08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í C-deild Alþingistíðinda. (4208)

166. mál, útgerð ríkis og bæja

Flm. (Emil Jónsson):

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að frv. hans og félaga hans í fyrra um skuldaskil útgerðarmanna hefði miðað að því að halda togaraflotanum við og auka hann, eftir því sem þörfin krefðist á hverjum tíma. Þessu leyfi ég mér að mótmæla, því að ég hygg, að það hafi ekki verið féleysi, sem hefir hamlað því, að nýir togarar hafi verið keyptir, þar sem ekki þarf nema 150-200 þús. kr. til þess að festa kaup á nýjum togara.

Þá var hv. þm. að tala um loddaraleik okkar jafnaðarmanna í þessu máli. Slík ummæli frá honum eru sama og að tala um snöru í hengds manns húsi. Því að hafi nokkur maður leikið loddaraleik í stjórnmálum, þá hefir þessi hv. þm. gert það. Honum hefir ekki nægt að gera það hér í þingsölunum, heldur hefir hann og leikið sinn sama leik bæði á þingmálafundum og í blaðagreinum. Hér á Alþingi hefir hann þyrlað upp frv., sem engin hugsun hefir verið í og ekki nokkur leið að framkvæma, og því borin fram aðeins til þess að blekkja. Þegar svo þessi maður fer að vanda um við okkur, sem berum fram frv. okkar í góðri trú, finnst mér skörin fara að færast upp í bekkinn.