12.12.1935
Neðri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í C-deild Alþingistíðinda. (4345)

191. mál, þingsköp Alþingis

Jörundur Brynjólfsson [óyfirl.]:

Ég vil taka það fram út af ræðu hv. þm. Snæf., að orð mín féllu á þann hátt, að ég fyrir mitt leyti væri þess mjög æskjandi, að samkomulag gæti náðst um málið milli umr. Hitt er misskilningur, að ég hafi látið í ljós, að málið ætti, að bíða til næsta þings. En enn hefir bað alls ekki komið fram, hverju Sjálfstfl. vill koma inn í hin nýju þingsköp, svo að hann sætti sig við þau. Hinsvegar er samkomulag milli stjórnarflokkanna um frv. mitt, og eins og ég hefi áður tekið fram, standa hinir aðrir forsetar að því með mér.

Ég vil alls ekki eggja hv. þm. Snæf. á það að taka aftur dagskrá sína nú. Ég get enga tryggingu gefið honum fyrir því, að allt samkomulag milli umr. fari ekki út um þúfur. En ef Sjálfstfl. vill einhverjar ákveðnar till. gera í málinu, ættu þær að koma fram sem fyrst. Annars heyrðist mér á hv. 8. landsk., að engin leið væri til þess að koma málum fram á einfaldari hátt en nú er, því að hans áliti væri allt slíkt brot á stjskr. Þessi skoðun þessa hv. þm. bendir ekki til þess, að hann a. m. k. geti teygt sig langt til samkomulags. Mér er ekkert kærara en að samkomulag náist, en slíkt ætti ekki að þurfa að taka marga daga, þar sem Sjálfstfl. ætti þegar að geta látið helztu óskir sínar í ljós.