10.12.1935
Neðri deild: 95. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í C-deild Alþingistíðinda. (4326)

191. mál, þingsköp Alþingis

Jakob Möller [óyfirl.]:

Út af hinni löngu ræðu hv. 1. landsk. um það atriði þessa máls, sem deilt var um við 1. umr., verð ég að segja það, að því fór fjarri, að röksemdir hv. þm. hrófluðu nokkuð við mínum skilningi á þeim ákvæðum, sem hér er um að ræða. Fyrir mér er það enginn guðsdómur, hvað venja er eða regla í Danmörku; það getur verið, að einhverjir aðrir hv. þm. láti það skera úr fyrir sig, en ég get ekki tekið slíka reglu fram yfir það, sem heilbrigð skynsemi hlýtur að úrskurða. Þó þessari dönsku reglu hafi verið fylgt hér frá 1876 til 1915, þá bindur það okkur ekki neitt. En 1915 var það vit ráðandi, að Íslendingar létu sér skiljast, að ákvæði stjskr. um það, að til þess að gera fullnaðarályktun um mál á Alþingi þurfi meira en helmingur þingmanna að vera á fundi og greiða þar atkv., þýddi annað en það, að það nægði, að helmingur þingmanna væri á fundi, þó minni hl. þeirra tæki þátt í atkvgr. Mönnum skildist, að þetta gat ekki samrýmzt, og því var þingsköpunum breytt, en stjskr. látin haldast óbreytt. En nú er komin fram till. um að færa þetta aftur í gamla, danska horfið og láta orð stjskr. þýða allt annað en þau segja. Ef það væri svo, að það ætti að nægja, að helmingur þm. sé á fundi, er atkvgr. fara fram, þá þyrfti vitanlega ekkert frekar að taka fram um þetta, hvorki í stjskr. eða þingsköpum. En nú er bætt við, að það þurfi meira til þess að atkvgr. sé lögmæt; að það þurfi líka meira en helmingur þm. að taka þátt í atkvgr. Náttúrlega er það ekkert annað en firra, eins og hver maður getur séð, að það geti talizt að taka þátt í atkvgr. að greiða ekki atkv. Það er svo augljós mótsögn við heilbrigðan skilning, að það er óskiljanlegt, að nokkur skuli leyfa sér að halda slíku fram, enda hefði það ekki verið gert, ef þessi ágæta danska regla hefði ekki verið til; það er svo sem auðvitað. Þar við bætist, að þetta ákvæði stjskr. hefir vissulega sinn fyllilega réttmæta tilgang. Það á að girða fyrir, að það geti komið fyrir, að mál sé afgr. frá Alþingi með minni hl. atkv., og sá tilgangur er fyllilega réttmætur. Sú breyt., sem hér er farið fram á, gerir mögulegt að afgr. mál frá Alþingi án þess að meiri hl. þm. sé því fylgjandi.

Hv. 1. landsk. var eitthvað að vísa til þingræðis og hvað væri vilji þeirra manna, sem fylgdu þingræðinu. Slík orð fara illa í munni þeirra manna, sem vinna að því, að hægt sé að afgr. mál með minni hl. á Alþingi. Og þau fara illa í munni þeirra manna yfirleitt, sem leggja lið frv. hæstv. forseta, þegar undan eru skildar orðalagsbreyt., sem eru til samræmis við þær breyt., sem orðið hafa á stjskr., og þess vegna réttmætar. Hæstv. forseti talaði fagurlega um takmörkun ræðutíma og rétt þm. til að tala á alþingi. En það er vissulega ekki í anda þingræðisins að setja slíkar skorður við málfrelsi þm. sem farið er fram á í þessu frv.

Ég skal ekki þrátta mikið um þessi atriði; mér virðist þau svo ljós, að löng ræðuhöld um þau séu þýðingarlaus. Menn hljóta sjálfir að geta gert sér grein fyrir, hvað rétt er í þessu efni, þegar aðeins er á það bent. Ég vildi þó vekja athygli á því, að það er alls ekki svo saklaust eins og hæstv. forseti vildi vera láta að breyta ákvæðunum um afbrigði. Í 19. gr. þingskapanna er ákveðið, að ekki megi taka mál til umr. fyrr en liðnar eru tvær nætur frá því að því er útbýtt, og að ný mál megi ekki taka fyrir eftir að fjórar vikur eru liðnar af þingtímanum nema með samþykki d.; það ákvæði nær þó eigi til breyt. á stjskr. eða þingsköpum. Þessu vill hæstv. forseti breyta þannig, að eigi þurfi heldur að leita samþykkis d. um, að það megi koma fyrir frv., sem flutt eru af hálfu stj. eða af þingn. óskiptri, og að einfaldur meiri hl. geti veitt afbrigði, þegar um slík mál er að ræða.

Þetta er nú náttúrlega alveg sitt hvað, hvort frv. eru flutt af n. óskiptri eða eftir tilmælum ríkisstj., því frv., sem eru flutt af n., má ætla, að séu athuguð í öllum flokkum áður en þau eru borin fram, en um frv., sem flutt eru eftir beiðni ríkisstj., þarf slíkt alls ekki að vera. En þessi frestur, sem áskilinn er á Alþingi frá því mál er lagt fram og þangað til það er tekið fyrir, er ákveðinn með tilliti til þess, að þm. eigi kost á að kynna sér málin áður en farið er að ræða þau. Þess vegna er rétt að hafa ákvæðin um þetta þröng, alveg eins þó frv. sé flutt af hálfu ríkisstj.

Ég vildi líka benda á, af því mikið er deilt um, hvort ákvæði þessa frv. eru í samræmi við stjskr., að í 10. gr. er tekið fram, að fundur í Sþ. sé lögmætur, ef helmingur þm. er á fundi, en samkv. stjskr. þarf þetta að vera helmingur þm. úr hvorri d. fyrir sig. Þó þetta hafi að vísu verið svona í gildandi þingsköpum, þá virðist rétt, þegar þingsköpunum er breytt á annað borð, að færa það til samræmis við stjskr. Ég hygg, að fyrirmælum stjskr. hafi ekki ætíð verið fylgt í þessu efni, vegna þess að þetta hefir ekki verið tekið fram í þingsköpum. En stjskr. tekur ákveðið fram, að til þess lögmætur sé fundur í Sþ., þurfi að vera viðstaddur helmingur þm. úr hvorri deild.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta meira, en vil aðeins undirstrika, að það er augljóst mál, að ég hafði rétt fyrir mér við 1. umr., er ég hélt fram, að það væri tvímælalaust stjskr.brot að breyta þingsköpunum eins og hér er farið fram á.