20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í C-deild Alþingistíðinda. (4256)

175. mál, landssmiðja

Frsm. (Emil Jónsson):

Ég get verið fáorður um ræðu hv. 5. þm. Reykv. Honum virtist vera það þyrnir í augum, að þessi smiðja gæti vaxið úr því, sem hann kallaði að vinna að smásmíði, eða m. ö. o. frá því að vera smáfyrirtæki og upp í það að verða voldugt sósíalistískt fyrirtæki. En ég verð að segja það, að við höfum nú aldrei stefnt svo hátt með þessu frv. Hinu höfum við viljað stefna að, að fyrirtækið gæti orðið þjóðinni til meiri nytja heldur en það er nú, og geti tekið að sér að framleiða það, sem enginn annar hefir átt við að framleiða. Það er aðalatriðið, sem fyrir okkur vakir. Svo eru ýms smáatriði, sem er kannske rétt að drepa á. Hv. þm. sagði, að það væri opin leið fyrir þá, sem við fyrirtækið vinna, að verða eigendur og ráða yfir því. En það er ekki rétt. Það, sem fyrir okkur vakti, var, að það er gert ráð fyrir, að þeir, sem við landssmiðjuna vinna, leggi fé í fyrirtækið, og þeim sé greiddur arður af því að vissu hámarki, sem ákveða á í reglugerð, og að þeir hafi 1 mann af 4 í stjórn fyrirtækisins. Og hvernig á þessi eini maður að hafa mikil áhrif á stjórn fyrirtækisins? Að tala um, að smiðjan verði eign starfsmanna, getur ekki komið til mála.

Það kom fram hjá honum og hv. þm. Ak., að verkefni smiðjunnar yrðu að einhverju leyti í blóra við einkafyrirtækin. Eins og ég sagði áðan, þá á að reyna að gera smiðjunni kleift að vinna að nýjum iðngreinum og fara inn á þau svið, sem aðrir hafa ekki farið inn á áður, og reyna þannig að fara inn á nýjar brautir til gjaldeyrissparnaðar og aukinnar atvinnu. Ég lagði í framsöguræðu minni einmitt ríka áherzlu á þetta, að landssmiðjan væri látin fara inn á þau svið, sem aðrir hafa ekki farið inn á áður og einkafyrirtæki ekki þorað að fara inn á.

Þá sagði hv. 5. þm. Reykv., að það væri fyrirsjáanlegt, að smiðjan myndi verða baggi á ríkissjóði. En það hefir nú verið þannig, að hún hefir flest árin gefið arð. Að vísu hefir ríkissjóður orðið að leggja henni til nokkurt fé, vegna þess að hún þurfti að hafa húsaskjól og verkfæri, en hún hafði ekkert fé til þess að kaupa fyrir nema það, sem lagt var fram úr ríkissjóði. — Það var svo ekki fleira í ræðu hv. 5. þm. Reykv., sem ég þarf að svara.

Það er öðru máli að gegna með hv. þm. Ak. Mér fannst hann fara harðari orðum um frv. en ég hafði búizt við. Hann sagði, að það væri ónauðsynlegt og jafnvel skaðlegt. En ég vil nú spyrja hv. þm. að því, hvaða hlutur það sé, sem ekki getur orðið skaðlegur. Og að hvaða leyti er þetta ónauðsynlegt? Ekki mun það vera ónauðsynlegt að hafa þessa smásmiði, sem hv. 5. þm. Reykv. var að tala um. Flokksbræður hv. þm. hafa séð nauðsyn á því, að ríkið hefði þessa smásmíði. Og ég get ekki álitið það ónauðsynlegan hlut að stofna ný iðnfyrirtæki, sem láta mönnum í té atvinnu. Að vísu hefir einn maður í ráðherrastóli séð ástæðu til þess að selja undan landssmiðjunni hluta til prívatmanna, og skal ég ekki fara frekar út í það. Ef til vill gefst tækifæri til þess í þeirri d., sem sá hæstv. fyrrv. ráðh. á sæti í. En það er óhætt að segja, að þeir, sem fengu þennan hluta — en hann var seldur sæmilega ódýrt —, hafa ekki skaðazt á þeim rekstri, sem þeir hafa haft. Þetta sýnir, hvað það er hættulegt að hafa aðbúð smiðjunnar eins losaralega og hún er nú og hefir verið, þar sem einn ráðh. gat af duttlungasemi selt undan henni hluta. Og það nær engri átt að hafa rekstur landssmiðjunnar svona ótryggan.

Hv. þm. Ak. sagði, að þrátt fyrir ýms fríðindi, sem smiðjan hefði notið, hefði smíði hennar ekki verið samkeppnisfær. En hver eru þau fríðindi, sem smiðjan hefir notið? Eru það þau fríðindi, að smiðjan hefir farið af stað kapitallaus, og starfsmenn hennar hafa þá verstu aðbúð, sem hægt er að hugsa sér, því þeir hafa engin sæmileg húsakynni, en verða að hrekjast jafnvel út í forarpolla með verk sín? Ég held, að þetta geti ekki talizt fríðindi. Slíkt er alls ekki sæmileg aðbúð, og það er því ekki hægt að segja, að þeir hafi fríðindi hvað aðbúð snertir.

Þá sagði hv. þm. Ak., að með þessu frv. væri verið að veitast að einni skipasmíðastöð, sem hefði verið stofnuð fyrir atbeina Alþ., að því er mér skildist. En ég skil ekki, við hvað hv. þm. á, og býst við, að þetta sé byggt á misskilningi. Sú eina skipasmiðastöð, sem hefir verið stofnuð fyrir atbeina Alþ., er Slippurinn, og ég veit ekki betur en að öll járnsmíðaverkstæði hafi aðgang að Slippnum. Að segja, að hér sé verið að ráðast að atvinnurekstri Slippsins nær auðvitað engri átt. Þetta er byggt á misskilningi hjá hv. þm. og kemur af því, að hann þekkir ekkert til rekstrar landssmiðjunnar eða Slippsins.

Þá fór hv. þm. allmörgum orðum um mótorsmíðarnar, og þeim allkyndugum, að mér fannst. Hann sagðist efast um, að hv. þdm. gleyptu þá flugu, að landssmiðjan geti smíðað mótora, því slík smíði byggðist á „massefabrikation“, en það mætti kannske orða það, ef hún ætti að smiða þá til útflutnings. Ég hefi nú ekki mikla trú á því, að hún smíði mótora til útflutnings, en ég hefi meiri trú á því, að hún geti smíðað mótora til nota á heimamarkaðinum. (PHalld: Þarf þá ekki að banna innflutning á mótorum?). Ef þeir reynast eins góðir og þeir útlendu, þá efast ég ekki um, að þeir verða keyptir. Ég hefi séð teikningar að þessum nýju mótorum, sem landssmiðjan hefir látið gera, og þó að ég sé ekki vel dómbær á þá hluti, þá get ég sagt það, að mér hefir litizt vel á þá. Ég hefi fulla ástæðu til þess að halda, að landssmiðjan geti smíðað mótora og selt þá, engu síður en gert er í ýmsum smábæjum, sem selja miklu minna en það, sem Íslendingar þurfa að nota. Það er auðvitað satt, að þeir verða ódýrari, ef þeir eru búnir til í „massefabrikation“. En hér er um að ræða vélar, sem við flytjum inn á ári fyrir 1/2—1 millj. kr., og má búa til marga mótora fyrir þá upphæð. Fyrst er að uppfylla það skarð, sem við þurfum af mótorum. Aftur á móti ef um útflutning á mótorum ætti að vera að ræða, kemur margt fleira til greina, bæði aukinn kostnaður og ýmsar verzlunarhömlur m. m., og ef ekki er hægt að framleiða þá fyrir innlendan markað, þá er þó ennþá vitlausara að hugsa sér þá smíðaða fyrir erlendan markað. (PHalld: Það sýnir þó, hvort þeir séu samkeppnishæfir). Nei, það sýnir alls ekki samkeppnishæfni þeirra, því þó hér sé hægt að framleiða fyrir innlendan markað mótora eða aðra vöru jafnódýra eða ódýrari en útlenda vöru sömu tegundar, hingað komna til landsins, þá sýnir það alls ekki, hvort innlenda varan stenzt samkeppni erlendis, þegar flutningskostnaður o. fl. hefir bætzt við framleiðslukostnaðinn. Þetta er alls ekki sambærilegt, auk þess sem ætla má, að íslenzkur mótor verði meir sniðinn við kröfur íslenzkra staðhátta en erlendur. Þá hefir verið reynt að gera lítið úr því ákvæði, að íslenzkir hugvitsmenn fengju aðgang að landssmiðjunni um smiði uppfinninga sinna. En á þessu er einmitt hin mesta nauðsyn, að íslenzkir hugvitsmenn hafi aðgang að slíkri hjálp, þar sem smíða má gripi á ódýran hátt, ekki sízt ef um fátæka menn er að ræða, sem ekki hafa sjálfir ráð á að standa straum af tilraunum sínum. Er því landssmiðjunni ætlað það hlutverk að styrkja þessar tilraunir eða uppfinningar, sem margir Íslendingar eru að bauka með, en vantar aðstoð til að framkvæma á ódýran hátt. — Ég man nú ekki, hvort fleiri atriði voru í ræðu hv. þm. Ak., sem ég þarf að gera aths. við, en hann endaði ræðu sína með þeim ummælum, að hann gæti eins búizt við, að gerð yrði till. um, að ríkið tæki að sér tilbúning veiðarfæra. Þetta er ekki annað en útúrsnúningur hjá hv. þm. Hann veit það ósköp vel, að nú eru til verksmiðjur í þessari grein, eða iðjufyrirtæki. Hann veit, að hér snúa menn hamp í línu, hér eru búin til þorskanet og hér er hnýtt allmikið af þeim botnvörpum, sem landsmenn nota. Það er alveg sitthvað að tala um ríkisfyrirtæki, er vinni það, sem þegar er unnið í landinu, eða ríkisfyrirtæki, er starfi að framleiðslu, sem ekki er áður til og keppir því alls ekki við innlenda framleiðslu. Þetta veit ég, að hv. þm. Ak. skilur, þó að hann hafi slegið hinu fram í fálmi eða leit eftir að reyna að finna frv. eitthvað til foráttu. En ef hv. þm. er sérstaklega hugleikið að koma á fót veiðarfæragerð ríkisins, þá skal ég gjarnan styðja hann í því. En ég sé ekki ástæðu til, meðan þessi fyrirtæki eru ekki í stærri stíl en er, að taka þau af þeim, er nú reka þau. Það er nú einu sinni svo skrítið, að við sósíalistar höfum þá skoðun, að smáframleiðendur — smáatvinnurekendurnir — eigi að ráða sér sjálfir sem allra mest. En ef um stórfyrirtæki er að ræða, þá gegnir nokkuð öðru máli, — og þó alveg sérstaklega álítum við, að ríkinu beri að ráðast í fyrirtæki, sem enginn einstaklingur hefir byrjað á, og virðist ekki að hafizt verði handa um að öðrum kosti, eins og t. d. er um framleiðslu þá, er hér getur.