10.12.1935
Neðri deild: 95. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í C-deild Alþingistíðinda. (4324)

191. mál, þingsköp Alþingis

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Þetta frv. um breyt. á þingsköpum Alþingis er áreiðanlega eitt af þeim merkari málum, sem fyrir þessu þingi liggja. Ég gat því miður ekki hlustað á ræðu hv. frsm., en frá mínu sjónarmiði er það alveg tvímælalaust, að ef við getum ekki skapað þinginu reglur eða vinnubrögð í samræmi við þann hraða, sem nú er umhverfis okkur, þá er ég viss um, að þingræðið tapar virðingu hjá þjóðinni. Og ég er ekki í vafa um, að þessar till., sem hér liggja fyrir, eru til stórkostlegra bóta fyrir vinnubrögðin á Alþingi. Það er aðalatriðið, að hægt sé að koma í veg fyrir málþófið, sem stundum er alveg óhæfilegt, og nokkur önnur nýmæli eru í frv., sem telja má álíka merk og þetta. Um dagskrártill. hv. þm. Snæf. og 8. landsk. vil ég segja það, að mér finnst ekki neitt í vegi fyrir því, að samkomulag geti orðið á milli flokkanna um þingskapabreytinguna, þó að þessi nefnd frá síðasta þingi hafi ekki unnið að málinu á þann hátt, að samkomulag hafi náðst. Það var sett upp af hálfu andstöðuflokka stj., að samkomulag yrði um skipun forseta þingsins, þannig að forsetastöðunum yrði skipt á milli meirihlutaflokkanna og andstæðinga stj. En það hygg ég, að ekki geti gengið, því að forsetar ráða mjög miklu um gang mála í þinginu. — En ég get ekki séð að það séu neitt minni líkur fyrir samkomulagi um málið nú, undir meðferð þess hér í þd., eða t. d. í hv. allshn., sem skipuð er mönnum úr öllum þingflokkum, heldur en í þeirri nefnd, sem sett var til þess af flokkunum á síðasta þingi. Þessar brtt. eru ekki margbrotnar, og flokkarnir geta verið ákaflega fljótir að koma sér niður á því, hvort þeir aðhyllast þær eða ekki, eða hvort líkur eru til samkomulags um þær. Það er alls ekki lokuð leið fyrir samkomulagi, þó að frv. gangi nú til 3. umr. Aðalatriðið er það, að þingmenn geri það upp við sjálfa sig hvort þeir aðhyllast brtt., sem ganga í þá átt að bæta vinnubrögð þingsins frá því, sem þau eru nú. Það er alls ekki svo að skilja, að meiri hl. þingsins sé að setja núv. minni hl. reglur til að haga sér eftir í þinginu, því að vitanlega gerir núv. þingmeirihluti sér það ljóst, að hann verður einnig að beygja sig fyrir þessum reglum nú, og jafnframt sem minni hl. á Alþingi, þegar að því kemur. Hér er því alls ekki um það að ræða, að verið sé að setja nein höft á minni hl. eða þvingunarráðstafanir heldur vinnubragðareglur, sem allir þingflokkar séu jafnreiðubúnir til að fylgja við störf á Alþingi, bæði sem meiri og minni hl.

Ég álít, að hægt sé að koma málinu fram á þessu þingi með samkomulagi. Ég hefi staðið lítilsháttar að undirbúningi þessa frv. með forsetunum og skrifstofustj. Alþ., því að ég hefi svo oft veitt því athygli, hver nauðsyn er á því að laga vinnubrögð þingsins. Mér er því áhugamál að fá frv. afgr. nú, svo að hægt verði að beita því á Alþingi, sem kemur saman nú eftir áramótin. En ef málinu verður nú frestað, þá er útilokað, að það verði hægt.