20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í C-deild Alþingistíðinda. (4288)

183. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Ég skal verða stuttorður, ef það gæti orðið til þess, að umr. yrði lokið á þessum fundi. Út af því, sem hv. 3. landsk. sagði um það, að þetta frv., sem ég flyt hér, væri yfirlýsing af minni hálfu um það, að frv. um hafnarl. á Sigluf. hefði verið sérstaklega stefnt að síldarverksmiðjum ríkisins, skal ég taka það fram, að ég sé ekki, að ég hafi gefið nokkra yfirlýsingu um það, hvert ákvæði þess frv. stefna, enda var ég ekki flm. þess frv. Hinsvegar er það vitanlegt, að ákvæði þessa frv., sem hér liggur fyrir, koma til með að auka gjöld á síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, þannig, að ef þetta frv. kæmist í framkvæmd, kæmi það til móts við hitt frv. um að afla þeim bæ tekna. Hv. 3. landsk. lagði áherzlu á það, að þeir staðir, sem síldarverksmiðjur ríkisins væru á, hefðu sótzt mjög eftir því að fá þá atvinnuaukningu, sem verksmiðjurnar létu í té, og að hörð samkeppni hefði verið milli ýmsra staða um að fá verksmiðjurnar til sín. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm., en ég sé ekki, að þetta út af fyrir sig sé nein rök fyrir því, að ekki megi leggja gjöld á þessi fyrirtæki. Sérhver staður óskar að sjálfsögðu eftir því að fá sem flest atvinnufyrirtæki til sín og að atvinna sé sem mest hjá sér á hverjum tíma, án þess þó að hann vilji afsala sér rétti til þess að leggja á þessi fyrirtæki réttmæt gjöld til bæjar- og sveitarsjóðs.

Þá vildi hv. þm. gera mikið úr því, að hér væri um skatt á útgerðarmenn að ræða. Það má vitanlega um það deila, hvort þetta 11/2% gjald sé ósanngjarnt, en eins og ég tók fram í framsöguræðu minni, þá er ég tilbúinn til samkomulags í þessu efni. (Forseti: Ég vil benda hv. ræðumanni á það, að ef hann vill fresta ræðu sinni, þá er rétt að gera það nú, því að fleiri hv. þm. hafa beðið um orðið, og verð ég því að fresta umr.). — Ég fellst á tilmæli hæstv. forseta og fresta ræðu minni. [Frh.]