08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í C-deild Alþingistíðinda. (4217)

166. mál, útgerð ríkis og bæja

Flm. (Emil Jónsson):

Ég skal nú ekki fara út í deilu þá, sem hv. þm. G.-K. og hv. þm. Ísaf. hafa átt um Kveldúlf og samvinnufélag Ísfirðinga, né bera af mér ásakanir þær, sem komið hafa fram um, að það andi köldu frá mér í garð útgerðarinnar. En ég skal taka það fram, að ég sagði áður, að ég teldi réttara að vinna að því, að útgerðin gæti haldið áfram, heldur en að útgerðarmennirnir geti haldið áfram. Og það er hið eina, sem mætti kalla kalda kveðju frá mér. En ég vil standa við þau orð mín, að ég legg meira upp úr því, að reksturinn geti haldið áfram heldur en að eigendurnir haldi áfram að vera þeir sömu. Og þetta var það sjónarmið, sem hæstv. atvmrh. lagði til grundvallar fyrir stefnu okkar flokks í umr., sem urðu um sjávarútvegsmálin á þinginu í fyrra.

Hv. þm. G.-K. sagði, að það væri ekki meinabót, eftir að við hefðum tapað markaði á Ítalíu, Spáni og Portúgal, að vera þá að auka skipastólinn. En hér er við tvennskonar erfiðleika að stríða. Annarsvegar er lokun markaða, en hinsvegar viðhald togaranna. Með þessu frv. á einungis að ráða bót á öðru vandamálinu, sem sé því, hvernig eigi að halda við togaraflotanum. Ég skal geta þess, að sem betur fer er þrenging markaða ekki meiri en svo, að ekki hefir verið að ræða um neinar verulegar takmarkanir á veiði landsmanna. Það má vera, að þetta verði nauðsynlegt, en ég vil ekki gera ráð fyrir því, að á næstunni verði nauðsynlegt að grípa til þessa ráðs.

Ég get ekki séð, að það þurfi að gera neinar sérstakar ráðstafanir til þess að sökkva skipunum, því það kemur fyrir, að þau sökkvi, þó að engar ráðstafanir séu gerðar til þess að sökkva þeim, og þá er gott, að eitthvað komi í staðinn. Það er nú svo hjá okkur, að það líður varla svo árið, að ekki farist fleiri eða færri af okkar ófullkomnu skipum.

Ég þurfti sérstaklega að segja dálítið við hv. 6. þm. Reykv., en ég get eins sagt það við hv. þm. Vestm., því að hann tók upp hanzkann fyrir hv. 6. þm. Reykv. — Hv. 6. þm. Reykv. vék að því í fyrri ræðu sinni, að þetta væri samskonar frv. og það, sem sjálfstæðismenn hefðu borið fram á síðasta þingi, en það hefði verið flutt til þess að sjá ráð til þess að halda skipunum við, en þá hefðum við jafnaðarmenn staðið sem múrveggur til þess að hindra, að það næði fram að ganga. Ég þarf nú ekki að rekja efni þessa frv., sem sjálfstæðismenn fluttu, því hv. þm. Vestm. hefir þegar gert það. Hv. þm. játaði, að þeir hefðu ekki verið að gera ráðstafanir fyrir árið í ár, heldur átti að gera ráðstafanir til viðhalds flotanum eftir 1941. Ég held nú, að það séu mörg vandamál, sem hefðu legið nær heldur en að gera ráðstafanir, sem koma til framkvæmda ettir 1941.

Ég skal taka það fram, að ég hafði í fávizku minni ruglað einu núlli í frv. og lesið 300 þús. kr. fyrir 30 þús. kr., en í frv. segir, að það megi ekki lána hærri upphæð en 30 þús. kr. út á skip. En mér datt ekki í hug, að upphæðin væri svona lítilfjörleg. Í frv. er það tekið fram, að til ársins 1941 megi lána 30 þús. kr. út á skip, en svo sé hægt að tala nánar um þetta. Nú er það upplýst, að skipin eru flest 10—15 ára, og þá eru þau orðin 17—22 ára 1941, og þá lítil líkindi til þess, að þau geti tekið upp samkeppni við nýtízku skip. Það er því fjarstæða, að með þessu frv. hefði verið hægt að hjálpa togaraútgerðinni. Frv. um skuldaskilasjóð var flutt til þess að tryggja núverandi eigendur, en ekki framhald útgerðarinnar.

Ég skal nú ekki segja nema einstaka útgerðarmenn geti orðið gjaldþrota, en hv. þm. Vestm. sagði mjög skáldlega, að þeir legðu út á djúpið með allt sitt, og svo var að heyra á honum, að þeir létu aldrei neitt skella á bæjum eða ríkinu. Ég held nú, að það sé fulldjarflega mælt, að segja, að útgerðarmenn láta aldrei neitt skella á bæjum eða ríkinu, því það hefir komið fyrir þó nokkrum sinnum, að þeir hafa ekki getað staðið undir skuldum sínum, og þá hafa þær skollið á bæjum eða ríkinu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. Ég vil þakka hv. þm. G.-K. fyrir þau orð hans, að þetta væri svo merkilegt mál, að menn mættu ekki láta fyrirfram ákveðna skoðun glepja sér sýn, svo að þetta mál væri ekki ýtarlega rætt og skoðað frá öllum hliðum.