21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í C-deild Alþingistíðinda. (4296)

183. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki verða margorður, þótt belgingur hv. þm. Ísaf. gæti gefið tilefni til þess. Hann sagði, að ég hefði haft þau orð, að síldarverksmiðjur ríkisins hefðu áður verið reknar sem einstaklingsfyrirtæki. Mín orð voru þau, að síldarverksmiðjur hefðu áður verið í höndum einstaklinga og reknar af einstaklingum. Hv. þm. verður að muna það, að til hafa verið fleiri síldarverksmiðjur heldur en ríkið rekur og fleiri heldur en dr. Pauls. Ég veit ekki betur en Goos hafi líka haft síldarverksmiðju á Siglufirði. En þótt ég hefði haft þau orð, að ríkisverksmiðjur hefðu áður verið reknar af einstaklingum, þá hefði það engin vitleysa verið. Ég veit ekki betur en verksmiðjan á Sólbakka hafi verið rekin af einstaklingum. Það er aðeins nýlega, sem ríkið keypti þá verksmiðju af einstaklingi, svo að þótt ég hefði haft þessi ummæli, þá hefðu þau haft fulla stoð í veruleikanum. Ég hafði ekki þessi ummæli, en þó að ég hefði haft þau, þá hefði hv. þm. Ísaf. þrátt fyrir það ekki þurft að viðhafa sín ummæli.

Ég skil það vel, hvers vegna hv. þm. Ísaf. lítur illum augum til þessa frv. Það er vegna þess, að hann álítur, að það fyrirtæki, sem hann veitir forstöðu, yrði að taka nokkurn þátt í greiðslum til bæjarfélagsins þar. Þetta fyrirtæki, sem hann stjórnar, er samvinnufélag, og ég veit ekki betur en að það sé fyrsta eða annað fyrirtækið, sem leitað hefir til skuldaskilasjóðs útgerðarmanna, þrátt fyrir útsvarsfrelsið. Og þó vel megi segja, að ekki hafi komið fram raddir á þingi um það, að síldarverksmiðjur ríkisins yrðu útsvarsskyldar, þá fæ ég ekki séð sanngirni í því, að þessi atvinnurekstur, sem veitur á milljónum kr. á ári, sé undanþeginn því að greiða skatta í bæjarsjóðinn, því að ef síldarverksmiðjur ríkisins væru ekki á þessum stað, þá er eitt víst, og það er það, að annar slíkur atvinnurekstur væri þar í þeirra stað. Það eru einnig lóðir við höfnina á Siglufirði, sem hefðu verið notaðar af öðrum, þó að síldarbræðsluverksmiðjurnar hefðu ekki notað þær. Ég get þess vegna ekki séð sanngirni í því, að ríkisverksmiðjurnar greiði ekki þau gjöld, sem aðrir yrðu að gera í sömu kringumstæðum.

Hv. 3. landsk. var að tala um það — og skil ég ekki í, að slíkt komi þessu máli við —, að rafmagn á Siglufirði sé dýrara yfir sumarið heldur en að vetrinum. Ég veit ekki, hvort þetta er rétt, en ef svo er, þá er það skiljanlegt. Það gildir það sama þar sem annarsstaðar, að rafmagnið er dýrast, þegar eftirspurnin eftir því er mest. Það er auðvitað meira notað, þegar atvinnurekstur er mikill að sumrinu, heldur en þegar hann er ekki. Ég sé ekki, að aðkomumenn gjaldi þessa sérstaklega, fram yfir það, sem eðlilegt er, að rafmagnið hækki í verði af þessum ástæðum. Ég get ekki ímyndað mér, þó að hv. 3. landsk. þm. hafi verið á Siglufirði í sumar, að þetta hafi orðið svo mikið til baga fyrir hann. (PÞ: Nei, nei). Fyrir hvern þá? Hvern skaðar þetta þá, þegar bjart er allan sólarhringinn? Þeir ganga þá kannske fyrir rafmagni þessir menn, sem hv. þm. á við.

Þá var þessi hv. þm. að tala um einhver bryggjutildur á Siglufirði. Bærinn á ekki nema eina bryggju á Siglufirði, og hún hefir enga bryggju skemmt fyrir ríkisverksmiðjunum. Þó að hún brotnaði, gæti hún, vegna þess hvar hún er sett, ekki grandað bryggjum síldarverksmiðjanna. Og jafnvel þó að svo væri, þá get ég ekki skilið, hvað slíkt hefir að segja sem röksemd um frv. það, sem hér liggur fyrir. Og þó að einhverntíma skemmdist bryggja fyrir síldarverksmiðjunum, þá er hægur vandi fyrir þær að verja sig áföllum af því með því að hafa bryggjurnar vátryggðar. Og vitanlega réttlætir þetta bryggjuskraf það ekkert, að þessi atvinnurekstur, sem svipt hefir Siglufjörð stórlega tekjum, eigi ekki að borga útsvar eins og einstaklingar, sem reka svipaðan eða hliðstæðan atvinnurekstur.