08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í C-deild Alþingistíðinda. (4213)

166. mál, útgerð ríkis og bæja

Finnur Jónsson:

Hv. þm. G.-K. minntist á það oftar en einu sinni í ræðu sinni, að ég hefði kastað kaldyrðum að útgerðinni. Mér þykir leitt, að hv. þm. skuli ekki hafa heyrt það, sem ég sagði, eða þá ekki skilið það. Ég hefi engum kaldyrðum kastað að útgerðinni. Ég las aðeins upp nokkrar línur úr nál., þar sem því er slegið föstu, að togaraflotinn hafi ekki verið endurnýjaður nú um skeið. Þar sem þetta er sú skoðun, sem hv. þm. G.-K. hefir sjálfur látið í ljós bæði í ræðu og riti, skil ég ekki, hvernig hægt er að skoða orð mín sem kaldyrði í garð útgerðarinnar. Þetta eru staðreyndir, og aðalatriði málsins verður þá það, hvernig hægt sé að endurnýja togaraflotann.

Það var sagt hér í einni þingræðu af hv. 6. þm. Reykv., að hér hefði í fyrra legið fyrir frv. frá honum og flokki sjálfstæðismann., þar sem gert var ráð fyrir slíkri eflingu fiskveiðasjóðs, að hann yrði fær um að endurnýja togaraflotann. Nú er það vani hv. 6. þm. Reykv. að hrúga hér fram frv., sem að sögn eiga að vera til eflingar sjávarútveginum, en eru í rauninni mest til að sýnast. Nú væri ekki hægt að heimta af honum minna en það, að hann vissi hvað stæði í hans eigin frv. En í frv. um fiskveiðasjóð, sem hann vitnaði til, er gert ráð fyrir, að 30000 kr. sé það hæsta lán, sem hægt sé að veita út á hvert skip. Þegar nú þess er gætt, að nýtízku togari kostar hátt á 5. hundrað þús. kr., sést bezt, hve langt þessar upphæðir mundu hrökkva til endurnýjunar flotanum. Ég minnist ekki á þetta dæmi af því, að slíkt sé nein nýlunda af hálfu þessa hv. þm., en það sýnir með öðru. hve ósýnt honum er yfirleitt um að vita, hvað hann ætlar sér í raun og veru með frv. sínum. - Frv. sjálfstæðismanna í fyrra um fiskveiðasjóð getur því ekki talizt að hafa verið flutt til endurnýjunar togaraflotanum, og er því allt annars eðlis en frv. það, sem hér liggur fyrir.

Hv. þm. G.-K. sendi mér og samvinnufélagi Ísfirðinga, sem ég hefi stjórnað nú um nokkur ár, sínar venjulegu kveðjur. Hann sagði, að þetta félag væri ljósastur vottur um erfiðleika þá, sem sjávarútvegurinn hefði átt við að stríða undanfarið og félagið hefði ekki farið varhluta af, fremur en aðrir. En þetta félag er nú ekki stofnað sem gróðafyrirtæki, heldur sem atvinnubótafyrirtæki sjómanna og verkamanna, þegar útgerð einstaklinga var hrunin í rústir. Ég minnist á þetta mál af því, að það hefir á óviðeigandi hátt verið dregið hér inn í umr. - Félagið var stofnað árið 1926, þegar útgerð einstaklinga á Ísafirði var hrunin í rústir. Ísafjörður er bær, sem ekki hefir á öðru að lifa en útgerð. Þegar einstaklingsútgerðin var hrunin, voru öll skip seld burt úr bænum nema 2 eða 3 mótorbátar 12-20 smálesta, og er það ljóst, að eitthvað varð að gera, eins og komið var. Skip einstaklinganna voru öll auglýst og seld af bankavaldinu, sem öllu réði, og álitu margir, að það hefði verið gert til þess að koma bæjarfélaginu á kaldan klaka, því að jafnaðarmenn höfðu þá haft meiri hl. í bæjarstj. um nokkur ár. Var álitið, að sá væri tilgangurinn, að knýja bæjarstj. til að gefast upp og leita á náðir ríkissjóðs.

Samvinnufélagið tók til starfa um áramót 1928 -29. Ég veit, að hv. þm. G.-K. viðurkennir, þegar hann athugar málið, að fiskverð hefir alltaf farið lækkandi síðan. Fyrsti fiskurinn, sem veiddist á skip félagsins, var seldur fyrir 53 aura kg., en síðan hefir verðið verið miklu lægra og jafnvel komizt niður í 21 eyri kg. - Um afkomu þessa félags get ég vísað til skýrslu mþn. í sjávarútvegsmálum, sem samin er af hv. 6. þm. Reykv., en hann hefir aldrei borið félaginu betur söguna en það hefir átt skilið. En þessi skýrsla ber með sér, að afkoma samvinnufélagsins hefir ekki verið verri, heldur jafnvel betri en annara útgerðarfélaga á vestfjörðum. Það má vera, að afkoman hefði orðið betri, ef einhver annar hefði stjórnað félaginu en ég. Um það dæmi ég ekki. Hinu vil ég mótmæla, að ég hafi notað aðstöðu mína á nokkurn hátt til að tryggja, að ég yrði ekki fyrir tapi, ef illa færi fyrir félaginu. Að vísu er það svo, að þegar félagið er stofnað, eiga hópar einstakra manna hvert skip um sig, en þessir menu vildu ekki halda skipunum út. Þegar líkur reyndust til, að hagnaðurinn yrði enginn á haustvertíðinni, en hinsvegar var atvinnuþörfin knýjandi. Af þessu og svo því, að tap varð á sumum skipunum, þó að gróði yrði af öðrum, var talið rétt að sameina eign allra skipanna. Enginn einn maður hafði þar aðstöðu til að tryggja, að hann tapaði ekki fé. Allir voru samábyrgir fyrir skuldum félagsins og skuldbindingum, og eru það enn.

Nú er það rétt hjá hv. þm. G.-K., að félaginu hefir farið sem mörgum öðrum vélbátaeigendum, að snúa sér til skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda. Það er rétt, að félagið skuldar bæjarsjóði Ísafjarðar allmikla fjárhæð, og eins ríkissjóði. En á þessum síðustu tímum hafa fleiri komizt í slíkt en samvinnufélag Ísfirðinga. Þessar skuldir eru að vísu nokkuð háar, og er afleitt, ef þessar opinberu stofnanir skyldu tapa allmiklu af þeim. En það er nú svo um skuldir við hið opinbera, að þær lenda fyrr eða síðar á almenningi. Þannig er það t. d. um skuldir við bankana, sem taka því hærri vexti af lánum, sem meira af skuldunum næst ekki inn. - Ég veit, að hv. þm. G.-K. skilur þetta. Ég veit, að hann sér, að þar sem samvinnufélag Ísfirðinga hefir ekki átt tök á því að safna skuldum í bönkunum, eins og hann hefir gert og það fyrirtæki, sem hann hefir stjórnað, og þar sem það er stofnað sem atvinnubótafyrirtæki fyrir Ísafjarðarbæ, þá er ekki óeðlilegt, að skuldir þess söfnuðust fyrir hjá bæjarsjóði Ísafjarðar, ekki sízt þegar þess er gætt, hve félagið hefir haldið uppi miklum atvinnubótum. Vinnulaun, sem félagið hefir greitt, hafa sjaldan verið undir í millj. kr. á ári. Tel ég þetta vera hlutfallslega þær mestu atvinnubætur, sem reknar hata verið í nokkru bæjarfélagi að tiltölu við fólksfjölda.

Ég gat þess áðan, að skuldir samvinnufélags Ísfirðinga við ríki og bæjarfélag væru nokkuð miklar, þó eru þær ekki nema helmingur af því, sem sagt er, að framkvæmdarstjórar Kveldúlfs skuldi í sínu eigin félagi. Það má reyndar segja, að slíkt séu einkamál, en svo er þó ekki alltaf. Ef það er satt, að félagið skuldi bönkunum 1-5 millj. kr. og að þær skuldir séu óveðtryggðar, þá kemur almenningi það meira en lítið við, hvort skuldirnar eru tapaðar eða ekki; því vitanlega lenda töpin á almenningi. Ég er ekki að segja þetta til þess að egna hv. þm. G.-K. upp, því að hann hefir haft ástæður til þess undanfarna daga að ergja sig yfir ýmsu, og er ekki gustuk á það að bæta. Ég segi þetta til þess að sýna, að fleiri skulda allmikið en samvinnufélag Ísfirðinga. Skuldir einstakra manna, þó að þær séu ekki hjá opinberum stofnunum, geta oft að lokum lent á því opinbera, og svo mun verða um skuldir þeirra Kveldúlfsbræðra.

Ég sé ekki ástæðu til að taka fleira fram í þessu sambandi. En þar sem allar líkur eru til, eftir þeim að sumu leyti vinsamlegu viðtökum, sem frv. hefir fengið, að það fari til 2. umr. og n., og þar sem það virðist sameiginlegt álit allra, sem tekið hafa til máls, að endurnýja þurfi togaraflotann, en þar sem hinsvegar engar líkur eru til, að svo verði gert, nema hið opinbera leggi fram fé til þess, þá vil ég brýna það fyrir hv. dm. að láta það ekki verða til þess að sigla málinu í strand, þótt nokkuð kunni að greina á um leiðirnar.