28.11.1935
Neðri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í C-deild Alþingistíðinda. (4311)

191. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Jörundur Brynjólfsson) [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að bera fram þetta frv. um breyt. á þingsköpum. Þessar breyt. sýnast í fljótu bragði vera miklu meiri fyrirferðar en þær raunverulega eru. En mikið af efni þessa frv. er ekki annað en sjálfsagðar leiðréttingar og mest til samræmis við stjskr.

Aðalbreyt. eru þá þessar helzt: Í fyrsta lagi er það, að lagt er til, að ákvæði þingskapanna um atkv. þm. verði nokkru ótvíræðari og á annan veg en nú er í gildandi þingsköpum. Ég býst við, að menn geti verið ásáttir um, að það geti ekki gengið, sem þó hefir tíðkazt, að þm. greiði ekki atkv. um mál. Er það hvorttveggja, að mjög er óeðlilegt slíkt hátterni þm. og að það er brot á þeim lögum, er mæla svo fyrir, að þm. séu skyldir til þátttöku í atkvgr. virðist bæði sjálfsagt og eðlilegt, að sá meiri hl., sem fyrir hendi er í hverju máli, geti ráðið því, að mál nái fram að ganga, og hlutleysi þm. hafi ekki vald á afgreiðslu þeirra. Í okkar eldri þingsköpum var svo fyrir mælt, að þm., sem greiddi ekki atkv. og gaf enga skýringu á, hvers vegna var talinn með meiri hl. Að vísu hefir ekki mikið bólað á því, að þm. greiddu ekki atkv. til þess að drepa mál, og áður var það svo, að slíkt kom ekki fyrir nema þegar þm. lá í léttu rúmi, hver niðurstaða máls yrði, en nú hefir komið fyrir, að með þessari aðferð hafa mál verið tafin mjög frá afgreiðslu. Ákvæði stjskr. eru þau, að ekki má afgr. mál nema meiri hl. þm. sé á fundi og taki þátt í atkvgr. Nú hefir þetta verið skilið svo um stund, eða frá því við fengum nýju þingsköpin, að þeir þm., sem ekki greiddu atkv., væru ekki þátttakendur í atkvgr. Hér er lagt til, að sá þm., sem ekki færir gildar ástæður fyrir — þ. e. a. s. ástæður, sem forseti eða þd. tekur gildar, — að hann situr hjá, skuli talinn taka þátt í atkvgr., hvort sem hann gerir það eða ekki. Þetta orðalag er haft með tilliti til stjskr., sem ákveður, að ekki sé lögleg afgreiðsla mála, nema tiltekinn meiri hl. taki þátt í atkvgr. Sýnist mér eðlilegra að hafa þetta ákvæði þannig en að skipa þessum mönnum með meiri hlutanum. eins og var í eldri þingsköpum. Þó þetta ákvæði sé tekið upp, er ekki hægt að segja, að það brjóti í bága við stjórnarskipunarlögin. Stjskr. Dana hefir nákvæmlega sömu ákvæði, og í þingsköpum þeirra er eins ákveðið og hér er lagt til að verði. Vil ég vona, að hv. þm. geti samþ. þessa breyt. (JakM: Þó hún sé stj.skrárbrot!). Þó hún sé brot á stjskr., segir hv. 3. þm. Reykv. Hann ræður því náttúrlega, hvaða skilning hann leggur í þetta, en þá hefir stjskr. verið brotin fram til ársins 1915, og þá brjóta Danir sína stjskr. enn þann dag í dag, eftir þessu að dæma. (JakM: „Það höfðingjarnir hafast að, ...“). Ég hygg að þetta sé nokkuð langt seilzt hjá hv. þm., þó ég skuli viðurkenna, að viðkunnanlegra hefði verið, að ákvæði stjskr. hefðu verið á annan veg, til þess að ekki væri hægt að túlka svo, að gengið sé of nærri ákvæðum hennar, við afgreiðslu mála nú í seinni tíð hefir það þrásinnis komið fyrir, að menn hafa brotið skyldur sínar og notað þetta ákvæði til að tefja mál, þó ekki væri til að drepa þau.

Ég ætla, hvað sem öðru líður, að menn séu sammála um, að leiðinlegt sé að sjá þm., sem ekki taka þátt í atkvgr. þrátt fyrir skýlaus fyrirmæli og ákvæði í lögum um skyldur þeirra í þessum efnum. Er þetta og ærið hvumleiður ósiður, sem rýrir álit þingsins út á við. Ég vil vona, að hv. 3. þm. Reykv., sem kom hér með innskot um stj.skrárbrot og vill vernda hana, sem réttmætt er, geti líka fallizt á, að menn eigi ekki að brjóta skýlaus lagaákvæði eins og þetta.

Þá er annað atriði, sem ég legg til, að verði breytt, og það er, að þegar flutt er mál inn á þing eftir að 4 vikur eru liðnar af þingi eða meira, þurfi ekki nema einfaldan meiri hluta fyrir afbrigðum eða leyfi deildar, þegar stjórnin flytur frv., eða nefnd að beiðni stj. Að öllum eðlilegum hætti ættu slík mái að vera efnismeiri og hafa meiri þýðingu, sem þannig eru flutt, og ætti því að nægja einfaldur meiri hluti fyrir leyfi deildar. Þetta skiptir þó ekki miklu máli.

Þá er þriðja atriðið, sem nokkru varðar um afbrigði frá þingsköpum, að ekki þurfi nema einfaldan meiri hl. til að leyfa þau, þegar mál er frá ríkisstj. eða flutt af t. d. óskiptri nefnd fyrir hennar atbeina. Getur það komið sér illa, og ekki sízt seint á þingi, ef líða þurfa 2 nætur milli umr. Hefi ég því lagt til, að þessu yrði breytt, svo ekki þurfi eins að valda óþægindum eða töfum.

Þá er eitt atriði enn, sem ég hefi lagt til, að breytt verði, og snertir umræðutíma, um að hann megi ákveða af deildinni áður en umr. hefjast. Nú er hægt að skera umr. niður, ef meiri hl. samþ., og hefir það ákvæði ekki verið mjög oft notað, sem ég tel líka betur fara, að eigi sé gert um skör fram. Þegar þannig eru skornar niður umr., getur staðið mjög ólíkt á um, hvað talað hefir verið með eða móti máli, og álít ég, að með þessari breyt. megi koma á meiri jöfnuði og réttlæti, ef tíminn er ákveðinn fyrirfram, en með hinni aðferðinni, sem að vísu er heimilað að nota áfram. Þetta ákvæði getur vitanlega orðið skoðunarmál og ágreinings, og mun af minni hálfu ekki verða lagt á það sérstakt kapp.

Þá er lagt til að fella inn í þingsköpin ákvæði um útvarpsumr. frá þinginu, og er það atriði eins og það áður hafði verið ákvarðað, svo að ekki er ástæða til þess að fjölyrða frekar um það. Vil ég svo að lokum leyfa mér að stinga upp á því, að málinu verði vísað til hv. allshn., að þessari umr. lokinni.