12.12.1935
Neðri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í C-deild Alþingistíðinda. (4335)

191. mál, þingsköp Alþingis

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég ætla að taka til máls um þessi deiluatriði við hæstv. forseta. Þegar málið var tekið út af dagskrá á síðasta fundi, þá var þess ekki getið, að umr. væri lokið, og ég stóð í þeirri trú, að hæstv. forsrh. væri á mælendaskrá, og var því ekki viðbúinn að biðja um orðið. En nú hefir hv. þm. Snæf. kvatt sér hljóðs, og lá beinast við að gefa honum orðið, en lýsa ekki umr. lokið.

Ég skil hæstv. forseta svo, úr því hann leyfði mér að gera þessa aths., að þá sé umr. ekki lokið, og vil því gera stutta aths. um það, að þar sem því hefir verið haldið fram, að hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða á ákvæðum viðvíkjandi því, að mál fái löglega afgreiðslu á þingi, en þessu hefir verið mótmælt og sagt, að ekki geti verið um stjórnarskrárbrot að tala, af því að þessir hlutir hafi verið praktiseraðir bæði hér og líka í öðru landi, sem mjög er nú tekið til fyrirmyndar, þá vil ég vekja athygli á því, að þetta er þá ekki eina stjskr.brotið, sem átt hefir sér stað í þessu efni.

Fram til 1915 var það í lögum um þingsköp, að forseti hafði ekki atkvæðisrétt. En þetta var ótvírætt stjskr.brot, því að sjálfsögðu átti hann rétt til að greiða atkv. samkv. stjskr. og tilgangi hennar um rétt og skyldur þingmanna, og var þetta því rangt í l. Það eru allir sammála um, að þetta hafi verið stjskr.brot. Og þó slíkt ákvæði væri í l., þá var það stjórnarskrárbrot fyrir því.

Að öðru leyti vil ég undirstrika það, sem ég hefi áður sagt í umr., að það er augljóst mál, að sú skýring á stjskr., að þm. greiði atkv. líka með því að greiða ekki atkv., er í alla staði óleyfileg. Til 1915 var þetta leyfilegt, og ekki aðeins þetta, heldur einnig það, eins og ég hefi sýnt fram á, að forseti hefði ekki atkvæðisrétt. Ég tel það alveg ósæmilegt að breyta aftur yfir í þetta gamla horf, og það er tvímælalaust óheimilt eftir stjskr.