08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í C-deild Alþingistíðinda. (4215)

166. mál, útgerð ríkis og bæja

Ólafur Thors:

Mér þykir ánægjulegt að heyra hv. þm. Ísaf. tala um útgerðarmál á svipaðan hátt og viti bornir menn gera. Það er ekki venja hans. En það er sannast sagna, að sá eldur er heitastur, er á sjálfum brennur. Ef bæjarfélag hans hefði ekki lent í því óláni að fela honum forstjórn þess fyrirtækis, sem hann minntist á og nú er á góðum vegi með að mergsjúga bæjarfélagið, myndi hann ekki hafa haft þessi orð um erfiðleika útgerðarinnar eða látið í ljós slíkan skilning á málum þessa atvinnurekstrar og þó kom fram hjá honum. En þó að ég fagni því, að hann hefir hlotið þessa reynslu, er samt ekki því að leyna, að hún var nokkuð dýrkeypt.

Það er nú gaman fyrir okkur, sem á meðan við áttum nokkuð vorum níddir sem blóðsugur, og eftir að sjóðir okkar eru upp gengnir erum níddir sem fávitar — það er gaman að hafa nú í feninu fyrir neðan sig bak þessa hv. þm. til að fóta sig á, því að ekkert fyrirtæki er eins neðarlega komið með jafngóðan afla og það, sem hann hefir veitt forstöðu.

Út af því, sem hann vék að mér og félagi minn, vil ég taka það fram, að ég er persónulega ábyrgur fyrir öllum skuldum þess félags. Fari svo, að það rísi ekki undir skuldbindingum sínum, þá stend ég þar undir með öllu því, sem ég hefi handa á milli. Ég hefi aldrei ætlað mér að verða ríkur á því að láta félag mitt fara á höfuðið, og þarf ég ekki að bera kinnroða fyrir neitt í þessu sambandi.

Félag það, sem ég hefi staðið fyrir, hefir alls greitt um 40—50 millj. í kaupgjald og margar milljónir til hins opinbera í gjöldum og vöxum, og hefir það oft orðið að greiða hærri vexti vegna annara, sem gefizt hafa upp. Ég hefi ekki haft neitt af neinum og þarf engan kinnroða að bera fyrir mitt fyrirtæki, sem m. a. hefir greitt meira í kaupgjald en nokkurt annað hérlent fyrirtæki. Ef ég skulda mínu félagi, sem er rétt, þá er það af því, að ég hefi haft beint samband við þann lánardrottin um húslán, og hefi ég tekið það ráð að fá heldur lánin hjá félaginu en bönkunum, og er það gert í samráði við lánardrottna félagsins. En vitaskuld standa allar mínar eignir til tryggingar fyrir þeim lánum, sem ég hefi fengið, og þarf ég því heldur engan kinnroða að bera fyrir þetta. Það er misskilningur hjá hv. þm., ef hann heldur, að hann kasti rýrð á mig með þessum aðdróttunum sínum. Það er alveg eins tilgangslaust fyrir hann að gera það eins og það er tilefnislaust fyrir hann að gera það.

Ég er búinn að lýsa afstöðu minni til þessa máls, og get því orðið við tilmælum hæstv. forseta, því ég þykist ekki þurfa að eyða fleiri orðum til þess að kasta frá mér áburði þeim, sem hv. þm. Ísaf. bar á mig. Enda er ég orðinn leiður á því að tugta þennan hv. þm., því hann er fremur vesæll andstæðingur, sem mér þykir lítill fengur í að fást við.