10.12.1935
Neðri deild: 95. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í C-deild Alþingistíðinda. (4328)

191. mál, þingsköp Alþingis

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. 1. landsk. hefir nú gert ennþá ljósari grein fyrir því en mér tókst að gera, hvernig á því stendur, að þetta umrædda ákvæði komst inn í gömlu íslenzku þingsköpin. Hann vildi að vísu styrkja sinn málstað með því, að það hefði verið undir forustu hinna gömlu ágætu lagamanna, er hér áttu sæti á þingi, en það er augljóst, að þrátt fyrir þingsetu þeirra hefir þetta ákvæði verið tekið athugunarlaust upp úr dönskum lögum. Það er rétt hjá hv. þm., að dönsk lagavísindi hafa verið undirstaða hinna íslenzku lagavísinda, og ég er ekki í vafa um, að í ýmsum efnum hefir verið byggt of mikið á dönsku lagavísindunum, þ. e. a. s., það hafi ekki verið beitt nægilegri gagnrýni gagnvart þeim. Þannig hefir í þessu tilfelli ákvæðið verið tekið blindandi upp úr dönskum lögum, án þess að athuga nægilega, hvort það gæti staðizt. Hinsvegar vil ég benda hv. þm. á það, af því hann var að tala um þessa ágætu lagamenn okkar, að þeir áttu einnig sæti á Alþingi 1915 og létu sér lynda breyt. á þingsköpunum, sem þá var gerð þvert ofan í hið danska ákvæði. Framkoma þessara gömlu og góðu lagamanna, sem hv. þm. vitnaði til, styður þannig, að ég muni hafa rétt fyrir mér. [Vantar í handr.]. Honum hafði orðið það á að taka þetta gott og gilt án athugunar, en þegar þingið benti honum á, að þetta gæti ekki átt sér stað, þá féllst hann á það og breytti því. Frv. var þá breytt og þingsköpin urðu þá eins og þau hafa síðan verið til þessa dags. Og að segja, að þessi ágæti lagamaður hafi samþ. breyt. í allt öðrum tilgangi, vona ég, að hv. 1. landsk. geri ekki. Hv. 1. landsk. sagðist ekki hafa orðið þess var, að í umr., sem þá urðu, hefði verið gerð grein fyrir tilganginum með lagasetningunni. Hann kom ekki fram í umr. þeim, sem urðu um frv. sjálft, og ekki í grg. þess, heldur kom hann fram í brtt. frá Guðm. Björnssyni fyrrv. landlækni. Hann hafði sinn ákveðna tilgang með því. Ég veit ekki, hvort hv. 1. landsk. hefir átt við breyt. á þessu ákvæði, þegar hann talaði um, að þetta frv. miðaði að því að gera starfsemi Alþ. léttari í vöfunum, en ég hygg þó, að hann hafi frekar átt við málfrelsið í því sambandi. En ef hann hefir átt við þessa breyt., þá er það réttnefni, að hún gerir starfsemi Alþ. léttari í vöfunum. Hún miðar að því að koma störfum Alþ. meira á ringulreið, svo að öll lagasetning verður meira háð tilviljun, ef breytt verður í það horf, sem hv. þm. vill. Það er auðsætt, ef minni kröfur eru gerðar til þess, að samþykktir Alþ. séu lögmætar, að þá miðar það að því að færa löggjafarstarfið meira inn á tilviljunarbrautina, og verður þá kylfa látin ráða kasti um það. hvað margir þm. eru við, og er slík breyt. ekki til bóta.

Ég veit, að tilgangurinn er ekki sá, sem hv. þm. gat um, heldur sá, að færa valdið yfir löggjafarstarfseminni meira í hendur einstakra ráðamanna í flokkunum. Tilgangurinn er ekki sá, að gera starfsemi Alþ. léttari í vöfunum, heldur sá, að færa stjórnarfarið meira í einræðisáttina. Það er fjarri lýðræði eða þingræði, heldur er það einræðistilhneiging, sem vakir fyrir mönnum, þegar á að fara að gera við því, að stj. eða ráðamenn flokkanna þurfi að hlíta því, þó einhverjir þm. í flokkunum séu ekki með málinu, og á þannig að vera hægt að afgr. málin án þess að þau hafi óskipt fylgi þeirra, sem mynda meiri hl. þings. Það á því að koma því svo fyrir, að málin séu samþ. án þess að samþykkt meiri hl. þings fáist fyrir þeim.