09.12.1935
Efri deild: 90. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

170. mál, landsreikningurinn 1933

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Ég vildi aðeins út af þessum aths. hv. 1. þm. Reykv. viðvíkjandi provisioninni í 22. aths. endurskoðendanna benda á það, sem hann sem bankaráðsmaður í Landsbankanum veit einnig, að þó að reyndar sé hægt að tala um venju í sambandi við provisionina, þá er það dálítið rúmt og hún ekki föst. Ég held, að þar sé sett af bankaráði hámark, og það er nokkuð hátt, og eftir því eigi báðir bankarnir að fara, þótt það fari eftir atvikum, hvað þeim verður dýrt, sem þeir þurfa að kaupa, og þó að gengi ísl. krónunnar sé fast, þá þurfa þeir að kaupa erlendan gjaldeyri, og sterlingspundið er, þótt það sé ekki hér nema 22,15 kr., þá er það í dönskum krónum 22,40 kr. Þarna kemur munurinn. Við þetta getur komið fram kostnaður, sem leiðir til þess, að provisionin verði umfram venju, sérstaklega á dönsku krónunni. Þó að bankarnir geti stundum selt fyrir það verð, sem hún raunverulega stendur í, þá verður hún þeim samt oft og tíðum dýrari vegna ýmiskonar snúninga við útvegun gjaldeyrisins. Það hefir komið fyrir, að yfirfærslum hefir verið lofað á vissum dögum, en til þess að geta staðið við það hafa bankarnir kannske orðið að gera sérstakar ráðstafanir og e. t. v. liggja með meira en annars var þörf á. En tapi af þessum ástæðum er ekki hægt að ná inn nema með hærri provision, enda er miklu lægri provision tekin hér heldur en annarsstaðar af sölu erlends gjaldeyris. Það er ótrúlega há provision tekin fyrir sölu erlends gjaldeyris annarsstaðar, enda gróði þeirra, sem það gera, ákaflega mikill.