28.11.1935
Neðri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í C-deild Alþingistíðinda. (4314)

191. mál, þingsköp Alþingis

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. þm. gerir ráð fyrir, að við getum verið sammála um, að ákjósanlegt væri, að orðalag stjskr. væri öðruvísi en það er að því leyti, sem hér um ræðir; en því fer fjarri, að við getum verið sammála um það, því að ég álít, að þetta ákvæði eigi einmitt að vera eins og það er. Það er augljóst, að það er orðað þannig af ásettu ráði, því að ef það væri ekki tilgangurinn að uppfylla þetta tvennt: að meira en helmingur væri á fundi og að meira en helmingur þm. tæki þátt í atkvgr., þá hefði verið nóg að segja, að meira en helmingur þm. þyrfti að vera á fundi. En þetta tvennt hefir verið sett fram í ákvæði stjskr. af því, að ætlazt hefir verið til, að því yrði fullnægt.

Hvað tilvitnunum hv. þm. í stjskr. og þingsköp Dana viðvíkur, þá vil ég bara taka það fram, að okkur kemur það ekkert við, því að það réttlætir ekkert, að okkar stjskr. sé brotin með þingskapaákvæði. — Hv. þm. benti á það, að lengi framan af hefði þetta verið í framkvæmdinni eins og hann vill nú breyta þessu. En því er til að svara, að þingsköpunum var breytt til samræmis við stjskr. af ásettu ráði, og ef hv. þm. vill hafa fyrir því að kynna sér rökin, sem lágu til þeirrar breyt. á þingsköpunum, þá mun hann vafalaust komast að þeirri niðurstöðu, að það hafi ekki verið tilviljun tóm, að sú breyt. var gerð, heldur ákveðinn tilgangur, að koma ákvæðum þingskapanna í samræmi við ákvæði stjskr. Það er rétt hjá hv. þm., að ef mál hefir ekki meirihlutafylgi, þá er hætta á, að svo geti farið um það, að það yrði fellt, ef allir þm. gera skyldu sína, en það, að mál geti fallið á því, að þm. greiði ekki atkv., byggist einmitt á því, að einhver af þm. notar ekki sinn þingmannsrétt og sína þingmannsskyldu. Það er einmitt það, sem hætta er á, sem sé, að ráðandi þingflokkar þvingi sína þm. til þess að vera fjarverandi eða greiða ekki atkv. Það getur komið fyrir, að einn þm. úr þingflokki meiri hl. neiti að greiða atkv. og ljái ekki því máli, sem flokkur hans vill koma fram, þann „pósitíva“ stuðning, sem hann á að gera sem flokksmaður, en þá á honum að haldast það uppi, en þótt þm. andstæðinganna noti sama ráð, þá nægir það ekki til þess að fella mál, því að þeir eru taldir taka þátt í atkvgr., og málinu er þannig borgið. Sami þm. getur einnig náð sama tilgangi með því að vera fjarverandi. Þá geta andstæðingarnir að vísu gengið af fundi, en ég sé ekki, hvað við það er unnið, að í hvert skipti, sem andstæðingaflokkur vill fella mál, gangi hann af fundi, í stað þess að sitja hjá í atkvgr. Að því leyti verður þessi breyt. tilgangslaus, að hægt er að mæta þessu á annan hátt. Ég skil ekki, hvað þessar krókaleiðir eiga að þýða, þegar augljóst er, að þær brjóta í bága við bein fyrirmæli stjskr.

Annars get ég náttúrlega fallizt á það, að ekki sé vert að lengja þessar umr. Það á betur við að ræða þessi atriði málsins við 2. umr., en mér fannst rétt að athuga þetta nú þegar við 1. umr., vegna þess að mér fannst vera um skýlaust brot á stjskr. að ræða með þessari breyt. hv. þm.