09.12.1935
Efri deild: 90. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

170. mál, landsreikningurinn 1933

Magnús Jónsson:

Eins og menn munu sjá, eru aths. yfirskoðunarmanna landsreikninganna heldur fáar og ekki stórvægilegar. Nokkrar af þeim eru aðeins bókfærsluatriði. Það eru sérstaklega þrjár aths., sem dálítil ástæða er til að veita athygli. — Fyrst er 13. aths., en í henni er það lítið eitt einkennilegt, að mismunur sá, sem kom fram í LR. á því, sem talið er til alþingiskostnaðar, og hinsvegar því, sem hægt er að finna í bókun hjá skrifstofustjóra Alþ. og öðrum gögnum, 148.30 kr., sem greitt er meira úr ríkissjóði en yfirskoðunarmenn geta fengið heimild fyrir, enda þótt þeir hafi leitað talsvert að því í skrifstofu Alþ. ég veit ekki, hvað yfirskoðunarmönnum er skylt að fara langt út í slíkar eftirgrennslanir. Það liggur auðvitað næst að spyrja bara bókarann, en við gerðum þó talsverðar eftirgrennslanir, en heppnaðist ekki að finna þetta. Ráðh. gaf það merkilega svar; að úr því að ekki hafi tekizt að finna, í hverju þessi mismunur liggi, megi væntanlega við svo búið standa. Þetta mál horfir því þannig við, að ef hv. þm. vilja koma að frekari eftirgrennslun um þetta, þótti rétt að athuga það. Aðeins vil ég geta þess, að bókfærslan yfirleitt hjá skrifstofustjóra Alþ. er sönn fyrirmynd, og hann gerði sér talsvert far um að finna þessa villu, en það hefir samt ekki tekizt.

Þá vil ég vekja athygli á 22. aths. Þar er um talsvert einkennilegt mál að ræða, sem sé yfirfærslu Útvegsbankans fyrir tóbakseinkasöluna, þar sem bankinn reiknaði sér hærri provision heldur en venja er að reikna sér. Nemur þetta á nokkrum yfirfærslum um 5000 kr. Ég ætla ekki að draga þetta fram til þess að koma á stað rimmu út af því, en það er dálítið athugavert við þetta, sérstaklega þar sem bankarnir hafa einkarétt til þess að verðleggja erlendan gjaldeyri, en það er vitaskuld gert í því skyni að hagnast á þessum viðskiptum. Svar ráðh. við þessu var að því leyti alveg ófullnægjandi, að það svaraði aðeins því, að það væri nauðsyn fyrir tóbakseinkasöluna að fá þessa yfirfærslu. Yfirskoðunarmenn svöruðu aðeins því, eins og eðlilegt var, að aths. ætti ekki við tóbakseinkasöluna, heldur hitt, sem að bankanum sneri. Það hefði ekki verið gleðilegt, þó að fram hefði komið þáltill. í þessu sambandi, þar sem stj. væri falið að hafa gát á þessu og e. t. v. láta fara fram athugun á því, hvort mikil brögð væru að þessu.

Þriðja aths., sem ég vil minnast á, er um útistandandi skuldir ríkisverzlananna. Áfengisverzlunin átti útistandandi 31. des. 1933 kr. 8 71/2 þús. og tóbakseinkasalan 94 þús. og nokkuð þar yfir. Þegar maður athugar, hve mikil umsetning þessara verzlana er, þá er þetta ekki mikið. En af því að rík áherzla hefir verið lögð á það, að þessar verzlanir rækju ekki skuldaverzlun — og útistandandi skuldir væru hvorki 87 né 94 þús. kr. — þá er þetta allt of mikið, enda þótt það sé annars hverfandi í svona stórum fyrirtækjum.

Þá er eftir að athuga 20. lið, um útistandandi skuldir ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg, sem eru 138 þús. kr., en það er nokkuð mikið. Það, sem sérstaklega vakti athygli yfirskoðunarmanna, var það, að 31. des. næsta ár á undan voru útistandandi skuldir prentsmiðjunnar ekki nema 105 þús. kr., og hafa þær því hækkað um 33 þús. kr. Ég vil í þessu sambandi til þess að koma í veg fyrir alla ósanngirni, benda á það, að það stendur dálítið sérstaklega á fyrir ríkisprentsmiðjunni, þannig að rétt fyrir áramótin á prentsmiðjan óvenjulega mikið af ógreiddum reikningum, og nú er það yfirleitt svo, að útistandandi skuldir prentsmiðju þykja með lakari skuldum, og ég hygg, að reynslan hafi verið sú, að prentsmiðjum gangi yfirleitt illa að ná inn skuldum. Ef menn fara að safna skuldum hjá prentsmiðjum, þá sé skuldin fljót að komast í það ástand, að menn eigi fullt í fangi með hana, af því að þeir, sem skipta að ráði við prentsmiðjur, bæði blaðaútgefendur og aðrir, eru ekki betur efnum búnir en það, að ef þeir borga ekki jafnóðum, þá borga þeir aldrei.

Þá er það viðtækjaverzlunin. Um hana eru gerðar aths. þannig, að útistandandi skuldir þar séu 1/2 milljón. En þar stendur líka sérstaklega á, þar sem hún verzlar gegn afborgunum, og það er eðlilegt, að skuldir safnist á hlaupandi viðskiptum. Það stendur töluvert öðruvísi á um þessar skuldir en aðrar, þar sem þær eru samningsbundnar, og úr því að menn vilja láta ríkið halda uppi þessum verzlunum, sem ég varaði við á sínum tíma, þá verður náttúrulega að taka á sig svo og svo mikla áhættu út af þessu. Þetta stafar að allmiklu leyti af viðskiptum, sem ekkert er óheilbrigt við. Þó vilja yfirskoðunarmennirnir vekja athygli á einum viðskiptamanni, sem skuldar 200 þús. kr. En samanborið við hina miklu viðskiptaveltu verzlunarinnar er hér aðeins um smámuni að ræða, enda lofað bót og betrun.