14.11.1935
Neðri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í C-deild Alþingistíðinda. (4230)

168. mál, fiskimálanefnd

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég mun ekki setja mig sérstaklega á móti því, að þetta mál sæti venjulegri meðferð í nefnd. En ég get ekki fyrir mitt leyti gengið inn á þann rökstuðning, sem hv. þm. G.-K. kom hér með. Ég hygg honum sé ekki ljóst, í hverju starf fiskimálanefndar liggur. Hann hefir víst lítið grennslazt eftir því, enda myndi hann fá að vita, ef hann spyrði að því, að það liggur í allt öðru en sölu á saltfiski. Þeir, sem áður hafa flutt fisk til Englands, halda því áfram, en það eru mörg önnur viðfangsefni, bæði skipting ísfisksins og eins nýjar tilraunir með verkunaraðferðir og leit að nýjum sölumöguleikum. Ég vil í því sambandi minnast á harðfiskinn og hraðfrystan fisk. það er engin ástæða til, að þeir menn, sem eru í fisksölusambandinu, hafi nokkuð betur vit á því heldur en þeir, sem eru í fiskimálanefndinni. Þeir, sem eru í fisksölusambandinu, hafa mjög lengi átt við saltfiskssölu og eru henni því gagnkunnugir, en þeir hafa margir lítið átt við þessi nýmæli, sem fiskimálanefnd hefir til meðferðar. Það er hægt að benda á menn, sem eru í fiskimálanefnd og ekki jafnframt í fisksölusambandinu, sem virðast engu síður vel færir um þetta hlutverk heldur en hinir.

Kostnaðinn við fiskimálanefndina má vera, að megi lækka, en það getur líka orðið svo, að hann verði að hækka. Ég get ekki séð, hvernig þau störf, sem hún innir af hendi, ættu að verða miklu ódýrari, þó þau kæmu undir fisksölusambandið, nema með því móti, að þar séu menn á launum, sem ekkert hafi að gera og geti því sinnt þessum verkum. Sé svo, þá er öðru máli að gegna. Kostnaðurinn við sjálfa fiskimálanefndina mun vera mjög svipaður og við einn framkvæmdarstjóra hjá fisksölusambandinu, svo ef gert er ráð fyrir viðbótarþekkingu, þá ætti hún að vera meiri hjá þessum sjö mönnum til samans heldur en einum manni, og væri þá líklega betra að leggja niður tvo framkvæmdarstjórana heldur en hina sjö.

Viðvíkjandi starfi sölusambandsins skal ég taka það fram, að þar eru fundir tvisvar í viku og standa 2—3 klst. Ég geri ekki ráð fyrir, að þessi stjórn geti bætt á sig störfum án þess að greitt sé sérstaklega fyrir það. Í fiskimálanefnd eru fundir oft daglega og stundum oftar en einu sinni á dag, og starfsmönnum þeim, sem nefndin hefir, verður að halda áfram, ef tilraununum verður haldið áfram, t. d. með harðfisk. Það er ekki nema einn maður á öllu landinu, sem kann til fulls að verka hann og meta, og það er sá starfsmaður, sem verið hefir hjá fiskimálanefndinni. Sama er að segja um hraðfrystinguna, ef hún ber árangur og henni verður haldið áfram.

Ég get ekki séð sparnaðinn við að leggja niður fiskimálanefndina. En það getur verið óheppileg ráðstöfun, og því óheppilegra, þar sem fisksölusambandið hefir mjög sérhæft starf, sem er saltfiskssala, og ekki hægt að búast við, að það blandist með öllum öðrum störfum, sem nefndin hefir með höndum.