08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í C-deild Alþingistíðinda. (4220)

166. mál, útgerð ríkis og bæja

Flm. (Emil Jónsson):

Ég held, að hv. þm. Vestm. verði að leita vel í frv. mþn. í sjávarútvegsmálum, ef hann ætlar að finna þar, að bent sé á ráð til að endurnýja togaraflotann, og hversu vel sem hann leitar, mun hann ekki finna þau þar, því þau eru ekki til í frv., heldur er í grg. við frv. aðeins drepið á þetta atriði. En að við höfum sýnt togaraútgerðinni nokkurn fjandskap, því neita ég alveg, og nægir í því að vísa til grg. í nál. um frv. til laga um skuldaskilasjóð. Þar stendur á þá leið, að smáútvegurinn og vélbátaútvegurinn ættu að njóta styrks frá ríkinu, en bankarnir yrðu að sjá fyrir stærri útgerðinni um lán til rekstrar. Við höfum enn nákvæmlega sömu afstöðu og þá í þessum málum. En það er bara þannig, að þegar hv. andstæðingar, sjálfstæðismennirnir, eru að tala um útgerð, meina þeir útgerðarmenn, en því höfum við alltaf gert greinarmun á, útgerðinni og útgerðarmönnunum.