12.12.1935
Neðri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í C-deild Alþingistíðinda. (4348)

191. mál, þingsköp Alþingis

Pétur Ottesen:

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum, er ég heyrði síðari ræðu hæstv. forseta, eftir hinar góðu undirtektir í fyrri ræðu hans. Mér skildist þá, að hann teldi heppilegast fyrir afgreiðslu málsins og gagnsemi laganna, að því yrði frestað til næsta þings. Enda er það alveg ljóst, að eigi að flaustra málinu af nú, verður ekki hægt að koma nægilegri athugun við. Það hefir þegar verið bent á margt, sem lagfæra þarf, en eigi að afgr. málið á 8—9 dögum, hefi ég enga trú á því, að það takist.

Mér skildist, að hverfa ætti út af þeirri braut, sem málið að réttu lagi á að fara, í fyrsta lagi með því, að málinu er ekki vísað til þeirrar nefndar, sem á að athuga þingsköp, og í öðru lagi með því, að þegar málinu er vísað til allshn., neitar meiri hl. þessarar n. að ræða það. Það var því í fyllstu alvöru, að ég sneri mér til forseta í bænartón, sem okkur er þó annars ekki geðfelldur, um það, að þetta mál yrði rætt rólega og vel undirbúið undir næsta þing, og fannst mér hann taka vel í það.

Ég vil taka undir það með hv. þm. Snæf., að dagskráin verði tekin aftur, í því trausti, að hæstv. forseti beiti sér fyrir því, að samkomulag náist og horfið verði út af hinni fyrri braut. Ég veit, að forseta er það ljóst, vegna þess hve lengi hann hefir stýrt fundum hér, hve nauðsynlegt er að hafa reglur, sem allmikill meiri hl. þings getur sætt sig við. Slíkt er mikils virði fyrir hvern forseta, en hitt torveldar starf hans og um leið öll þingstörf, að reglur um þingsköp séu knúðar fram með þeim einræðishug og kúgunaranda, sem raun hefir orðið á um ýms mál önnur hér á þingi hin síðari ár.