21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í C-deild Alþingistíðinda. (4299)

183. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Síðan ég talaði síðast hafa orðið nokkrar deilur á milli hv. 8. landsk. annarsvegar og hv. þm. Ísaf. og hv. 3 landsk. hinsvegar. En þær deilur hafa snúizt um ýms atriði, sem ég get ekki séð, að séu viðkomandi því frv., sem fyrir liggur til umr. Mun ég því ekki blanda mér í þær deilur. Ég vil aðeins, út af því, sem hv. þm. Ísaf. var í sinni síðustu ræðu að tala um, að síldarverksmiðjurnar væru einskonar lögboðin samvinnufyrirtæki, minna hann á, að hann sagði einnig: „Mér er kunnugt um, að verksmiðjurnar hafa ekki verið reknar sem samvinnufyrirtæki.“ Ég skrifaði þetta orðrétt upp eftir hv. þm. Þetta er rétt. Þær hafa í verulegum atriðum ekki verið reknar sem samvinnufyrirtæki. Þess vegna er þetta tal hv. þm. um síldarverksmiðjurnar og samvinnufélögin býsna lítið þessu máli viðkomandi.

Hv. 3. landsk. fór nokkrum orðum um verksmiðjuna á Raufarhöfn, og vegna þeirra orða vil ég gera lítilsháttar aths. Sá hv. þm. sagði, sem og rétt er, að af hálfu íbúa Raufarhafnar hefði verið áherzla á það lögð, að ríkið keypti verksmiðjuna þar, eða a. m. k. sæi um, að hún yrði rekin áfram. En það er alveg óþarfi af l . þingmönnum að telja það eftir, að ríkið keypti þessa verksmiðju á Raufarhöfn, því að eftir því, sem ég veit bezt, þá hefir hún síðastl. sumar borið sig bezt af öllum verksmiðjum ríkisins. Það mætti e. t. v. orða þetta þannig, að hún sé eina síldarverksmiðjan, sem hefir borið sig á þessu sumri. Mér er ekki kunnugt um, hvort stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefir gert sérstakar ráðstafanir vegna þessarar verksmiðju. En hitt veit ég, að yfirleitt hefir engin þurrð verið á síld á þessum slóðum. Ég hygg því, ð það sé hin mesta blekking, ef því er haldið fram, að yfirleitt þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja þessari verksmiðju síld. a. m. k. hefir það verið svo undanfarin sumur, að mikil síld hefir verið í Axarfirði og Þistilf., þannig að stundum hefir allur síldveiðiflotinn sótt sinn afla þangað austur. Ég hygg, að það sé líka að sumu leyti á misskilningi byggt hjá hv. 3. landsk. — og ætti hann þó að vita nokkur deili á þessu —, að af ríkisins hálfu hafi verið gerðar umbætur á verksmiðjunni þar síðastl. sumar. Sú verksmiðja starfar nú með sama útbúnaði að húsum og vélum og áður, á meðan hún var í einkaeign. Hinsvegar má líklega skoða þessi ummæli hv. 3. landsk. sem tryggingu fyrir því, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hafi í huga að gera þarna umbætur á. (PÞ: vill þá hv. þm. svara því, hvers vegna verksmiðjan vinnur nú úr 1100 málum á sólarhring á móti 600 málum áður á sama tíma?). Það lægi nær, að hv. stjórnandi síldarverksmiðjanna hefði gert sér grein fyrir því. En ég hygg, að menn hafi ekki fyrirfram gert sér fyllilega ljóst, hverju vélarnar gátu afkastað áður en ríkið keypti verksmiðjuna. Þegar hún var seld, þá ábyrgðist seljandi, að hún gæti afkastað því að vinna úr 800 málum á sólarhring. En reynslan sýndi, að vélarnar gátu afkastað því að vinna úr 1000 og allt upp í 1100 málum á sólarhring. Og mér er óhætt að fullyrða, að sú aukning, sem átt hefir sér þarna stað á afkastamagni verksmiðjunnar, hefir ekki orðið vegna þess, að umbætur hafi verið gerðar svo neinu nemi á verksmiðjunni.

Hv. 8. landsk. hefir tjáð sig fylgjandi þessu frv. Og hv. þm. Ísaf. hefir lýst því yfir, að hann teldi það ekki ósanngjarnt, að bæjarfélög og sveitarfélög þar, sem verksmiðjurnar starfa, fengju einhverjar tekjur af þeim. Þannig hefir þá hv. þm. Ísaf. algerlega gengið inn á anda og stefnu frv., þó hinsvegar geti verið ágreiningur um, hvert gjaldið skuli vera. En ég er reiðubúinn til samkomulags um það.

Hv. 3. landsk. hefir hinsvegar talað um þetta mál af meiri andstöðu en hv. þm. Ísaf. Gæti ég trúað, að það stafaði af því, að hann hefir áður gefið ýmsar yfirlýsingar í sambandi við þetta. En hann hlýtur að sjá, að þetta er ákaflega mikið sanngirnismál, sem hér er farið fram á. Það hljóta menn að ganga inn á, þó að menn hinsvegar vilji ekki íþyngja útgerðinni um skör fram. Það er nú einu sinni svo, að óhjákvæmilegt er að leggja gjöld til bæjar- og sveitarfélaga á fleira en gott þykir að leggja þau á. Fyrst og fremst verður í því efni að fara eftir því, hvað er nauðsynlegt vegna þarfa þessara bæjar- og sveitarfélaga, og hinsvegar einnig eftir því, hvað sanngjarnt er, þegar um það er að ræða, hverjir eigi að bera þessi gjöld. Og þegar á það er litið, hversu mikill atvinnurekstur er á þeim stöðum, þar sem síldarverksmiðjurnar eru, þá er ómögulegt með nokkurri sanngirni að bera á móti því, að rétt sé, að þessi fyrirtæki beri einhver gjöld, hvort sem þau eru hærri eða lægri, til þeirra bæjar- og sveitarfélaga, þar sem þau eru starfandi.