09.12.1935
Efri deild: 90. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

170. mál, landsreikningurinn 1933

Magnús Jónsson:

Yfirskoðunarmennirnir hafa auðvitað grennslazt eftir þessu, þegar þeir gerðu þessar aths., en þeir fengu þá svipað svar og hv. 4. landsk. gaf hér áðan. Það er vitaskuld, að það getur verið dálítill munur á því, en á hinn boginn, þá er svarið viðvíkjandi dönsku krónunni ekki nærri því fullnægjandi.

Þá fannst yfirskoðunarmönnum líka óeðlilegt, að ríkisstofnanir sættu erfiðari kjörum um yfirfærslu. Gera má ráð fyrir, að einkafyrirtæki sæki fastar á heldur en ríkisfyrirtæki, sem hafa góðar ástæður og ekki eru í mikilli fjárhagsþröng, og hætt við, að banki leyfði sér gagnvart ríkisstofnunum að fara á fremsta hlunn með það óbeinlínis að fella íslenzku krónuna, því í raun og veru er þetta ekki annað en lækkun á íslenzku krónunni, þó það sé kallað provision. Það er enginn raunverulegur munur á því, að reikna hærri provision, eða því, að reikna lægra verð á íslenzkum gjaldeyri.

Hitt ber líka að líta á, að hér er í raun og veru algerður einkaréttur hjá þeim stofnunum, sem verzla með erlendan gjaldeyri, og menn eru hér gersamlega ofurseldir þessum tveimur peningastofnunum, og ég efast um, að í nokkru öðru landi sé eins ástatt. (JBald: Nationalbankinn í Danmörku). Nei, það er ekki eins strangt í Danmörku. En ég vakti athygli á þessu vegna þess, að svar ráðh. er ófullnægjandi, og mér þótti rétt að benda hv. þd. á, að hér er merkileg aths., sem ekki hefir verið svarað.