20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í C-deild Alþingistíðinda. (4286)

183. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er til orðið að nokkru leyti í sambandi við annað mál, sem einnig er hér á dagskrá í dag. Það er 9. málið á dagskránni, frv. til hafnarlaga fyrir Siglufjarðarkaupstað. Þetta frv. til hafnarlaga fyrir Siglufjarðarkaupstað hefir verið til meðferðar í sjútvn., vegna þess að það er fyrst og fremst flutt sem hafnarmál. En í þessu hafnarl.frv. er, eins og hv. þdm. er kunnugt, eitt ákvæði, sem nokkur ágreiningur hefir orðið um, og er það ekki beinlínis tilheyrandi hafnarlögunum sjálfum. En ákvæðið er um það, að heimila Siglufjarðarbæ að leggja á vörugjald til þarfa bæjarsjóðs. Í sjútvn. varð, þegar þetta mál var tekið til meðferðar, ágreiningur um þetta atriði. 2 af nm., þeir hv. þm. Ísaf. og hv. 3. landsk., lögðu til, að þetta ákvæði væri fellt úr frv. En hv. þm. Vestm. og hv. 6. þm. Reykv. héldu því fram, að þetta ákvæði ætti að haldast með lítilsháttar breyt. Ég hefi hvorugum þessara nm. getað fylgt að málum. Ég bar ekki fram brtt. við þetta frv., en mína afstöðu vil ég marka með þessu frv., sem ég hefi nú flutt. Ég er þeirrar skoðunar, og mér er kunnugt um, að ýmsir hv. dm., og þar á meðal eru menn úr sjútvn., eru þeirrar skoðunar, að það sé ekki óréttmætt, að þeim bæjarfélögum eða sveitarfélögum, þar sem síldarverksmiðjur ríkisins starfa, sé gefin heimild til þess að leggja eitthvert útsvar á fyrirtækin. En í l. er ákvæði um það, að þau séu undanþegin útsvarsskyldu. Hér er óneitanlega um allmikinn atvinnurekstur að ræða, og getur orðið meiri, en hann er undanþeginn gjöldum til bæjar- og sveitarfélaga. Ég get ekki séð, að það sé óréttlátt að heimila þeim að leggja nokkurt gjald á þessi fyrirtæki. Það er út af fyrir sig hægt að leysa þetta mál án þess að tekin sé afstaða til hinna ýmsu radda, sem fram hafa komið um nýja gjaldstofna fyrir bæjar- og sveitarfélög. En ef horfið er að því að samþ. þetta frv., þá má líta svo á, að komið sé nokkuð til móts við þá, sem vilja skapa Siglufjarðarkaupstað aukna gjaldstofna, vegna þess, að á Siglufirði er mikið af þeim atvinnurekstri, sem hér um ræðir.

Ég vil benda á, að til er sérstakt ákvæði í lögum um gjaldskyldu annara fyrirtækja ríkisins til sveitarsjóða eða bæjarsjóða, þar sem þeim er gert að skyldu að greiða 5% af nettóágóða til þeirra. En þegar um síldarverksmiðjur ríkisins er að ræða, þá er ekki hægt að setja slíkt ákvæði, því þær eru ekki reknar á þann hátt, að gert sé ráð fyrir nettóhagnaði. Hér er því lagt til, að bæjar- og sveitarfélögum, þar sem verksmiðjur starfa, sé heimilt að leggja á þær gjald, sem sé miðað við andvirði seldra afurða, og hefi ég tiltekið í frv., að upphæðin skuli vera einn og hálfur af hundraði af söluverði. Ég get hugsað mér, að það geti verið samkomulagsatriði, hvort það verður sú upphæð eða önnur, eitthvað lægri, en ég hygg, að þessi upphæð, sem ég nefndi, sé þó það lág, að hærra myndi verða útsvar verksmiðjanna, ef á þær væri lagt eftir venjulegum reglum. En ég mun við meðferð málsins verða reiðubúinn til að ræða samkomulag um upphæð þessa gjalds. — Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Þar sem hér er um fjármál að ræða, þá legg ég til, að frv. verði vísað til hv. fjhn. og 2. umr.