20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í C-deild Alþingistíðinda. (4255)

175. mál, landssmiðja

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Eins og menn sjá á þskj. 518, er þetta frv. borið fram af meiri hl. iðnn. Í n. var leitað samkomulags um flutning frv., en það fékkst ekki. Ég vil nú með nokkrum orðum lýsa afstöðu minni til þessa máls. Ég var einn mættur á fundi þeim, sem málið var til meðferðar á, auk meiri hl., sem ber það fram.

Ég tel þetta mál ónauðsynlegt og álít, að það geti jafnvel verið skaðlegt. Ég tel það ónauðsynlegt vegna þess, að þó að þörf sé á því fyrir vegamálaskrifstofuna að hafa smiðju, þá tel ég óþarft að skapa löggjöf á þennan hátt, þar sem gert er ráð fyrir, að þetta verði stórfyrirtæki. Auk þess er ekkert, sem bendir til þess, að það sé nauðsyn fyrir vegamálaskrifstofuna að reka þetta verkstæði áfram. Ég veit ekki, að neitt sé framleitt þar, sem ekki er hægt að fá hjá einkafyrirtækjum í bænum. Því hefir verið slegið fram áður, að ýmsar starfsgreinir gætu slegið sér saman og myndað hring til þess að okra á ríkinu. En hér er slíku ekki haldið fram. Í grg. frv. er þvert á móti bent á það, að það muni hafa komið fyrir, að sumt af því, sem þessi smiðja hefir leyst af höndum, hafi verið dýrara en hjá einkafyrirtækjum, þannig að hún hafi ekki getað staðizt samkeppnina, og ríkisfyrirtækin því ekki getað skipt við hana, þrátt fyrir ýms fríðindi, sem landssmiðjan hefir notið. Hin hlið þessa máls var sú, að ég taldi frv. að ýmsu leyfi skaðlegt. Það er sýnt, að hér er stefnt að því að keppa við einkafyrirtæki sömu tegundar. Það er gert ráð fyrir því, að hin stækkaða landssmiðja fáist við skipasmíði. Allir vita, að hér starfar skipasmíðastöð, og er því stefnt að samkeppni við hana. Þegar rætt var um skipasmíðastöðina hér á Alþ., voru allir sammála um að efla hana. Það er því hart, ef nú á að fara að stofna fyrirtæki til samkeppni við hana.

Þá er í annan stað ætlazt til þess, að þessi stækkaða landssmiðja hafi með höndum smíði mótora og annara véla, en sérstaklega er gert ráð fyrir, að hún hafi með höndum smíði bátavéla. Mér þykir sennilegt, að þar búi undir, að menn búist við því, að landssmiðjan hafi lítið að gera, og vilja þá geta bent á þennan möguleika. En ég efast um, ef þetta er athugað með gaumgæfni, að það verði þá margir hv. dm., sem gleypa þessa flugu. Það er vitanlegt, að slík smíði byggist á því, að framleitt sé mjög mikið, eða að um „massefabrikation“ sé að ræða, því annars verða vélarnar dýrari en á heimsmarkaðinum. Það er því fráleitt að hugsa sér, að sú smiðja, sem hér um ræðir, geti í náinni framtíð leyst slíkt smíði af hendi og selt við svipuðu verði og útlendingar bjóða, nema flm. hugsi sér, að um útflutning sé að ræða. En mér hefir ekki skilizt, að svo væri. Svipað má segja um það, þegar gert er ráð fyrir, að landssmiðjan sé uppfinningamönnum innan handar með að smíða hluti, sem þeir hafa fundið upp. Ef hér er um hluti að ræða, sem að dómi þeirra manna, sem vit hafa á, eru þess verðir, að þeir séu smíðaðir og reyndir, þá er auðvitað hægt að fá einkafyrirtæki til þess að smíða þá, og það jafnvel með ívilnun. Þetta er því aukaatriði og til þess að gylla málið, en hefir enga þýðingu.

Þá er það eftirtektarvert, að um leið og stefnt er að því að lögbjóða, að allar ríkisstofnanir skipti við landssmiðjuna, er samt gert ráð fyrir, að þeim, sem í smiðjunni vinna, sé leyft að gerast meðeigendur að fyrirtækinu, og taki arð að jöfnum hluta af sinni innieign. Þetta getur verið ágætt, ef um einkafyrirtæki er að ræða, og þá gæti ég verið með því. En hér, þar sem um svona verzlun er að ræða og vissar stofnanir verða að verzla við fyrirtækið, og það getur því ákveðið verðið, þá er allt öðru máli að gegna. Það hefir verið gert mikið úr því, að verðið hjá landssmiðjunni hafi verið sambærilegt við verð hjá öðrum fyrirtækjum. En það hefir verið vikið að því, að það hafi þó farið fram úr almennu verði. En þá er bent á, að það þurfi ekki að vera til tjóns, svo framarlega sem landssmiðjan gefi arð, er samsvari mismuninum, en hann skiptist til starfsmanna ríkisins. En þetta getur orðið rík hvöt til þess að halda verðinu sem hæstu, svo arðurinn verði sem mestur, og þar eð þeir, sem við fyrirtækið starfa, eiga að hafa beina hlutdeild í stjórn þess, þá skapar það þeim möguleika til þess að hafa áhrif á verðið og þar með að ganga nærri ríkissjóði. Ég býst við, að hér sé um tilraun að ræða, sem borin er fram og studd af sósíalistum. Þeir hafa á stefnuskrá sinni að þurrka út sem mest einkarekstur. Og hér var prýðilegt tækifæri, að taka þennan vísi að opinberu fyrirtæki og gera hann að stóru ríkisfyrirtæki í samkeppni við einkafyrirtæki.

Það hefir verið bent á, að við flytjum nú inn vélar fyrir 300 þús. kr. á ári eða meira. Ég vil benda á veiðarfærin. Það mun nú vera hátt á aðra millj., sem fer fyrir þau á ári. Það yrði kannske líka horfið að því að setja upp ríkisfyrirtæki í þeirri grein, og þá fyrst með það ágæta sjónarmið fyrir augum, að fyrirbyggja það, að veiðarfæri væru flutt inn í landið, en yrði um leið til þess að hlaupa í kapp við einkafyrirtæki, sem má gera ráð fyrir, að valdi sínu hlutverki, ef það fær að vera í friði. Eins og hv. 5. þm. Reykv. benti á, þá er hér um ekkert smámál að ræða, þó að það líti sakleysislega út. Hér er farið af stað til þess að stefna í þá átt að koma á fót almennum ríkisrekstri á kostnað einkafyrirtækja. Ég er á móti þeirri stefnu, og því á móti þessu frv.