12.12.1935
Neðri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í C-deild Alþingistíðinda. (4340)

191. mál, þingsköp Alþingis

Jörundur Brynjólfsson [óyfirl.]:

Það eru aðeins örfá orð, og þá aðallega í tilefni af þeim óskum, sem hefir verið beint til mín, að ég af minni hálfu reyni ekki að þrýsta þessu máli fram, en reyndi að fá um það samkomulag. Ég skal þegar geta þess, að þótt ég hafi flutt málið einn hér í Nd., þá hafa fleiri menn unnið að þessu máli, því að bæði hæstv. forseti Ed. og hæstv. forseli Sþ. hafa verið með í ráðum um þessar breyt. á þingsköpunum. Það, sem ég segi hér, er aðeins af minni hálfu, en ég get lýst því yfir, skilmálalaust, að ég kysi helzt við lagasetningu alla hér á þingi, þessa sem aðra, að hægt væri þar að ná sem beztu samkomulagi, og er fjarri því, að ég óski þess, að mál séu leyst með ósamkomulagi. Get ég tekið undir þau ummæli hvað þetta mál snertir, að hér er um mjög þýðingarmikla löggjöf að ræða, því að eftir þessum l. eiga þingm. að starfa á hverjum tíma og eftir þeim eiga að ráðast úrslit mála hér á þingi. Það varðar því vitanlega mjög miklu, hvernig starfsreglur Alþingis eru. En ég verð að segja það og játa hreinskilnislega, að ég hefi ósjaldan fundið til þess, að þær starfsreglur Alþingis, sem nú gilda, eru alls ekki heppilegar og undir mörgum kringumstæðum ekki við hlítandi. Sú breyting, sem gerð var á þeim á sinni tíð, hefir vafalaust verið gerð í góðri trú, að ekki yrði að sök, en hún hefir leitt af sér meiri erfiðleika í afgreiðslu mála en eðlilegt er. Ég þori að fullyrða, að ekkert hinna fjölmennari þjóðþinga mundi geta látið sér lynda að starfa eftir slíkum starfsreglum sem þessum, því að þeim mundi ekki endast árið til þess að fá lausn á málum sínum, ef þingin ættu að starfa eftir samskonar reglum og við höfum gert nú um nokkurra ára skeið. Þess vegna hefir af minni hálfu verið horfið að því ráði að bera fram þessar brtt.

Ég vil meina það, að ef Alþingi samþ. löggjöf um þetta efni, svipaða þessari, sem hér er lagt til, þá verði auðveldara að fá afgr. mál, og það alls ekki á neinn óeðlilegan hátt. Ég er þeirrar skoðunar, að þingmeirihluti eigi ekki að láta kenna aflsmunar umfram það, sem efni standa til og bein nauðsyn knýr þingmeirihl. til. Hitt er ekki nema eðlilegt á allan hátt, að meiri hl. ráði, og ég hygg, að það yrði erfitt, ætti að fara eftir algildum þingreglum, ef það þyrfti „kvalificeraðan“ meiri hluta til þess að mál næðu fram að ganga. Ég veit ekki, hvort menn eru við því búnir að breyta starfsreglum í þá átt. Þetta gildir í Sþ., en engum hefir, svo að ég viti, dottið í hug að færa það út á víðara svið, svo að mál yrðu afgr. á þann hátt í deildum. Þar er aðeins um einfaldan meiri hl. að ræða.

Um afgreiðslu málsins nú vil ég segja það, að mér sýnist vel mega afgr. það frá 2. umr. Ég vil beina því til þeirra, sem vilja fá samvinnu um málið, að mér finnst, að taka mætti upp samvinnu um það, og að því leyti, sem mig áhrærir, þá er ég fús til að ræða þær till., sem fram yrðu bornar í þessu sambandi. Það mætti þá sjá að því samtali loknu, hvernig fer með fyrirmæli og flutning málsins.

Svo vil ég víkja örfáum orðum að hv. þm. Borgf. Hann gerði aths. við brtt. á þskj. 716, um útvarpsumr., og fannst, að hún mundi rekast á þær samkomulagsreglur, sem þingflokkarnir hafa komið sér saman um við útvarpsumr. Mér fannst ekki við hlítandi að taka algerlega málfrelsi við útvarpsumr. af þm. utan flokka. Þess vegna er þessi brtt. við reglur um útvarpsumr. nú komin fram, að þingmenn utan flokka hafi leyfi til að tala í útvarp. Síðasta málsgr. í þessum reglum segir aðeins, að forseti skeri úr ágreiningi, sem verða kynni um skilning á reglunum og framkvæmd þeirra. Þó að það mætti að vissu leyti sýnast, að koma mætti slíku undir þetta ákvæði, þá finnst mér í alla staði réttara að taka það fram í þessu frv., að ef utanflokkamaður óskar eftir að taka til máls, þá hafi forseti heimild til þess að leyfa honum að taka þátt í umr., og ég held nú, að þótt það kunni að fara svo, að það raski ofurlítið þeim tíma, sem gert er ráð fyrir, að fari til þessara útvarpsumr., þá þurfi það ekki að snerta þann ræðutíma, sem er ætlaður flokkunum samkv. þessu frv. Sá tími, sem utanflokkaþm. fengi, bættist þá bara við útvarpsumræðutímann, og þá held ég, að fyrir þessu sé séð, en það er auðvelt að ákvarða þetta á annan veg, ef menn kjósa, að það sé á betri hátt fram tekið en gert er í þessari brtt., sem hér liggur fyrir. — Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið frekar að þessu sinni.