera sammála um það, að togarafloti okkar megi ekki leggjast niður, heldur verðum við að reyna að halda honum við.

En hvaða líkur eru nú til þess, að togaraflota okkar verði haldið við ? Svarið er heldur raunalegt. Meðalaldur þessara höfuðveiðitækja okkar er 15 ár. Ef nú er gert ráð fyrir, sem ég hygg nærri sanni, að hægt sé að nota þessi veiðiskip í 20 ár eða 25 ár í hæsta lagi, þá eru ekki nema 10 ár, miðað við meðalaldur togaranna, þangað til togaraflotinn er orðinn svo úr sér genginn, að við verðum að kasta honum fyrir borð. Sá mikli ókostur fylgir þessu líka að gera út svona gömul skip, hve þau eru dýr í rekstri og erfitt er að láta þau bera sig. Um það ber öllum saman. - Ég held einnig, að það sé ekki ofmælt, að enginn okkar togara sé svo byggður eins og nýtízkutogarar eru byggðir nú, heldur séu þeir allir orðnir að meira eða minna leyti úreltir.

Þetta er alveg hörmulegt ástand og gefur manni tilefni til að leggja fram þá spurningu: Hvar lendir þetta? Og hvað er hægt að gera til þess að bjarga þessu við? Við erum allir sammála um, að hér þurfi að vera til togarar. En nágrannaþjóðir okkar byggja nú nýtízku togara. Þær munu því bera hærri hlut en við í fiskveiðum, ef við höldum áfram á sömu braut og nú, því að við Íslendingar höfum á síðari árum ekki keypt neina nýja togara, svo teljandi sé. Ég hygg, að nú séu liðin 5 ár síðan síðasti togarinn var keyptur hingað til landsins af einstaklingi.

Aðalörðugleikinn, sem útgerðin á við að stríða, er sá, að fá hana til að bera sig. En eitt höfuðskilyrðið til þess, að það sé hægt, er, að við höfum skip búin þeim tækjum, sem bezt þekkjast. því aðeins er hægt með sanngirni að búast við, að við getum keppt á erlendum mörkuðum bæði við verndartolla á fiski og við keppinauta okkar um markaðinn, sem hafa skip, sem búin eru miklu betri tækjum en okkar skip eru nú. Þetta er orsökin til þess, að skipulagsn. atvinnumála hefir samið frv. það, sem hér liggur fyrir, í þessu tvennskonar augnamiði, að reyna fyrst og fremst að koma því í kring, að endurnýja togaraflotann, og á hinn bóginn að auka atvinnu í landinu á meðan gömlu skipunum okkar er ekki hrakað svo, að enn má nota þau.

Skal ég nú með nokkrum orðum lýsa þeirri aðferð, sem frv. gerir ráð fyrir til þessarar aukningar á togaraflotanum.

Fyrst er nýmæli í frv., þar sem gert er ráð fyrir, að ríkið og bæir myndi félagsskap til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd. Það má kannske segja, að það hefði verið hægt með einhverju öðru móti að fá þetta gert. En það hefir sýnt sig, að einstaklingar hafa ekki farið út í það. Bæjarfélög eiga erfitt með það, vegna þess að fjárhagur þeirra er svo takmarkaður. Hinsvegar er ekki eðlilegt, að ríkið geri það eitt, af því að það eru fyrst og fremst kaupstaðirnir í landinu, sem þurfa á togaraútgerð að halda. Þess vegna er rétt, að þeir séu þátttakendur í þessum framkvæmdum. Frv. gerir þess vegna ráð fyrir, að ríkið og kaupstaðir myndi um þetta félagsskap, þannig, að ríkissjóður leggi fram 200 þús. kr. og bæir 100 þús. kr. árlega á næstu 5 árum til þess að kaupa fyrir 2 togara árlega á þessu tímabili. Þessar 300 þús. kr., sem gert er ráð fyrir, að bæir og ríki leggi fram, mun láta nærri, að nemi kringum 1/3 hluta af verði togaranna. En hinir 2/3 hlutarnir er ætlazt til, að teknir verði að láni og að ríkið veiti ábyrgð fyrir því lánsfé, sem til þess þarf. Útgerðinni er auðvitað ætlað að standa undir þessu lánsfé. En aftur á móti er gert ráð fyrir því, að arður verði ekki greiddur fyrstu árin af því fé, sem ríkið og bæir leggja fram.

Þá eru í 4. gr ákvæði um skuldbindingar og ábyrgð ríkis og bæja, sem að fyrirtækinu standa, viðvíkjandi rekstri þess. - Næsta grein er um stjórn fyrirtækisins. - Í 6. gr. er svo fyrir mælt, að félagið megi ekki kaupa eldri togara en tveggja ára. Einnig er í þeirri gr. tekið fram, að afla skuli leggja á land þar, sem kaupstaðir þeir, sem í félaginu eru, æskja, að jöfnum hlutföllum við framlög kaupstaðanna til félagsins.

Það má að sjálfsögðu búast við, að ýmislegt verði fundið frv. þessu til foráttu, auk þess sem menn finna að því af principástæðum. Ég geri ráð fyrir, að spurt verði: Hvað á að gera við ný skip, þegar illmögulegt er að selja þann fisk, sem við nú öflum? Þeirri spurningu er ekki öðru að svara en því, að ef við getum ekki selt okkar fisk í náinni og ófyrirsjáanlegri framtíð, það er okkar menning alveg dauðadæmd, því að hún byggist á því, að við getum fengið markað fyrir fisk og fiskafurðir.

Það getur verið, að sagt verði, að hér sé verið að stofna til aukningar á fiskiskipaflotanum og fiskframleiðslu í landinu. En því er þar til að svara, að þessi aukning, 2 skip á ári, mun að minni hyggju ekki skapa meiri aukningu á fiskframleiðslunni á ári en sem nemur 1-1/2%, þegar tekið er tillit til þess, að gamlir togarar ganga úr sér. En meiri sveiflur hafa orðið í þessu efni nú frá ári til árs heldur en þetta. Það má því segja, að við séum nokkurn veginn jafnótryggir um markaðinn, hvort sem þessi skip eru tekin með eða ekki. Og svo má, eins og tekið er fram í grg. frv., lengi draga að endurnýja flotann, ef bíða á eftir því, að tryggð sé sala allra afurðanna.

Þá er önnur hlið á málinu, og sjálfsagt munu koma aðfinnslur í sambandi við hana. Það mun verða sagt, að ekki sé séð fyrir fé handa ríkissjóði og bæjum til þess að leggja í þetta. því má svara þannig, að með þessu er sköpuð atvinna. Hver togari er reiknað að gefi 200 þús. kr. tekjur handa þeim, sem atvinnu hafa við hann, og fæði um 50 fjölskyldur. Tveir togarar ættu því að veitu atvinnu kringum 500 manns, ef miðað er við 5 manna fjölskyldu, eða um 1/3 hluta af þeirri árlegu fólksfjölgun, sem nú er í landinu. Ég geri ráð fyrir, að með þessu verði um svo verulegan atvinnuauka að ræða, að vegna hans megi draga nokkuð úr þeim fjárframlögum, sem annars hefði orðið að veita til atvinnubóta. Hinsvegar veit ég ekki, hvort fært er að draga úr því fé, sem nú þegar er veitt til atvinnubóta. En það er augsýnilegt, að ef ekkert verður framkvæmt í sömu átt og þetta frv. gerir ráð fyrir, þá verður að auka framlög til atvinnubótavinnu frá því sem nú er.

Ég vil svo að síðustu benda á, að þetta er merkilegt og þýðingarmikið mál fyrir þjóðina í heild. Vænti ég því, að menn láti ekki pólitískar skoðanir aftra sér frá að athuga það gaumgæfilega. Menn mega og ekki fordæma þá leið, sem hér er bent á að fara, þó að þeir í sjálfu sér séu á móti því, að ríki og bæjarfélög leggi út á þessa braut, nema þá því aðeins að geta bent á einhverja aðra leið, sem ekki er lakari.

Óska ég svo frv. vísað til sjútvn. að umr. lokinni.