19.11.1935
Neðri deild: 77. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í C-deild Alþingistíðinda. (4245)

174. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Emil Jónsson):

Hv. 6. þm. Reykv. sagði í upphafi sinnar ræðu, að þessi frv., annarsvegar þetta frv., sem hér liggur fyrir, og hinsvegar frv. það, sem hann er ásamt öðrum flm. að, séu fram komin frá misjöfnu sjónarmiði. Hann hélt því fram, að hans frv. væri komið fram með hagsmuni sjómanna og útgerðarmanna fyrir augum, en sagði, að þetta okkar frv. hefði eingöngu sjónarmið iðnaðarmanna fyrir augum. Þetta er ekki að öllu leyti rétt. Ef við hefðum eingöngu haft sjónarmið iðnaðarmanna fyrir augum, þá hefðum við auðvitað farið þá leið, sem hægust var, að leggja toll á fullsmíðuð skip, sem flutt eru til landsins. Skipasmiðir fóru fram á, að 15—20% innflutningstollur yrði settur á skip, sem flutt væru til landsins. Við treystumst ekki til að gera það, vegna þess, að við tókum til greina sjónarmið útgerðarmanna. Við töldum, að útgerðin gæti ekki staðið undir þessari auknu tollabyrði. En hinsvegar viljum við fara þessa millileið, sem ég bar undir skipasmiðina. Þeir telja, að þó að þessi leið komi ekki að fullu gagni, þá komi hún þeim alltaf að nokkru gagni.

Annars var ræða hv. 6. þm. Reykv. aðallega um hann og hans frv. og rök hans fyrir réttmæti þess frv. þetta frv. gerir aðallega kröfu um það, að reynt verði að færa í það horf skipasmíðar fyrir landsmenn, a. m. k. smíði á minni skipum fiskiflota landsmanna, að hún verði sem mest innlend.

Svo brá hv. þm. sér á leik, eins og hann er vanur, þegar hann fer að minnast á Rauðku, og var ekki sem vandlátastur í þeim útskýringum, sem hann færði fram um gerðir n., sínu máli til stuðnings. Hv. þm. fór háðulegum orðum um það, að við hefðum í frv. okkar nefnt banka — eins og fiskveiðasjóður og banki væri ekki sitt hvað. Og hann spurði, hvaða banka væri átt við í 4. gr. frv. Þó ætti þessi hv. þm. að vit. það, að banki hefir samið við ríkisstj. um að hafa fiskveiðasjóð í sínum vörzlum, og að í sérstakri löggjöf um Útvegsbanka Íslands stendur, að fiskveiðasjóður sé sérstök deild í þeim banka. Það er því ekki ófyrirsynju, að banki er nefndur í þessu sambandi.

Þá sagði þessi hv. þm., að við, sem samið höfum grg. frv., vildum með þeirri grg. afnema þetta einnar millj. kr. framlag, sem í lögum er, að ríkissjóður greiði til fiskveiðasjóðs. Þetta er alrangt. Við höfum hvergi lagt það til, að þetta milljónarframlag ríkissjóðs verði afnumið. Þó að við getum þess í grg., að við teljum ekki rétt, að svo komnu máli, að fara þess á leit við ríkissjóð, að hann greiði þetta framlag nú, þá er ekki með því sagt, að við viljum slá því föstu, að hann skuli aldrei gera það. Ef þessi skylda ríkissjóðs á stoð í l., þá breytir það að engu leyti þeirri skyldu hans, þó að þetta frv. verði samþ.

Þá sagði hv. þm., að þessi 25% lán til skipasmiða væru allt of ört greidd niður á 5 árum. Ég hefi náttúrlega ekki fyrstu handar þekkingu á því máli. En mér er þó sagt af mönnum, sem mjög náin kynni hafa haft af þesskonar málum, og sennilega miklu meiri en þessi hv. þm. sjálfur, því að það eru útgerðarmenn, sem ég hefi talað við um þetta, — mér er sagt af þeim mönnum, að venjulega, þegar þeir láta smiða báta erlendis, þá séu þeim veitt lán út á þá gegn 2. veðrétti, sem nemi 1/4 verðs bátanna, og lánin eigi að borgast á 4 árum. Með frv. er þó gert ráð fyrir, að útgerðarmenn hafi einu ári lengri tíma til að endurgreið. þessi lán heldur en nú tíðkast í flestum tilfellum. Að þessi endurgreiðslufrestur er yfirleitt hafður svona stuttur, kemur til af því, að skipið, sem sé tryggingin, sem skipseigandi veitir, hrörnar óðfluga, svo að með hverju ári vex sú hætta, sem bátasmiður er í um að tapa fé sínu með því að lána það gegn 2. veðrétti. Þess vegna má slíkt lán ekki hvíla langan tíma á skipinu, til þess að skipasmiður sé öruggur með sitt fé.

Þá sagði hv. þm., að verðbréfamarkaðurinn væri hér á landi orðinn svo þröngur, að ekki væri hér unnt að selja nein bréf. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. hefir þótzt verða þess áskynja, að sá markaður sé alveg tæmdur. Ég veit ekki betur en að daglega séu seld hér verðbréf, vitanlega með misjöfnu gengi, en þau eru þó seld. Í öðru lagi er þess að geta, að í frv. eru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess, að keypt verði viss upphæð af bréfum, til þess að standa straum af auknum útgjöldum í sambandi við það, að skipasmíðar yrðu fluttar inn í landið á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Það er tekið fram í grg., að í 6 ár, 1928—1933, hafi innflutningur á mótorbátum og mótorskipum numið um hálfri millj. kr. á ári til jafnaðar. Og ef lánað verður út á 2. veðrétt í viðbót við 1. veðréttar lán, og ef þessar skipasmíðar flyttust inn í landið, þannig að þær yrðu framkvæmdar að nálega öllu leyti af innlendum höndum, þá ættu þessi 2. veðréttar lán að nema árlega kringum 100 þús. kr., svo að með þessari verðbréfasölu, sem frv. gerir ráð fyrir að tryggð verði, er nægilega séð fyrir möguleikum til þessara lánveitinga út á 2. veðrétt.

Þegar þessi hv. þm. var að tala um, að ekki væri spurt um það, hvort þessi fyrirtæki, sem upp eru talin í 2. gr. síðari mgr. frv., séu þess megnug að kaupa þessi bréf eða ekki, þá veit ég, að hann hefir talað á móti betri vitund. Það er ekki vafi á því, að stofnanir þær, sem þar eru nefndar, eru færar um að kaupa bréf fyrir 100 þús. kr. á ári, og mundu gera það. Þær kaupa verðbréf af öðru tægi nú árlega fyrir sömu upphæð.

Þá fór hv. þm. mjög skringilegum orðum um það, að við sósíalistarnir í d. legðum til, að gjaldið af útfluttum afurðum yrði ekki notað til annara hluta en að styrkja fiskveiðasjóð, eftir að framlag til ræktunarsjóðs samkv. l. hefir numið einni millj. kr., þ. e. a. s., ekki til annars en aukningar og stuðnings sjávarútveginum. Hann vildi út frá því vonast til þess, virtist mér, að við gætum þar af leiðandi ekki verið á móti afnámi útflutningsgjalds af sjávarafurðum. Nú er það vitanlegt, að þetta gjald, sem runnið hefir til ræktunarsjóðs, var sett á þegar sjávarútvegurinn gekk vel. Því var ekki nema sjálfsagt og eðlilegt, að hver atvinnuvegurinn styddi annan. Og hinsvegar, þegar atvinnuvegur hættir að geta veitt slíkan stuðning, þá er sjálfsagt, að hætt sé að láta hann gera það. En með þessu frv. er því slegið föstu, að gjaldið til ræktunarsjóðs falli niður, þegar þessari einnar millj. kr. greiðslu til hans er lokið. Það er verulegur munur á því að láta sjávarútveginn greiða tillag, sem á að vera beinn stuðningur til verklegra framkvæmda, eða tillag til einstaklinga. því að sjávarútvegurinn hættir að styðja einstaka menn, þegar gjaldið af sjávarafurðum er látið renna í ríkissjóð. Annarsvegar kemur hér til greina, að einstaklingar í sjávarútveginum leggi fram fé til þess að styrkja einstaklinga, sem stunda landbúnað, en hinsvegar hitt, að einstaklingar, sem sjávarútveg stunda, greiði ríkissjóði skatt. það er svo verulegur eðlismunur á þessu, að þó að maður viðurkenni aðra þessa stefnu, þá er ekki víst, að maður sé skyldur þess vegna til að viðurkenna hina. Þennan eðlismun hlýtur hver maður að sjá.

Að öðru leyti held ég, að það sé ákaflega fátt, sem ég þarf að taka fram viðvíkjandi því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um þetta mál. Hann talaði mest um sitt frv. og fór ekki mörgum orðum um þetta frv., sem fyrir liggur, nema að sumu leyti viðurkenningarorðum, og er ég honum þakklátur fyrir þau. En ástæðan fyrir því, að þetta okkar frv. er fram komið, er fyrst og fremst þessi: Með því að færa þennan iðnað inn í landið, þannig að landsmönnum sé gert kleift að smíða þessi skip sjálfir, þá vinnst það, að hvorki meira né minna en 350—400 þús. kr. sparast árlega í greiðslum til útlanda fyrir skip. Og þó að það sé rétt, að við höfum fyrir okkur sjónarmið iðnaðarmanna, þá er hitt einnig jafnrétt, að við höfum líka í till. okkar haft fyrir augum sjónarmið útgerðarmanna, þar sem við höfum ekki farið að óskum iðnaðarmanna um að leggja skatt á innflutning vélbáta.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða nú, hvorki frv. það, sem hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. flytja, né frv. það, sem nokkur hluti úr sjútvn. flytur. Þau eru að vísu um þessi sömu mál, eða lík, sem frv. okkar er um, en eru það óskyld, að ég tel ekki rétt að ræða þau nú. En ég vil vænta þess, að hv. sjútvn., sem fær þetta mál til meðferðar, geti á sem beztan hátt samrýmt þær óskir, sem fram koma í öllum þessum frv., þannig, að allir megi sem bezt við una.