08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í C-deild Alþingistíðinda. (4206)

166. mál, útgerð ríkis og bæja

Flm. (Emil Jónsson):

Það er fátt eitt í ræðu hv. 6. þm. Reykv., sem svara þarf. - Hann vildi halda því fram, að einstaklingarnir vildu og gætu endurnýjað togaraflotann, ef þeim aðeins væri sýndur sá sómi, sem hann og flokksmenn hans krefðust. Þetta er bara gamli sónninn, að telja erfiðleikana stafa af skattaálagningu og andúð andstæðinganna. Án þess að fara langt út í þetta, þá tel ég slíkt alls ekki vera höfuðástæðuna fyrir hinni vondu afkomu togaraútgerðarinnar.

Þá sagðist hv. þm. hafa borið fram á þinginu í fyrra svipað frv. og þetta, sem hér er til umr. Mér er hreinasta ráðgáta, hvaða frv. þetta getur verið. Hann var eitthvað að tala um frv. um skuldaskilasjóð útgerðarmanna, sem hann, ásamt fleiri flokksbræðrum sínum, flutti á síðasta þingi. Að hann hafi átt við það með þessum ummælum sínum, getur tæplega verið, því að það frv. gekk ekki út á að halda við togaraflotanum eða endurnýja hann, heldur gekk það beinlínis út á það, að tryggja togaraeigendum, sjálfa. En það er vitanlega allt annað, að tryggja það, að vissir menn hafi umráðarétt yfir skipunum, heldur en það, sem frv. okkar miðar að, en það er að fá ný og betri skip inn í landið. Þetta er höfuðmunurinn á sjónarmiðum okkar flm. þessa frv. og hv. 6. þm. Reykv., að við höfum hagsmuni þjóðarheildarinnar fyrir augum, en hann og fylgifiskar hans aðeins nokkra togaraeigendur. Hvort heilbrigðara er, þarf ekki að deila um.

Hann fullyrti, að það væri rangt hjá mér að útgerðarmenn hefðu ekki sýnt sig neitt í því, að þeir ætluðu að endurnýja flotann. Það væri aðeins illkvitni stjórnarflokkanna um að kenna, að þeir voru ekki þegar byrjaðir á því. Ég fæ nú alls ekki séð, á hvern hátt togaraeigendurnir hefðu átt að geta endurnýjað flota sinn, þó að frv. hv. 6. þm. Reykv. og flokksmanna hans hefði verið samþ. í fyrra, því að eins og ég þegar hefi bent á, fór það eingöngu í þá átt að tryggja útgerðarmennina, en ekki útgerðina sjálfa, en það er sitt hvað. Að hér sé um samskonar mál að ræða, er því hreinasta fjarstæða.