19.11.1935
Neðri deild: 77. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í C-deild Alþingistíðinda. (4243)

174. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Emil Jónsson):

Mér þykir rétt, áður en ég kem að þessu máli sjálfu, að minnast ofurlítið á annað mál, sem er sú eiginlega orsök þess, að þetta mál er hér fram komið, en það er frv., sem var hér til umr. í gær, um viðauka við og breyt. á l. um bráðabirgðaverðtoll. Þegar það frv. var samið, var leitað til iðnrekenda og iðnaðarmanna um það, hverjar óskir þeir hefðu fram að bera um breyt. á þessum l. Þá barst m. a. bréf frá skipa- og bátasmiðum, sem prentað er með umræddu frv. á þskj. 112. Í þessu bréfi fóru báta- og skipasmiðir þess á leit að fá 15—20% verðtoll á innflutta báta og skip, og það er sú rétta orsök til þess, að þetta frv. er samið. Það var reynt að fara eftir óskum iðnaðarmanna, en þessar óskir skipa- og bátasmiða þótti ekki fært að taka til greina, vegna þess að það kæmi of hart niður á útgerðinni, sem væri aðkreppt fyrir, og var því valin sú leið, sem farin er hér í frv.

Skipa- og bátasmiðir létu það í ljós, að þeir myndu sæmilega farnir, ef þeir hefðu sömu aðstöðu og útlendir skipasmiðir, en erlendir skipasmiðir hefðu nú í tveimur atriðum betri aðstöðu. Í fyrsta lagi það, að þeim héldist uppi að smiða óvandaðri báta en hér væru gerðir, og það svo, að oft þyrfti um að bæta þegar bátarnir væru komnir hingað. Í öðru lagi það, að þeir, sem létu byggja skipin erlendis, gætu fengið lánað út á annan veðrétt í þeim, og gerði það þeim kleift að kaupa skipin, þótt þeir annars væru þess ekki megnugir.

Það atriðið, að gera útlendu skipin jafntraust þeim innlendu, hefir verið reynt að fá í lag með reglugerð, sem Bárður Tómasson á Ísafirði hefir samið og lögð verður fram fyrir atvmrh. til staðfestingar. Vænti ég, að hann sjái sér fært að láta þessa reglugerð komast til framkvæmda, bæði til þess að bæta aðstöðu íslenzkra skipasmiða, og ekki síður til hins, að auka öryggi hinna íslenzku sjómanna. — Hitt atriðið er um lánsheimild, og er gert ráð fyrir að heimila fiskveiðasjóði að lána allt að 25% af andvirði skipsins út á 2. veðrétt eftir að lánað hefir verið 50% af kostnaðarverði þess út á 1. veðrétt, og er þetta höfuðatriði frv. Mér er það ljóst, að hér liggja fyrir tvö önnur frv. um breyt. á l. um fiskveiðasjóð, en þetta frv. er þannig samið, að það á að fást samþ. hvort sem hin frv. verða samþ. eða ekki. Hér er verið að reyna til að gera báta- og skipasmíðina meira innlenda en hún er, með því að fiskveiðasjóður láni skipasmiðunum, en þeir láni svo aftur þeim útgerðarmönnum, sem skipin kaupa, allt að 25% af kostnaðarverði skipsins gegn 2. veðrétti. Þetta er sú aðferð, sem höfð hefir verið ytra og gert aðstöðu erlendu skipasmiðanna hagstæðari en þeirra innlendu. Sé ég ekki ástæðu til að fara ýtarlega út í þetta, en vil geta þess, að hér er ekki um óverulegt atvinnuspursmál að ræða.

Á síðastl. 6 árum hafa verið flutt hér inn skip og bátar fyrir nærri 3 millj. kr., eða um 1/2 millj. á ári. Auk þess hafa verið smíðuð hér frá árinu 1930 skip að stærð samtals 100 smálestir að meðaltali á ári hverju. Það er þó ekki nema lítill hluti af þeim vélbátum, sem við notum, sem smíðaður er hér á landi. Mest af þeim er flutt inn, og það er af þeim ástæðum, sem ég nefndi, nefnilega að útlendar skipasmiðastöðvar hafa skipin óvandaðri, lána út á þau gegn 2. veðrétti og þau eru ótolluð. Það hefir verið athugað, hvort nokkuð myndi hjálpa skipasmiðum hér, ef létt væri af þeim litla tolli, sem er á efni því, sem þeir þurfa að nota, en hann er svo lítill, að það er algerlega hverfandi. Þegar ekki þykir fært að leggja innflutningstoll á skipin, sé ég ekki aðrar leiðir, sem séu heppilegri heldur en sú, sem hér er bent á, nefnilega þá, að gera einhverri sjóðstofnun fært að lána út á 2. veðrétt í skipunum.

Það þarf ekki að benda á hvílík nauðsyn íslenzkri útgerð það er að endurnýja mótorbátaflotann. Flotinn er orðinn það stór, að það þarf æðimörg ný skip árlega til þess eins að halda honum við, þótt ekki sé hugsað um að fjölga.

Með frv. er gert ráð fyrir, að fiskveiðasjóði sé aflað nýrra tekna með því að sá hluti hundraðsgjalds af útfluttum afurðum, sem nú rennur í ræktunarsjóð, renni í fiskveiðasjóð Íslands jafnskjótt og framlag til ræktunarsjóðs hefir numið 1 millj. Í öðru lagi er sjóðnum heimilað að tvöfalda þau handhafavaxtabréf, sem hann hefir í umferð, þannig, að í stað þess, að þau nú mega vera 11/2 millj., þá megi þau verða 3 millj. Þó gert sé ráð fyrir, að þröngt verði um peninga, þá er sjóðnum samt aflað 100 þús. kr. á ári með því að skylda opinbera sjóði til að kaupa þessi bréf. Þetta er að vísu lítið, en ef stefnt væri að því, að öll skip væru smíðuð innanlands, þá myndi þetta þó nægja til að lána út á 2. veðrétt þeirra. Það hafa, eins og ég tók fram áðan, verið flutt inn skip fyrir að meðaltali 500 þús. kr. árlega á síðastl. 6 árum. Ef lánað eru 25% af þeirri upphæð, þá eru það 125 þús. á ári. Það er að vísu nokkru meira en sú upphæð, sem opinberir sjóðir eiga að kaupa fyrir, en það þarf ekki heldur að gera ráð fyrir, að öll skipasmíði flytjist inn í landið samtímis.

Frv. gerir ráð fyrir, að sjóðurinn veiti skipasmiðunum lánin, en ekki þeim, sem skipin kaupa. Með þessu er öryggi sjóðsins aukið, því skipasmiðirnir gefa viðbótartryggingu við það veð, sem þeir hafa í skipunum. Ég efast ekki um, að margir skipasmiðir vilji fara inn á þá braut og hafi þá tryggingu að bjóða, sem bankinn taki gilda.

Ég hygg, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um frv., en mælist til þess, að því verði, að lokinni umr., vísað til 2. umr. og sjútvn.