19.11.1935
Neðri deild: 77. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í C-deild Alþingistíðinda. (4244)

174. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sigurður Kristjánsson:

Sökum þess, að mál þetta fer sjálfsagt til sjútvn., er ekki þörf fyrir mig að segja mikið um það á þessu stigi. En þar sem hv. frsm. sagði, hver orsök lægi til þess, að þetta frv. kom fram, þá tel ég ekki annað henta en gera grein fyrir, hvernig málið kemur fyrir.

Hv. frsm. sagði, að ástæðan fyrir þessu frv. væru kröfur frá báta- og skipasmiðum. Það er því allt annað sjónarmið, sem hér blasir við, heldur en það, sem við höfðum, sem fyrst hófum máls á að efla fiskveiðasjóð, það sjónarmið var fyrst og fremst sjónarmið útgerðarmanna og sjómanna. Þetta er það, sem leiðir til þess geipimikla munar, sem er á hugsuninni í þessu frv. og því frv., sem við sjálfstæðismenn, með hv. þm. Vestm. í forystu, höfum borið hér fram og nú hefir legið í dái um langan tíma. Það, sem fyrir okkur vakti og fyrst og fremst hvatti okkur til að bera málið fram, var það, að ekki er hægt að búast við því, eins og sjávarútvegurinn gengur nú, að menn utan stéttarinnar séu fjaðri í að láta fé sitt í þann atvinnurekstur, og þeir menn, sem þennan atvinnurekstur hafa stundað, flestir búnir að tapa fé sínu, svo ekki var heldur fjárvon frá þeim. Það var því ljóst, að ef skipaflotinn ætti að verða endurnýjaður, þá yrði það að gerast með lánsfé, og nú var ekki sýnilegt, að auðvelt yrði með lántökur erlendis, og ekki heldur æskilegt, að flotinn yrði þannig erlent veð. Okkur var það ljóst, sem ekki virðist vera ljóst nema nokkrum hv. þm., að útgerðin byggir að miklu leyti á togurunum, og bæri því ekki að loka augunum fyrir því, að togaraflotann þyrfti að endurnýja ekki síður en önnur skip flotans. Í frv. okkar sjálfstæðismanna, sem hér liggur fyrir, er ætlazt til þess fyrst og fremst, að fiskveiðasjóður sé aukinn og efldur, svo að hann geti orðið þess megnugur að annast skynsamleg lán til endurnýjunar flotanum, eftir þörfum. Í öðru lagi er þar ætlazt til, að sjóðurinn geti að mestu eða öllu leyti starfað með eigin fé, en það er eina leiðin til þess, að útlán hans geti orðið hagstæð, og eins og stendur nú er óhugsandi, að hann geti borgað háa vexti af stofnfé. Í þriðja lagi, að settar séu reglur um útlán, sem séu í fullu samræmi við lánareglur hjá öðrum stofnunum og lánin í samræmi við veðin, svo ekki sé hætt við, að stofnunin steypist vegna óskynsamlegra útlána.

Eftir því, sem hér var sagt við flutning þessa frv., sem nú er hér til umr., virðist ekkert af þessum sjónarmiðum hafa vakað fyrir hv. flm. þess. Hinsvegar er það ekki rétt, sem hv. frsm. sagði, að þau tvö frv. til breyt. á l. um fiskveiðasjóð, sem fram eru komin, geti alveg eins náð fram að ganga. Þótt þetta verði samþ. Þetta frv. gengur inn á svið beggja þeirra frv., þar sem það skilgreinir, á hvern hátt sjóðnum skuli aflað tekna og hvernig útlánum sjóðsins skuli háttað.

Ég vildi með nokkrum orðum rökstyðja það, hve aðkallandi nauðsyn það er, að fiskveiðasjóður sé efldur á þann hátt, að hann geti starfað með sem mestu eigin fé. Eins og kunnugt er, var gamli fiskveiðasjóðurinn rúmar 600 þús. kr., þegar nýi sjóðurinn tók við. Eins og allir geta séð, er þetta lítilfjörlegt stofnfé, ef sjóðnum er ætlað það hlutverk að endurnýja allan skipaflota landsins. Nú var það samþ. á Alþ. árið 1930, að ríkissjóður skyldi leggja fram 1 millj. kr. til að auka stofnfé fiskveiðasjóðsins, og í þeim lögum segir, að fé þetta skuli greiðast eftir því, sem ríkisstj. nær samkomulagi við stjórn sjóðsins, en að það skuli þó að fullu greitt fyrir 1941. Í reglugerð, sem ég hefi séð og gefin var út um greiðslur þessar, er fram tekið, að þær skuli greiðast þannig, að á ári hverju séu lagðar fram 100 þús. kr. Af þessu máli er svo ekki betri sögu að segja en þá, að ekki hefir enn farið fram ein einasta greiðsla af þessu fyrirhugaða stofnfé sjóðsins, hvort sem það er af því, að stjórn sjóðsins hafi verið svo vel á verði um hagsmunamál sjóðsins, eða af hinu, að ríkisstj. hafi sýnt sjóðnum þennan hlýleika. Það er að vísu alveg sérstök og mjög einkennileg tegund af hlýleika, að útgerðin skuli ekki hafa getað fengið fullnægt því loforði, sem Alþ. gaf, að greiddar skyldu 100 þús. kr. árlega til fiskveiðasjóðs Íslands. En sjóðurinn hefir ekki fengið neitt af þessu fé, og hann hefir orðið að starfa með þeim einu 600 þús. kr., sem hann átti í upphafi, og hefir neyðzt til að taka lán í Danmörku, sem nemur 11/2 millj. í ísl. kr., eða 11/4 millj. danskra kr., og af því geta menn bezt séð, hve rúmar ástæður sjóðurinn hefir, að samanlagðar greiðslur hans af þessu danska láni eru meira en helmingur af tekjum hans. Ég hefi ekki séð yngri reikninga frá sjóðnum heldur en frá árinu 1931, en þá námu tekjur hans 260 þús. kr., en kostnaður hans af danska láninu var þá yfir 140 þús. kr., og hefir sjóðurinn þá aðeins rúmar 100 þús. kr. til að standa með undir lánum. Þetta er hörmulegt, og mér blöskrar, að til skuli vera sú tegund samvizkusemi, að halda fyrir sjóðnum þessari lögskipuðu greiðslu til hans, sem átti að borgast með 100 þús. kr. árlega.

Í frv. því, sem við höfum borið fram, er ætlazt til þess, að útflutningsgjöldin gangi til sjóðsins, þegar greiðslu til ræktunarsjóðs er lokið; ennfremur er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði þá 1 millj. kr., sem honum ber samkv. samþykkt Alþ. 1930, og skildist okkur þá, að svo vel væri séð fyrir tekjuöflun sjóðsins, að við álitum, að hann yrði fær um að annast nauðsynlega lánastarfsemi.

Till. okkar um greiðslu á þessari einu millj. kr. er hagstæð fyrir ríkissjóð, en hún er sú, að hann tæki að sér danska lánið. Lán þetta er með 51/2% vöxtum og var tekið árið 1930 til 15 ára, og eru því eftir af lánstímanum 10 ár, en af greiðslutíma ríkissjóðs til fiskveiðasjóðsins eru nú ekki eftir nema 5 ár, ef hlíta skal samþykkt Alþ. frá 1930, svo með þessu fær ríkissjóður lengri greiðslufrest. En aftur á móti getur fiskveiðasjóðurinn farið að sinna útlánum með meiri krafti en hann gerir nú, ef hann þannig losnar við kostnað af danska láninu.

Ég vil ekki láta hjá líða að segja þau orð nú þegar, að hér greinir oss mikið á, þá, sem standa að gamla frv., og hina, sem eru flm. að þessu nýja frv. En ég vil bæta því við, að mér þykir mikils virði, að flm. komast svo að orði, sem þeir gera hér í frv., þar sem þeir tala um tekjuöflun sjóðsins, að það væri æskilegt, að hann gæti sjálfur aflað sér fjár frá útgerðinni, og segja svo þar á eftir: „Hitt er hinsvegar ekki eðlilegt, að útvegurinn sé skattaður fyrir fyrirtæki og framkvæmdir, sem eðli sínu samkvæmt hljóta að vera næstu óskyld þessum atvinnurekstri.“ — Ég bið hv. þdm. að taka sérstaklega vel eftir því, að flm. þessa frv., sem eru l að tölu, eru allir Alþfl.menn og eiga allir sæti hér í þessari hv. d., eiga hér, að það sé ekki eðlilegt, að útvegurinn sé skattaður fyrir fyrirtæki, sem samkv. eðli sínu hljóti að vera næsta óskyld honum. — Ég vil biðja hv. þdm. að taka mjög vel eftir þessu, vegna þess, að nú er hér á ferðinni frv., sem krefst þess, að útflutningsgjald af sjávarafurðum verði fellt niður, en það gengur til fyrirtækja, sem eru næsta óskyld sjávarútveginum, og ég verð að krefjast fylgis við það frv. frá þeim mönnum, sem hafa sett nöfn sín undir þessi ummæli, og ef þeir fylgja okkur ekki að því máli, þá hljóta þeir að kyngja þessum orðum sínum. Það gladdi mig að sjá þessi ummæli, og að óreyndu treysti ég því, að þeir menn, sem hafa sett nöfn sín undir þau, reynist líka menn til þess að standa við þau.

En mér til hryggðar rakst ég á það í grg. frv., að þeir ætla að fella niður þessa einu millj. kr., sem ríkissjóði ber að greiða til fiskveiðasjóðsins samkv. gildandi lögum, og þeir ætla að gera þetta á þann einkennilega hátt að fella hana niður með greinargerð. En ég skil ekki, hvernig það á að vera hægt að fella niður lög með ummælum í grg. Þeir segja: „Þótt ljóst sé, að ráðstafanir frv. til aukningar starfsfé fiskveiðasjóðs séu í sjálfu sér ekki nógar, er ekki talið gerlegt að taka að nýju upp þá hugmynd, sem vakti fyrir fjárveitingarvaldinu með gildandi lögum um fiskveiðasjóð, þar sem ríkissjóði var ætlað að greiða eina millj. kr. til sjóðsins, og gera hann þannig með einu átaki að helmingi sterkari stofnun en hann nú er. Svo sem nú er háttað fjárhag ríkissjóðs, verður þessu ekki komið við.“ — Það á, skilst mér, að nema í burt þessa einnar millj. kr. greiðslu til fiskveiðasjóðs með ummælum í grg. fyrir þessum lögum.

Það er sagt í upphafi grg. frv., að „Rauðka“ hafi samið þetta frv. Hún hefir gengið alllengi með þetta fóstur, og sýnist mér það þó tæplega fullburða. Í 4. gr. frv. stendur t. d. út af tryggingum: „Til tryggingar láni fiskveiðasjóðs til skipasmiðs setur hinn síðarnefndi skuldabréf skipseiganda, að viðbættum öðrum tryggingum, er bankinn tekur gildar.“ — Mér er ekki ljóst, hvaða banki þetta er. Fiskveiðasjóður er enginn banki. Það getur verið, að átt sé við Útvegsbankann. En Útvegsbankinn ber ekki ábyrgð á fiskveiðasjóði, heldur er sá sjóður sérstök stofnun. Þess vegna er það stjórn sjóðsins sem slík, en ekki annarlegur banki, sem meta á þessar tryggingar.

Ég get ekki stillt mig um að geta þess, fyrst ég fór út í að tala um, að mér virtist „Rauðku“ hafa mistekizt með samningu þessa frv., að það er á allra vitund, nema þessarar sælu nefndar, að bréfamarkaður hér á landi er algerlega orðinn fylltur. Mér er algerlega óskiljanlegt, hvernig þessi nefnd, sem kvað vera orðin harla dýr, getur hugsað sér að semja frv., þar sem ætlazt er til, að gefin verði út handhafaverðbréf upp á 3 millj. kr., en hefir þó ekki leitað álits neinna, sem hér eiga hlut að máli og vit hafa á þessum hlutum, um það, hvort nokkrar líkur séu til þess, að hægt verði að selja þessi bréf. Mér hafa sagt það menn, sem helzt hafa vit á þessum málum, að það sé mesta fjarstæða að láta sér detta slíkt í hug. Að sönnu er nefndin að gera ráðstafanir til þess með l., að hægt sé að selja fyrir 300 þús. kr. af þessum bréfum á næstu 3 árum. Fyrst og fremst er þetta svo lítil upphæð, að þetta bjargar engu, og í öðru lagi er engin sönnun fyrir því, að það verði einu sinni hægt að fullnægja þessu fyrir þær stofnanir, sem á að gera þetta að skyldu. Frv. þetta er því að mínu áliti ófullkomið, þó að það kunni að vera hægt að taka þá hugmynd upp, sem frv. hefir hlaðizt utan um: að færa smíðar báta meira inn í landið. Sem sjálfstætt frv. er það harla ófullkomið. Það bjargar ekki í því efni, sem það á að gera, nefnilega að koma því til leiðar, að fiskveiðasjóður geti verið svo öflugur, að hann geti lánað stofnlán til alls skipastóls í landinu. Það bjargar ekki heldur því, að lánin geti orðið viðunanleg, þar sem lánsfé þetta verður dýrt. Það þarf að efla sjóðinn þannig, að hann starfi sem mest með eigin fé.

Það er einnig mjög vanhugsað og spor aftur á bak, sem kemur fram í grg. frv., að ætla að leysa ríkissjóð frá því að greiða tillag það til fiskveiðasjóðs, sem tilskilið er í l., en hann hefir refjazt um að greiða, eins og fiskframleiðslan hafi ekki verðskuldað það, að litið sé til hennar þannig, að staðið sé við lögfest loforð.

Ég vil geta þess, að í þessu frv. er stórkostleg framför í einu atriði frá því, sem var í öðru frv., sem flutt var á vetrarþinginu, þar sem eru skilyrði fyrir því, hvað lánin megi vera há, samanborið við virðingarverð skipanna. Það er alveg rétt, að það er ekkert vit í því að fara með lán, sem veitt er út á skipið eitt, upp úr 50% af virðingarverði skipsins. (Sbr. 4. gr. frv.). Það þarf líka að finna skynsamlega tímalengd lánanna.

Ég vil benda á, að þegar um það er að ræða, eins og hér er gert ráð fyrir, að sjóðurinn starfi eingöngu með lánsfé — og af því hlýtur að leiða, að vaxtakjör verði óhagstæð —, þá er alveg ótækt, að þessi 25% lán, sem eiga að bætast við, eigi að borgast á svo stuttum tíma sem ráð er fyrir gert í frv. Það verða svo þungar afborganir á 5 árum, að skipaeigendur rísa ekki undir. En þetta er atriði, sem alltaf er hægt að ræða síðar og breyta, ef henta þykir.