08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í C-deild Alþingistíðinda. (4205)

166. mál, útgerð ríkis og bæja

Sigurður Kristjánsson:

Ég ætla ekki að tala almennt um mál þetta nú við 1. umr., því að ég vil fyrst nota aðstöðu mína til þess að athuga það í n. þeirri, sem því mun verða vísað til. En ég vil ekki láta það fara orðalaust til n., því að þetta er í rauninni ekki nýtt mál hér á þingi. Mál þetta kemur mér óneitanlega dálítið einkennilega fyrir sjónir, þar sem frv., sem ég bar fram á síðasta þingi ásamt öðrum flokksmönnum mínum, um að tryggja togaraútgerðina og viðhalda henni, mætti þá heilum vegg af mótstöðu, þar sem hv. flm. frv. þessa var ekki léttasti steinninn, svo ekki var einu sinni hægt að skýra málið. Við bárum þá t. d. fram þau rök, að togaraflotinn væri yfirleitt orðinn 15 ára gamall og því brýn þörf á að fara að endurnýja hann, en þetta heyrðu andstæðingarnir ekki þá, og við mættum ekki öðru en skilningsleysi og andúð, bæði hjá hv. þm. Hafnf. og samherjum hans. Þeim þótti ekkert annað fært en kæfa málið. Það þýðir því ekkert fyrir hv. flm. að reyna að telja mér trú um, að það sé umhyggja fyrir togaraútgerðinni, sem vakir fyrir honum og flokksbræðrum hans nú. heldur er hér um að ræða stefnumál hjá honum og fylgifiskum hans, sem sé að ganga að einkarekstrinum dauðum og koma svo á fót ríkisrekstri. Þessu þýðir ekki að mót mæla, og stjórnarflokkarnir hafa við hvert tækifæri sýnt þessum atvinnuvegi óvild. Þannig neituðu þeir t. d. alveg í fyrra, að togaraútgerðarmenn kæmu til greina, þegar rætt var um skuldaskilasjóð útgerðarmanna, og þannig mætti lengi telja. Það eina, sem togaraútgerðarmenn fengu þá hjá stjórnarflokkunum, voru fjandsamleg orð, enda þótt sýnt væri, að togaraútgerðin hefði gefið meiri arð en flestir eða allir aðrir atvinnuvegir.

Slíkt frv. sem þetta er vitanlega fjarstæða frá sjónarmiði okkar, sem vitum, að atvinnulífið þróast af framtaki manna og þörfinni og skilum, að svo framarlega sem ekki eru lagðir steinar í götu atvinnuveganna, þá þroskast þeir á eðlilegan hátt, en ekki ef þeir eru spilaðir upp eftir pólitískum heilaspuna óhlutvandra loddara.

Við, sem bárum fram frv. í fyrra, vildum efla lánsstofnun, sem gæti lánað fé til endurnýjunar togaraflotanum, og það var vitanlega eina skynsamlega leiðin til endurnýjunar flotanum á réttum grundvelli. En ég varð ekki var við, að hv. þm. Hafnf. legði eyrun að þessu, og ég varð ekki heldur var við það þá, að þessi hv. þm. teldi atvinnulífi landsmanna stafa hætta af því, að togaraflotinn gengi úr sér.

Það, sem sérstaklega hvatti mig til þess að standa upp í þetta sinn, voru þau ummæli hv. flm., að útgerðarmenn togaranna og eigendur þeirra hefðu ekki í neinu sýnt það, að þeir ætluðu eða vildu endurnýja þá. Þetta verð ég að segja, að sé allgrálega mælt. Hafa útgerðarmenn kannske ekki barizt við óvenjulega örðugleika í fleiri ár, og halda togurunum úti með tapi, í von um að geta staðið af sér élið, endurnýjað þá og haldið þeim við, þrátt fyrir það, þó að þeir hafi verið níddir á allan hátt og engu átt að mæta nema skilningsleysi og andúð hjá þeim, sem telja togaraútgerðina óþjóðholla og vilja fyrirkoma henni? Þrátt fyrir þetta er enginn vafi á því, að togaraeigendur myndu endurnýja flota sinn, enda þótt ekki hafi blásið byrlega um sölu sjávarafurðanna, ef þeir hefðu aðeins samúð og skilning stjórnarvaldanna og fólksins. Það er því aðbúðin að þeim, sem standa að þessum atvinnurekstri, sem er þess valdandi, að þeir hafa ekki getað endurnýjað togarana.

Ég vil svo að síðustu undirstrika það, sem ég tók fram áðan, að mér finnst harla undarlegt, eftir þær undirtektir, sem hliðstætt mál þessu fékk hér á síðasta þingi, þá skuli þetta mál vera orðið svona mikið hitamál þeirra sömu manna, sem mest og harðvítugast lögðust á móti frv. okkar í fyrra. Já, svo mikið hitamál, að nú vilja þeir láta ríkið og bæjarfélögin leggja stórfé í hættu til þess að endurreisa þá sömu útgerð, sem í fyrra þótti ekki hæf til þess að komast undir lögin um skuldaskil útvegsmanna. Annars er það svo, að það er ekki skipaleysið, sem mest þjakar útgerðina nú, heldur hitt, hve erfitt er að koma afurðunum í verð. En það, að hægt sé að koma afurðunum, sem flotinn aflar í verð, er vitanlega fyrsta skilyrðið fyrir því, að það þýði að endurnýja hann. Verði nú að því ráði horfið að láta ríkið fara að gana út í þennan atvinnurekstur, án þess að taka tillit til ástæðna þeirra, sem fyrir eru, þá yrði það til þess að hleypa á stað keppni um þann litla markað, sem til er fyrir framleiðsluvörur sjávarútvegsins, en hvort það er það eina nauðsynlega, er annað mál. Þannig er það ekki víst, að aukning togaraflotans á þann hátt yrði almenningi til hagsbóta. En hitt er víst, að endurnýjun hans á eðlilegan hátt yrði almenningi til hagsbóta. Um það verður ekki deilt.