14.11.1935
Neðri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í C-deild Alþingistíðinda. (4233)

168. mál, fiskimálanefnd

Sigurður Kristjánsson:

Ég vil taka undir það með hv. þm. G.-K., að nauðsynlegt sé og sjálfsagt að létta öllum óþarfa kostnaði af útgerðinni. Hv. þm. G.-K. hefir bent á líkur fyrir því, að spara megi útgerðinni marga tugi þúsunda með því að færa þessar tvær stjórnir saman í eitt.

Ég er nú að vísu ekki svo kunnugur störfum í skrifstofu samlagsins, að ég geti dæmt um þetta út í æsar. En ég veit, að verkefni og þar með annríki er þar allmisjafnt eftir árstíma, og ætti því að mega bæta við störfum þá tíma, sem minnst hefir verið að gera. Ég býst við, að á þennan hátt mætti spara skrifstofukostnað fiskimálanefndar að fullu og öllu og stjórnarkostnaðinn að öllu leyti.

Upphaflega var ekki til þess ætlazt, að í stjórn S. Í. F. ættu sæti nema á menn, en síðar var ríkisstj. leyft að bæta 2 við. Að mínu áliti gætu 3 menn stjórnað þessum málum, ef forstjórarnir væru vel valdir, en nú eru alls 17 menn í stjórnum og framkvstj. þessara tveggja nefnda. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt, og kemur ekki til mála, að ekki geti færri menn með nægilegri þekkingu annazt stjórn þessara mála. Enda er enginn vafi á því, að forstjórar S. Í. F. geta bætt á sig störfum fiskimálanefndar. Einn framkvæmdastjórinn gæti alveg sér að meinalausu bætt á sig störfum skrifstofustjóra og formanns þeirrar nefndar. Það hefir jafnan verið skoðun mín, að með þeim störfum, sem forstjórarnir nú annast, væru þeir of margir.

Það er ekki nema sanngjörn krafa fiskeigenda, að ríkið hlaði ekki meiri kostnaði á málefni þeirra en þörf er á, og hvað brýnust þegar ekki fæst framleiðsluverð fyrir fiskinn. En ekki er þetta sízt sanngjarnt vegna þess, að ríkið skipar fiskimálanefnd að mestu, en tekur kostnaðinn við hana af framleiðendunum. Meðan verið var að koma nefndinni á laggirnar var látið sem ríkissjóður ætti að bera kostnaðinn, en síðan var kostnaðinum skellt á framleiðendur. Þetta er principmál, þótt það sé ekki stórt. Það er ótvíræð skylda hins opinbera að lækka þennan kostnað.